Yfirlýsing fyrir Parísarráðstefnuna

Við hjá Alta viljum stuðla að minni mengun, minni losun gróðurhúsalofttegunda, bættu borgarumhverfi og betri heilsu starfsmanna. Það gerum við með m.a. samgöngustefnu sem hvetur til notkunar virkra ferðamáta á leið í vinnuna og í vinnunni. Það gerum við líka með innkaupum þar sem við veljum fremur vöru og þjónustu sem hefur minni umhverfisáhrif og verslum fremur við þá sem sett hafa sér stefnu í samfélagsábyrgð.
Með þessu sláum við tvær flugur í einu höggi. Bætum heilsu okkar og umhverfið.

Bætt heilsa snýst líka um samfélagið og peninga, færri tapaðar vinnustundir og minni kostnað í heilbrigðiskerfinu. Þannig fer saman hagur okkar allra við að draga úr neikvæðum áhrifum okkar á loftslagið. Árangurinn sést í samfélagsábyrgðarsskýrslu okkar skv. UN Global Compact, þar sem við birtum græna bókhaldið okkar.

Festa og Reykjavíkurborg hafa sett á laggirnar sameiginlegt átak með fyrirtækjum, þar sem skrifað verður undir yfirlýsingu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka úrgang og mæla árangurinn á næstu árum. Yfirlýsingin verður formlega afhent á loftslagsráðstefnunni í París. Undirskrift okkar þar, er því ánægjulegur liður í því starfi sem við höfum stundað frá stofnun Alta.

Viðkomustaðir og myndatökustaðir

Á ferðamálaþingi 2015, sem haldið var á Akureyri 28. október, var sýnt kort sem sýnir dæmi um samsetningu landupplýsinga úr ólíkum áttum í samhengi við viðkomustaði sem söfnuðust í átaksverkefninu "Kortlagning auðlinda ferðaþjónustunnar". Tilgangur kortsins var að sýna hve gagnleg landupplýsingakerfi geta verið við að greina landfræðileg gögn í ýmsu samhengi. Sérstaklega var vakin athygli á því að samfélagsmiðlar bjóða upp á að sótt séu gögn sem safnast hjá þeim og fela í sér upplýsingar um staðsetningu notandans. Þetta getur verið gagnlegt í samhengi við skipulag og fleira.

Kortið hér fyrir neðan er ný útgáfa af kortinu sem sýnt var á Ferðamálaþingi. Þar eru sett saman gögn frá Landmælingum Íslands (strandlína og vegakerfi úr IS50V) og áhugaverðir viðkomustaðir sem söfnuðust í átaksverkefninu, ásamt með staðsetningu rúmlega 211 þúsund hnitsettra ljósmynda sem aðgengilegar eru á Flickr ljósmyndavefnum og teknar voru á árunum 2008-2014. Spurst hefur verið fyrir um þetta kort og er það því birt sérstaklega hér. Fyrir neðan hefur verið bætt korti af myndatökustöðum í Reykjavík.

Smelltu á myndirnar til að sjá stærri útgáfu. Myndatökustaðirnir eru sýndir með bláum deplum sem eru næstum gegnsæir en ef margar myndir hafa verið teknar á sama stað leggjast deplarnir saman og "þykkna" þannig að dimmblár depill þýðir að þar hafa verið teknar margar myndir.

 

Hér fyrir neðan eru sýndir myndatökustaðir í Reykjavík:

 

Smelltu hér til að sjá hvernig myndatökustaðirnir breytast eftir mánuðum.

 

Áhugaverðar hugmyndasamkeppnir

Nýlega hlupu af stokkunum 6 hugmyndasamkeppnir í tengslum við Nordic Built Cities um ýmis viðfangsefni sem tengjast sjálfbærni í byggðu umhverfi. Keppnirnar eru haldnar á Norðurlöndunum og þar af snýst ein þeirra um tengingar við þróunarsvæðið vestast á Kársnesi í Kópavogi. Auk Kársness voru valin til þátttöku Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló, Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og Kera iðnaðarhverfið í Espoo í Finnlandi. Áskoranir á svæðunum eru af ýmsum toga, frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu, en eiga það sameiginlegt að vera mikilvægar  á Norðurlöndunum og á heimsvísu.

Dómnefndin velur allt að fjórar tillögur úr fyrra þrepi til þátttöku í seinna þrepi. Höfundar tillagnanna sem valdar eru í fyrra þrepi fá 300.000 norskar krónur, andvirði um 4,5 milljóna íslenskra króna til að vinna tillögur sínar áfram. Að loknu seinna þrepi er ein tillaga valin og hún verðlaunuð með 250.000 norskum krónum, andvirði tæpra 3,8 milljóna króna. Skilafrestur er til 17. desember 2015.

Alta verkstýrir Kársnes-keppninni fyrir Kópavogsbæ. Allar nánari upplýsingar um þá keppni er að finna á vef Kópavogsbæjar, www.kopavogur.is/nordicbuiltcities en upplýsingar um aðrar keppnir eru á http://nordicbuiltcities.org/thechallenge/.

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar var kynnt á fundi með hagsmunaaðilum 13. október 2015. Áætlunin nær til ársins 2040 og í henni eru framtíðaráform Keflavíkurflugvallar kortlögð. Þróunaráætlunin tekur á öllu skipulagssvæði Keflavíkurflugvallar og nærumhverfis, en áætlað er að fyrstu framkvæmdir við stækkun flugvallarins hefjist í lok árs 2016. Áætlunin skapar grunn fyrir framtíðarákvarðanir um þróun svæðisins, í góðu samstarfi við nærumhverfi, og á að hjálpa til við að vel sé farið með fjármagn flugvallarins. Áætlunin er jafnframt tæki sem hagsmunaaðilar geta nýtt við eigin stefnumótun og uppbyggingu.

Lesa meira...

Sterk sjálfsmynd og ímynd svæða - Meira aðdráttarafl

Ráðstefna um viðfangsefni og áskoranir í skipulagsmálum á Íslandi var haldin í Reykjavík 17. september sl., á vegum Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar flutti Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsráðgjafi hjá Alta, erindi um gerð skipulagsáætlana m.t.t. ímyndar svæða. Erindið byggði á rannsóknarverkefni sem skilaði sér í hefti sem skýrir tengslin á milli stefnumótandi skipulagsáætlana (strategic spatial plans) og mörkunar svæða (place branding). Verkefnið var styrkt af Rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar. Heftinu er ætlað að 

Lesa meira...

Upp