Blágrænar ofanvatnslausnir - 10 góðar ástæður

Þetta var viðfangsefni Heiðu Aðalsteinsdóttur landslagsarkitekts hjá Alta í hádegiserindi á þemafundi Skipulagsstofnunar og Vistbyggðaráðs í dag. Heiða fékk úthlutað úr Rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar árið 2014 til að gera leiðbeiningar um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna við íslenskar aðstæður og var erindið sótt í leiðbeiningagerðina.

Erindið var hið fyrsta í röð þemafunda er Skipulagsstofnun hyggst halda, þar sem fyrirlesarar sem hafa fengið styrk gera grein fyrir verkefnum sínum. Hádegisfundurinn var afar vel sóttur og ljóst að mikill áhugi er fyrir blágrænum ofanvatnslausnum hér á landi. Sjá glærur hér.

Tækifæri til fullvinnslu í ferðaþjónustu

Í grein sinni í Markaðnum þann 18. nóvember, bendir Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta á að líta megi á áhuga ferðamanna á náttúru, menningu og sögu Íslands sem nokkurs konar hráefni. Ástæða sé til að „fullvinna“ þetta hráefni enn frekar en nú er gert, í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu, dreifa álagi á landið og styðja við byggðaþróun. Fullvinnslan getur t.d. falist í þróun nýrra áfangastaða, þjónustu og vara sem byggja á sérstöðu landsins.

Með því að nýta áhuga ferðamanna - hráefnið, túlka betur og fræða um það sem í tilteknum svæðum býr, getum við fjölgað áfangastöðum, dreift álagi og lengt dvalartíma á hverjum stað. Þannig verður Ísland ekki bara eitt “brand”, ferðamenn hafa ástæðu til að koma aftur og aftur og stuðlað er að aukinni sátt ferðamanna og íbúa. Sjá hér slóð á greinina.

Alta tekur þátt í samstarfi um loftslagsmál

Alta er í hópi 103 íslenskra fyrirtækja sem sameinast um aðgerðir til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og úrgangsmyndun starfsemi sinnar. Undirritun yfirlýsingar þessa efnis fór fram í Höfða í dag.

Fyrirtækin munu í kjölfarið þurfa að leita nýrra leiða á þessum sviðum samfélagsábyrgðar.

Reynslan hefur sýnt að þannig verði til nýjar leiðir, vörur og þjónusta sem brýn þörf er á. Michael Porter hefur meðal annars bent á þetta í sínum skrifum og hér er grein eftir David Gibbs á svipuðum nótum. Með þessu er stigið stórt framfaraskref á Íslandi, sem er líklegt til að leiða til víðtækari framfara á sviði nýsköpunar hérlendis en nokkurn hefur órað fyrir.

Svona hefur Alta unnið að því síðustu árin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangsmyndun.

Þemafundur um sjálfbærar ofanvatnslausnir

Skipulagsstofnun heldur þemafund um innleiðingu sjálfbærra ofanvatnslausna. Þar kynnir Heiða Aðalsteinsdóttir ráðgjafi hjá Alta verkefni sem hún hefur unnið um þetta efni. Yfirskriftin er: 10 góðar ástæður til að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Egill Guðmundsson og Þráinn Hauksson verða með viðbrögð.

Í fyrirlestrinum verður meðal annars farið yfir ávinning af sjálfbærum ofanvatnslausnum, ólíkar nálganir við hönnun, rekstur, öryggismál og helstu áskoranir við innleiðingu.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 26. nóvember á efri hæð Cafe Sólon Bankastæti 7a frá kl. 12-13. Súpa, brauð og kaffi á tilboðsverði fyrir fundargesti. Ekki þarf að skrá sig.

Deiliskipulag Garðahverfis

Fyrir liggur deiliskipulag fyrir þróun Garðahverfis á Álftanesi, sem Garðafélagið hefur stutt í samstarfi við bæjarstjórn Garðabæjar. Meginmarkmið deiliskipulagsins er að stuðla að varðveislu menningar- og náttúruminja í Garðahverfi og að Garðahverfi verði aðgengilegt til íhugunar, útivistar og náttúruskoðunar. Það verði byggt upp í samræmi við sögulega sérstakt búsetulandslag og aldagamalt hlutverk svæðisins sem kirkju- og menningarstaðar. Með deiliskipulaginu er tryggt að á Görðum megi um ókomin ár njóta nálægðar, kyrrðar og friðsældar.

Vinnan var afar skemmtileg og krefjandi og komu margið aðilar að henni með okkur hjá Alta m.a. nemendur í sagnfræði við HÍ.

Hér er komið gott dæmi um hvernig túlka má upplýsingar um sögu, menningu og náttúru og nýta sem grunn að skipulagi og útivistarleiðum. Tryggt er að sérkenni Garðahverfis séu vernduð, um leið og uppbygging í anda svæðisins er leyfð. Deiliskipulagið er því í raun í raun verndaráætlun. Sjá nánari upplýsingar hér á vef um verkefnið og hér um náttúru og menningartúlkun.

Garðafélagið hefur einnig staðið fyrir byggingu hleðslugarðs og listaverksins Allt til eilífðar í Garðakirkjugarði, en listaverkið og deiliskipulagið var afhent Garðabæ á táknrænan hátt við Garðakirkju þann 21. október s.l. við hátíðlega athöfn.

Upp