Gjaldfrjáls not af loftmyndum Alta

Í loftmyndasafni Alta eru nú 3234 myndir, teknar víðsvegar um landið en flestar þó á höfuðborgarsvæðinu. Myndirnar eru allar hnitsettar og aðgengilegar á vefsjá. Ákveðið hefur verið að gefa frjáls afnot af myndunum án endurgjalds en með því vill Alta leggja sitt af mörkum í sífellt vaxandi púkk opinna og gjaldfrjálsra upplýsinga. Stuðst er við hið alþjóðlega Creative Commons fyrirkomulag á afnotaleyfum. Um er að ræða "BY" skilmála sem þýðir að öllum er heimilt að nota loftmyndirnar án þess að fá til þess sérstakt leyfi. Þó er sett það skilyrði að uppruni myndarinnar komi skýrt fram með því að hún sé merkt "Alta ehf" og vísað á vef fyrirtækisins, www.alta.is. Ef vatnsmerkið á myndinni sést greinilega er skilyrðið sjálfkrafa uppfyllt.

Myndirnar á vefnum, sem hver sem er getur sótt, eru í takmarkaðri upplaust (800 px lárétt) og með vatnsmerki en hægt er að fá myndir í meiri upplausn og án vatnsmerkis með því að senda beiðni í tölvupósti til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Fyrir það er heldur ekki tekið gjald og sömu skilmálar gilda en myndirnar eru afgreiddar handvirkt og sendar við fyrstu hentugleika. Okkur þykir gaman að fá að vita til hvers myndirnar verða notaðar.

Smelltu hér til að opna loftmyndasafnið.

Svæðisgarður á Snæfellsnesi - Auðlind til sóknar

Heimamenn á Snæfellsnesi undirrituðu föstudaginn 4. apríl sáttmála um stofnun svæðisgarðsins Snæfellsness. Hann er samstarfsvettvangur, byggður á langtímasýn og vilja til varanlegs samstarf um þróun byggðar á forsendum nærtækra gæða og svæðisbundinnar sérstöðu. Markmiðið er að auka fjölbreytni í atvinnulífi og auka lífsgæði þeirra sem þar búa og starfa.

Þetta er hreinræktað frumkvöðlaverkefni Snæfellinga en í anda þróunar erlendis þar sem markviss svæðisbundin samvinna er nýtt til að efla innviði. Svæðisgarðurinn er verkfæri til að ýta undir jákvæða þróun og búsetu - eins konar byggðaþróunarmódel. Við hjá Alta höfum verið þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna að stofnun svæðisgarðsins með Snæfellingum á síðustu misserum. Svæðisskipulag er nýtt sem verkfæri til að móta stefnuna sem samvinnan byggir á. Þannig verður svæðisskipulagið sem sveitarfélögin fimm ákváðu að vinna í raun “sóknaráætlun” Snæfellsness.

Komið er á víðtæku samstarfi og leitað leiða til að auka og miðla þekkingu um Snæfellsnes, gæði þess og hagnýtingu gæðanna - til framfara. Með góðum og aðgengilegum upplýsingum um sérstöðu og auðlindir heimabyggðarinnar og leiðbeiningum um hvernig megi nýta þær frekar, er stutt við atvinnulíf og stofnanir samfélagsins. Leitað verður tækifæra til að búa til aukin verðmæti úr nærtækum gæðum hvort sem litið er til matvælavinnslu, iðnaðar, listsköpunar eða skólastarfs og rannsókna. Verðmætasköpun er lykilorð.

Sérstakur vefur lýsir svæðisgarðinum, sjá hér. Stutt myndband frá stofnfundinum má sjá hér.

Samfélagsábyrgð: Hagsæld fyrir mig og þig

Við hjá Alta þekkjum úr okkar ráðagjafarstarfi að auðveldara er að reka fyrirtæki með ábata, sem eru samfélagsábyrg. Samfélagsábyrgð er áhættustjórnun í raun, fyrirtæki vinna nánar með samfélaginu, njóta meiri virðingar og þekkja betur þarfir hagsmunaðila sinna. Lykillinn er nýskapandi hugsun og dæmin koma skemmtilega á óvart.

Við hjá Alta viljum miðla þessari reynslu og styrktum því málþing FKA á alþjóðadegi kvenna, í Silfurbergi í Hörpunni sem haldið var þann 8. mars 2014. Þar ræddu Afsané Bassir-Pour frá UNRIC um samfélagslega ábyrgð og ávinning fyrir fyrirtæki og samfélög í heild ásamt Halldóru Hreggviðsdóttur framkvæmdastjóra Alta, Sigurborgu Arnarsdóttur hjá Össuri og Janne Sigurdsson hjá Alcoa Fjarðaráli.

Hér er erindi Halldóru sem hún kallaði "Samfélagsábyrgð: Hagsæld fyrir mig og þig".

Menningar- og umhverfistúlkun = aragrúi fræðsluskilta?

Við hjá Alta aðstoðum við greiningu á staðaranda (e. sense of place) og nýtingu hans við ímyndarsköpun í ferðaþjónustu og við skipulagningu eða hönnun svæða. Þannig er t.d. staðarandi Snæfellsness einn grunnur að svæðisskipulagi fyrir svæðið, sjá hér.

Við aðstoðum einnig við menningar- og umhverfistúlkun (e. heritage interpretation) svæða, staða eða leiða, en slík túlkun getur aukið skilning fólks á þeim sögum sem búa í svæði og þeim upplýsingum sem má lesa úr landslagi og þar með styrkt upplifun og ánægju. Góð túlkun og miðlun á sögu og náttúru getur verið mikilvægari en skiltaskógur.

En hvernig túlkum við upplýsingar um sögu eða náttúru? Hér er dæmi frá Garðahverfi þar sem saga og náttúra svæðis er túlkuð, bæði sem grunnur að skipulagi og útivist. Sjá skipulagsgögn hér.

Vistvænt og samhent samfélag á Seltjarnarnesi

Sveitarfélög í nágrannalöndum okkar hafa í æ ríkara mæli valið að marka sér heildstæða framtíðarsýn þvert á hefðbundna stefnuflokka sem nefnd hefur verið “Whole Town Strategy”. Kostir slíkrar nálgunar eru ekki síst að ná utan um fjölbreytt málefni samfélagsins á heildstæðan og samræmdan hátt í stað þess að setja ólík málefni í mismunandi kassa og missa þá mögulega sjónar á því hvernig þau tengjast og hafa áhrif hvort á annað. Heildstæð stefnumótandi áætlanagerð sem þessi aðstoðar bæjaryfirvöld í átt að jákvæðum efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum breytingum.

Seltjarnarnesbær fékk ráðgjafa Alta til liðs við sig til að hnýta saman í heildarmynd þær áherslur sem markaðar hafa verið og verkefni sem unnið er að hjá bænum og snúa að umhverfi, útivist og vellíðan. Í tengslum við þessa vinnu var áhugi fyrir því að leita til íbúa eftir hugmyndum og sjónarmiðum varðandi framtíðarsýn í þessum málaflokkum en Seltjarnarnesbær taldi mikilvægt að íbúar væru virkir þátttakendur í þessu ferli. Vinnan samanstóð af stöðugreiningu, vinnufundi með starfsmönnum og nefndarmönnum bæjarins, vel sóttu íbúaþingi og greiningu niðurstaðna.

Úr þessari vinnu urðu til sjö viðmið Seltjarnarness sem hnýta saman áherslur fjölmargra málaflokka á borð við umhverfisstefnu, Staðardagskrá 21, menningarstefnu o.fl. í heildstæða framtíðarsýn. Viðmiðin sjö má líta á sem regnhlíf og leiðbeiningar til allra þeirra er vinna að málaflokkum tengdum umhverfis- og samfélagsmálum á Seltjarnarnesi og vilja veg þeirra sem mestan. Sjá nánar hér.

Upp