Þrjú farfuglaheimili vottuð

Farfuglaheimilin í Dalvík, Akranesi og Sæberg í Húnavatnssýslu hafa á þessu ári hlotið vottun sem Græn Farfuglaheimili eftir úttekt hjá Alta samkvæmt viðmiðum Bandalag íslenskra farfuglaheimila. Samtals eru sextán Farfuglaheimili sem hlotið hafa vottunina sem tekur m.a. til innkaupa, upplýsinga til gesta, orkunotkunar og úrgangsflokkunar.

Tengsl lýðheilsu og skipulags

Samband lýðheilsu og skipulags var viðfangsefni mastersverkefnis Herborgar Árnadóttur í landfræði. Herborg hóf nýlega störf hjá Alta. Hún rannsakaði sérstaklega tengsl borgarumhverfis og hversdagslegrar hreyfingar hjá ungu fólki í Reykjavík. Sjá ritgerð Herborgar hér. Hún hefur einnig unnið við fjölbreyttar rannsóknir á notkun íbúa á borgarrýmum með rannsóknarhópnum Borghildi (www.borghildur.info).

Svona vann Alta 2013

Út er komið í fjórða sinn yfirlit um árangur Alta á sviði samfélagsábyrgðar. Samantektin auðveldar okkur hjá Alta að bæta okkur og ykkur að fylgjast með. Árið 2013 var árangursríkt á ýmsum sviðum, sumt í okkar verklagi er orðið hluti af „DNA-i“ fyrirtækisins. Sjá einnig samantektina fyrir árið 2013.

Lesa meira...

Aðalskipulag Seltjarnarness endurskoðað

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti á fundi sínum 25. júní sl. að fara í endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins enda næstum áratugur liðinn síðan gildandi aðalskipulag var mótað. Samið var við Alta um ráðgjöf við endurskoðunina. Á myndinni til hliðar undirrita Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri samning að viðstöddum Þórði Búasyni skipulags- og byggingafulltrúa og Árna Geirssyni. Aðalskipulag er eitt mikilvægasta stjórntækið sem hver sveitarstjórn hefur til að hafa áhrif á margvíslega þróun innan marka sveitarfélagsins til langs tíma. Aðalskipulag og endurskoðun þess er samstarfsverkefni kjörinna fulltrúa, embættismanna og íbúanna í bænum enda kveða skipulagslög á um víðtækt samráð við íbúa. Stefnt er að því að endurskoðuninni ljúki snemma á næsta ári. 

Alta kortleggur auðlindir ferðaþjónustu

Ferðamálastofa vinnur að uppbyggingu gagnagrunns yfir auðlindir í ferðaþjónustunni í samstarfi við heimamenn um allt land. Hann á að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á frekari þróun og uppbyggingu á þessu sviði. Við hjá Alta höfum tekið að okkur að halda utanum þessa uppbyggingu og samstarfið við heimamenn og hlökkum mjög til samstarfsins.

Myndin var tekin þegar Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Árni Geirsson hjá Alta undirrituðu verksamning.

Verkið er unnið þannig að Alta leggur upp staði sem til greina koma sem áhugaverðir viðkomustaðir, en heimamenn meta aðdráttarafl þeirra og veita frekari upplýsingar um hvern stað. Starfsfólk Alta mun síðan lýsa í stuttu máli þeim stöðum sem taldir verða áhugaverðir. Gert er ráð fyrir að þessu verkefni ljúki í nóvember. Sjá nánari frétt á vef Ferðamálastofu.

Það er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að við höfum fengið til liðs við okkur þrjá unga starfsmenn til að sinna þessu verkefni sérstaklega, þær Iðunni Hauksdóttir, B.Sc. í náttúru- og umhverfisfræði og mastersnema í umhverfisfræði, sem vinnur á Snæfellsnesi, Sóleyju Valdimarsdóttur, B.A. í umhverfisskipulagi og mastersnema í landfræði, sem vinnur á Egilsstöðum og Hrefnu Hjartardóttur, B.Sc. í landfræði, sem vinnur á skrifstofunni hjá Alta í Reykjavík. Þetta sýnir í verki þau tækifæri sem fjarvinnsla gefur til samstarfs við gott fólk um allt land og eru okkur hjá Alta sérstaklega hugleikin.

Upp