Grundarfjarðarbær: Stefnumót við framtíðina

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson fyrir Skessuhorn.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar horfir til framtíðar og fylgir svæðisskipulagi eftir með því að marka nánari stefnu í aðalskipulagi sínu um umhverfi fólks og fyrirtækja.

Grundarfjarðarbær hefur samið við ráðgjafarfyrirtækið Alta um endurskoðun aðalskipulags bæjarins. Skrifað var undir samning þar að lútandi föstudaginn 8. janúar sl., með hefðbundnum fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkti í október 2014 að fram færi heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins en skipulagstímabil gildandi aðalskipulags var til ársins 2015. Nýtt aðalskipulag verður til a.m.k. 12 ára. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ganga til samninga við Alta um endurskoðun aðalskipulagsins, á grundvelli tillögu sem Alta vann fyrir bæjarstjórn í október 2015.

Verkið felst í að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins m.t.t. þróunar sem orðið hefur frá því núgildandi aðalskipulag var samþykkt, fyrir þéttbýlið 2003 og dreifbýlið 2010, og út frá mati á framtíðarþróun. Á grunni þessa mats verða viðfangsefni endurskoðunar ákveðin og stefna til a.m.k. næstu 12 ára mótuð. Hluti verkefnisins er að uppfæra aðalskipulagið til samræmis við kröfur nýrrar skipulagsreglugerðar.

Lögð verður áhersla á að kynna framgang verkefnisins vel fyrir bæjarbúum. Fyrsti áfangi verksins er gerð verkefnislýsingar þar sem fram mun koma hvernig samráði verður háttað og hvar og hvernig tækifæri gefast til að koma hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri.

Við endurskoðunina verður t.d. tekist á við það hvernig búið er í haginn fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu. Liður í því er að rýna þrjú svæði og vinna fyrir þau nánara skipulag en aðra hluta, svokallaðan rammahluta aðalskipulags. Svæðin þrjú eru miðbær, hafnarsvæði og athafnasvæði á Framnesi.

Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri sagðist hlakka til vinnunnar framundan, hún fæli í sér gott tækifæri til samtals við íbúa um tækifæri og þróun samfélagsins. Góður grunnur var lagður með samþykkt fimm sveitarfélaga á svæðisskipulagi fyrir Snæfellsnes í mars 2015. Svæðisskipulagið einfaldar vinnuna við aðalskipulagið nú, þar sem það leggur ákveðnar línur um þróun svæðisins til framtíðar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa sammælst um að útfæra nánar í aðalskipulagi sínu.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta er með starfsemi á Snæfellsnesi og í Reykjavík. Verkefnisstjóri verður Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta í Grundarfirði, en hún og Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, verða helstu ráðgjafar í verkefninu. Þær Björg og Matthildur voru einnig aðalráðgjafar við undirbúning að stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness og gerð svæðisskipulagsins fyrir Snæfellsnes. Aðrir ráðgjafar Alta koma einnig að verkinu og verða bæjarstjórn og skipulagsnefnd til aðstoðar. Verkið hefst í janúar 2016, en áætluð verklok eru haust/vetur 2017.

Blágrænar ofanvatnslausnir - 10 góðar ástæður

Þetta var viðfangsefni Heiðu Aðalsteinsdóttur landslagsarkitekts hjá Alta í hádegiserindi á þemafundi Skipulagsstofnunar og Vistbyggðaráðs í dag. Heiða fékk úthlutað úr Rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar árið 2014 til að gera leiðbeiningar um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna við íslenskar aðstæður og var erindið sótt í leiðbeiningagerðina.

Erindið var hið fyrsta í röð þemafunda er Skipulagsstofnun hyggst halda, þar sem fyrirlesarar sem hafa fengið styrk gera grein fyrir verkefnum sínum. Hádegisfundurinn var afar vel sóttur og ljóst að mikill áhugi er fyrir blágrænum ofanvatnslausnum hér á landi. Sjá glærur hér.

Tækifæri til fullvinnslu í ferðaþjónustu

Í grein sinni í Markaðnum þann 18. nóvember, bendir Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta á að líta megi á áhuga ferðamanna á náttúru, menningu og sögu Íslands sem nokkurs konar hráefni. Ástæða sé til að „fullvinna“ þetta hráefni enn frekar en nú er gert, í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu, dreifa álagi á landið og styðja við byggðaþróun. Fullvinnslan getur t.d. falist í þróun nýrra áfangastaða, þjónustu og vara sem byggja á sérstöðu landsins.

Með því að nýta áhuga ferðamanna - hráefnið, túlka betur og fræða um það sem í tilteknum svæðum býr, getum við fjölgað áfangastöðum, dreift álagi og lengt dvalartíma á hverjum stað. Þannig verður Ísland ekki bara eitt “brand”, ferðamenn hafa ástæðu til að koma aftur og aftur og stuðlað er að aukinni sátt ferðamanna og íbúa. Sjá hér slóð á greinina.

Alta tekur þátt í samstarfi um loftslagsmál

Alta er í hópi 103 íslenskra fyrirtækja sem sameinast um aðgerðir til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og úrgangsmyndun starfsemi sinnar. Undirritun yfirlýsingar þessa efnis fór fram í Höfða í dag.

Fyrirtækin munu í kjölfarið þurfa að leita nýrra leiða á þessum sviðum samfélagsábyrgðar.

Reynslan hefur sýnt að þannig verði til nýjar leiðir, vörur og þjónusta sem brýn þörf er á. Michael Porter hefur meðal annars bent á þetta í sínum skrifum og hér er grein eftir David Gibbs á svipuðum nótum. Með þessu er stigið stórt framfaraskref á Íslandi, sem er líklegt til að leiða til víðtækari framfara á sviði nýsköpunar hérlendis en nokkurn hefur órað fyrir.

Svona hefur Alta unnið að því síðustu árin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangsmyndun.

Þemafundur um sjálfbærar ofanvatnslausnir

Skipulagsstofnun heldur þemafund um innleiðingu sjálfbærra ofanvatnslausna. Þar kynnir Heiða Aðalsteinsdóttir ráðgjafi hjá Alta verkefni sem hún hefur unnið um þetta efni. Yfirskriftin er: 10 góðar ástæður til að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Egill Guðmundsson og Þráinn Hauksson verða með viðbrögð.

Í fyrirlestrinum verður meðal annars farið yfir ávinning af sjálfbærum ofanvatnslausnum, ólíkar nálganir við hönnun, rekstur, öryggismál og helstu áskoranir við innleiðingu.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 26. nóvember á efri hæð Cafe Sólon Bankastæti 7a frá kl. 12-13. Súpa, brauð og kaffi á tilboðsverði fyrir fundargesti. Ekki þarf að skrá sig.

Upp