Skipulag í Urriðaholti vistvottað

Við hjá Alta héldum utanum vinnu við rammaskipulag í Urriðaholti í Garðabæ, sem hefur fengið nokkur erlend verðlaun og viðurkenningar vegna áherslna á sviði sjálfbærni í skipulagi. Þar voru einnig innleiddar í fyrsta sinn svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir, sem eru haldbetri og ódýrari en klassísk fráveitukerfi fyrir ofanvatn og eru óðum að ryðja sér til rúms í nágrannalöndum okkar sem helsta leið til lausnar í ofanvatnsmálum. Sjá hér TEDxReykjavík erindi Halldóru Hreggviðsdóttur framkvæmdastjóra Alta um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Urriðaholti.

Lesa meira...

Umhverfismat í 20 ár - afmælisráðstefna Skipulagsstofnunar

Í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda á Íslandi, hélt Skipulagsstofnun ráðstefnu í Hörpu síðast liðinn föstudag - sjá hér dagskrá. Halldóra Hreggviðsdótttir framkvæmdastjóri Alta hélt þar fyrirlestur "Hverju hefur matið breytt á 20 árum?" en Halldóra kom að innleiðingu fyrstu laganna sem sviðstjóri umhverfissvið hjá Skipulagsstofnun.

Lesa meira...

Að búa í haginn á tímum breytinga

Að búa í haginn á tímum breytinga var viðfangsefni fyrirlestrar sem Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta hélt á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga síðastliðinn fimmtudag í Hofi.

Halldóra benti á að með netvæðingu landsins bíði gríðarleg tækifæri til að efla einstaklinga við þekkingaröflun, til atvinnusköpunar og í stjórnsýslu. Hún benti einnig á tækifæri til byggðaþróunar sem búi í staðaranda svæða. Með þekkingu á þeim fjölbreytileika sem í svæðum búi verði til grunnur til að byggja upp sterkt vörumerki sem er samofið svæðinu sjálfu og nýir áfangastaðir verði til fyrir ferðamenn. Hún kom einnig inná tækifæri sem fælust í virku samtali um samspil verndar og nýtingar, þar sem hugsað væri út fyrir núverandi lögsögu og samstarfslínur og unnið svæðisbundið að því að gera sér mat úr sérstöðunni.

Hún fjallaði um áskoranir eins og loftslagsbreytingar, lengri lífaldur og lýðheilsu. Nýjar rannsóknir sýni að efla megi lýðheilsu á víðtækan hátt með göngu og hjólavænu umhverfi og góðu aðgengi að almenningssamgöngum og þar með lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu. Innleiðing blágrænna ofanvatnslausna fyrir regnvatn séu ódýrari en hefðbundnar leiðir og séu að ryðja sér hratt til rúms í nágrannalöndum okkar.

Skipulagsáætlanir, einkum svæðis- og aðalskipulagsáætlanir, séu bestu verkfæri sem sveitarstjórnir hafa til að búa í haginn og skapa þá framtíð sem þær kjósa. Þær hafa lagalegan sess sem skapar festu, eru mótaðar í nánu samráði við íbúa og þeirra hlutverk sé, ef þær eru rétt nýttar, að vera sóknaráætlanir fyrir samfélög.

Besta svarið við breytingum komandi ára sé sjálfsbjargarmiðað og framsýnt samfélag þar sem hver einstaklingur nýtir tækifæri til að bæta eigin hæfni og víkka út sjóndeildarhringinn og umburðarlyndi ríkir gagnvart frumlegum hugmyndum og sérvisku.

Byggðaþróun á grunni náttúru- og menningarauðs

Svæðisskipulagstillaga fyrir Snæfellsnes, sem Alta hefur unnið með svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi, hefur verið auglýst til kynningar með athugasemdafresti til 20. október nk.  Í tillögunni er sett fram áætlun um byggða- og atvinnuþróun á Snæfellsnesi sem miðar að því að atvinnulífið, þekkingargeirinn og samfélagið nýti sér í auknum mæli þau verðmæti sem felast í náttúru- og menningarauði Snæfellsness. Ennfremur að allt skipulag og mótun byggðar og umhverfis taki mið af þeim auði. Þannig er áætluninni ætlað að styrkja staðaranda og ímynd Snæfellsness og efla atvinnulíf og byggð á svæðinu.

Þrjú farfuglaheimili vottuð

Farfuglaheimilin í Dalvík, Akranesi og Sæberg í Húnavatnssýslu hafa á þessu ári hlotið vottun sem Græn Farfuglaheimili eftir úttekt hjá Alta samkvæmt viðmiðum Bandalag íslenskra farfuglaheimila. Samtals eru sextán Farfuglaheimili sem hlotið hafa vottunina sem tekur m.a. til innkaupa, upplýsinga til gesta, orkunotkunar og úrgangsflokkunar.

Upp