Nýr starfsmaður: Herborg Árnadóttir

Herborg Árnadóttir tók nýlega til starfa hjá Alta. Verkefni hennar snúast um skipulagshönnun og skipulagsgerð, samband borgarumhverfis og lýðheilsu, not á almenningsrýmum, mat á gönguhæfi umhverfis, vinnu með landupplýsingar, grafíska vinnu og þrívídd, umbrot og myndbandagerð.

Herborg hefur B.A. gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands og M.S. gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni Herborgar fjallaði um samband lýðheilsu og skipulags en þar rannsakaði hún sérstaklega tengsl borgarumhverfis og hversdagslegrar hreyfingar hjá ungu fólki í Reykjavík. Hún hefur einnig unnið við fjölbreyttar rannsóknir á borgarrýmum með rannsóknarhópnum Borghildi, en hún var einn af stofnendum hans (sjá www.borghildur.info).

Nýjar loftmyndir frá Borgarnesi

Nú hefur 175 loftmyndum frá Borgarnesi verið bætt í loftmyndasafn Alta. Rétt er að minna á að nýlega voru heimiluð gjaldfrjáls not af öllum myndunum í safninu, líka í viðskiptatilgangi, með því eina skilyrði að vísað væri til Alta sem eiganda. Myndirnar á loftmyndavefnum eru í takmarkaðri upplausn en fá má betri gæði með því að senda beiðni á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Nánar hér: http://loftmyndir.alta.is.

Hvað kemstu langt hjólandi eða gangandi?

Í tilefni þes að Landspítalinn er nú að virkja starfsmenn sína til að nota vistvænni samgöngumáta og bjóða þeim samgöngusamning þá útbjó Alta fyrir allar starfsstöðvar spítalans svokölluð korterskort. 

Kortin eru bráðsniðug og byggja á rannsókn sem Reykjavíkurborg gerði á því hversu langt maður kemst gangandi eða hjólandi á 15 mínútum. Það kemur á óvart að það er nokkuð drjúgt. Kortin eru nú aðgengileg starfsmönnum spítalans.

Svæðisskipulagstillaga fyrir Snæfellsnes

Svæðisskipulag fyrir Snæfellsnes hefur verið í vinnslu síðan á vormánuðum 2012 og liggur nú fyrir tillaga sem svæðisskipulagsnefnd hefur samþykkt að kynna fyrir almenningi í samræmi við 2. mgr. 23. gr. skipulagslaga. Tillöguna má nálgast hér: http://ssk-snaef.alta.is.

Íbúar Snæfellsness og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér tillöguna og senda ábendingar eða athugasemdir sínar til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir 5. maí nk.

Svæðisskipulagið er það sem kalla má stefnumarkandi skipulagsáætlun (strategic spatial plan). Það þýðir að skipulagið setur fram heildstæða almenna stefnu sem segir í hvaða átt menn ætla að ganga og í grófum dráttum hvernig, en útfærir ekki landnotkun eða grunngerð á uppdrætti eða setur nákvæma skipulagsskilmála.

Sjá nánar frétt á vef svæðisgarðsins.

Gjaldfrjáls not af loftmyndum Alta

Í loftmyndasafni Alta eru nú 3234 myndir, teknar víðsvegar um landið en flestar þó á höfuðborgarsvæðinu. Myndirnar eru allar hnitsettar og aðgengilegar á vefsjá. Ákveðið hefur verið að gefa frjáls afnot af myndunum án endurgjalds en með því vill Alta leggja sitt af mörkum í sífellt vaxandi púkk opinna og gjaldfrjálsra upplýsinga. Stuðst er við hið alþjóðlega Creative Commons fyrirkomulag á afnotaleyfum. Um er að ræða "BY" skilmála sem þýðir að öllum er heimilt að nota loftmyndirnar án þess að fá til þess sérstakt leyfi. Þó er sett það skilyrði að uppruni myndarinnar komi skýrt fram með því að hún sé merkt "Alta ehf" og vísað á vef fyrirtækisins, www.alta.is. Ef vatnsmerkið á myndinni sést greinilega er skilyrðið sjálfkrafa uppfyllt.

Myndirnar á vefnum, sem hver sem er getur sótt, eru í takmarkaðri upplaust (800 px lárétt) og með vatnsmerki en hægt er að fá myndir í meiri upplausn og án vatnsmerkis með því að senda beiðni í tölvupósti til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Fyrir það er heldur ekki tekið gjald og sömu skilmálar gilda en myndirnar eru afgreiddar handvirkt og sendar við fyrstu hentugleika. Okkur þykir gaman að fá að vita til hvers myndirnar verða notaðar.

Smelltu hér til að opna loftmyndasafnið.

Upp