Fjölskylduvænt samfélag á Akranesi

Skýr sýn og áhersla á fjölskyldu- og íþróttabæinn Akranes var áberandi í umræðum og skilaboðum þátttakenda á samráðsfundi, íbúaþingi, sem bæjarstjórn Akraness bauð til sl. laugardag. Í umræðunum endurspegluðust þau sjónarmið að á Akranesi hafi á liðnum árum verið byggð upp fjölbreytt þjónusta fyrir alla aldurshópa, sem beri að standa vörð um. Góðir skólar og metnaður fyrir skólastarfi voru meðal þeirra atriða sem þátttakendur töldu til sérstakra gæða samfélagsins sem bæri að treysta enn frekar. Íþróttabærinn Akranes var sömuleiðis mjög oft nefndur og hefðin fyrir kröftugu íþróttastarfi. Heilnæmt og snyrtilegt umhverfi og metnaður fyrir góðri umgengni var þátttakendum einnig ofarlega í huga og var hvatt til samstillts átaks bæjarbúa í fegrun umhverfisins. Öflug heilbrigðis- og félagsþjónusta var jafnframt meðal þess sem fundarmenn töldu að bæri að standa vörð um, ekki síst á erfiðum tímum.

Rúmlega fimmtíu manns tóku þátt í jákvæðum og uppbyggilegum samræðum. Boðið var upp á barnagæslu á staðnum, kaffiveitingar og léttan hádegisverð. Fundarmenn ræddu bæði um þau gæði sem þeir töldu samfélagið búa yfir og það sem vel hefði tekist til með, einnig um það sem efla bæri enn frekar. Fundurinn, sem haldinn var í Grundaskóla, stóð í rúmar þrjár klukkustundir og var umræðan tvískipt. Annars vegar var sjónum beint að þeim sérstöku gæðum sem fundarmenn vildu að Akranes væri þekkt fyrir. Í síðari hluta umræðunnar var svo unnið áfram með þær niðurstöður og leitað eftir hugmyndum um leiðarljós og einstök viðfangsefni sveitarstjórnar og íbúanna sjálfra, bæði til skemmri og lengri tíma. Þar er til dæmis um að ræða atriði sem snúa að fjölskyldu-og samfélagsmálum, umhverfis- og skipulagsmálum og atvinnumálum og nýsköpun.

Tilefni og boðun samráðsfundarins er í samræmi við þá sýn og áherslur sem fram komu í stefnu allra stjórnmálaflokka á Akranesi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðasta vor. Helstu markmið fundarins voru að fá fram sjónarmið íbúa til mikilvægra lífsgæða og forgangsverkefna í samfélaginu. Afrakstur fundarins verður nýttur við fjárhagsáætlunargerð ársins 2011 og einnig ætlaður sem viðmið í ákvörðunartöku bæjarstjórnar til lengri tíma.

Umsjón með íbúafundinum var í höndum ráðgjafafyrirtækisins Alta í Reykjavík og Grundarfirði, sem jafnframt annaðist úrvinnslu úr skilaboðum fundarins. Upplýsingar um efni og niðurstöður fundarins hafa nú verið birtar á sérstökum vef, akranes.alta.is, sem er opinn öllum.

Orðasafn umhverfismála

Hafin er vinna við gerð orðasafns á sviði umhverfisfræða og hefur verið myndaður starfshópur sérfræðinga á því sviði. Í hópnum sitja Stefán Gíslason verkefnisstjóri, Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Birna Helgadóttir og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir. Félag umhverfisfræðinga á Íslandi, í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa frumkvæði að verkefninu. Gert er ráð fyrir að orðasafnið byggist upp í áföngum og að fyrsta áfanga verði skilað í mars 2011.

Mörg hugtök innan umhverfisvísinda eru enn óskilgreind á íslensku og enn vantar íslensk heiti á fjölda þeirra fyrirbæra sem umhverfisfræðin fæst við. Þess vegna er löngu tímabært að hefja íðorðastarf á sviði umhverfisfræða, þ.e. vinnu við að finna íslensk heiti á erlend hugtök og skilgreina hugtök sem eru á reiki. Þörfin fyrir slíkt orðasafn er mikið í samfélaginu. Atvinnulíf, fjölmiðlar og ríkisstofnanir kalla beinlínis eftir skilgreiningum og íslenskum heitum sem hægt er að nota til að hugsa og rita á góðri íslensku um umhverfistengd málefni. Starfshópurinn vill gjarnan fá tillögur að hugtökum sem þarf að þýða eða skilgreina. Ábendingar sendist á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Náttúrumæraskrá gefin út

Sú frétt birtist nýlega í Austurglugganum að Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, eftir Helga Hallgrímsson, hefði verið gefin út. Alta fékk þetta mikla verk Helga í hendur meðan á vinnu við Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs stóð. Þar lýsir Helgi um 600 athyglisverðum stöðum og svæðum á Héraðssvæðinu, einkum náttúrufari en einnig ýmsu sem varðar mannlíf og þjóðtrú. Alta hafði frumkvæði að því að um 250 svæði, sem Helgi telur markverðust, voru afmörkuð með hnitum og síðan sett inn á vefsjá til þess að auðvelda aðgengi að lýsingunum. Það auðveldaði verkið hvað flokkun og röðun svæðanna var skipuleg í handriti Helga. Vefsjána er að finna hér: www.alta .is/nms

Upplýsingar um svæðin má finna bæði í textaham, þar sem öll svæðin 600 er að finna og í kortaham, þar sem hnitsettu svæðin 250 koma fram. Hægt er að leita að svæðum eftir orðum og orðhlutum.

Sjá má frétt Austurgluggans með því að smella hér.

Enn bætist við hóp Grænna farfuglaheimila

Frétt frá Farfuglum:

Til að hvetja rekstraraðila farfuglaheimila á Íslandi til að vinna markvisst að umhverfismálum ákvað stjórn Farfugla árið 2003 að þau heimili sem uppfylla ákveðin viðmið á sviði umhverfismála fái heimild til að kalla sig Græn farfuglaheimili. Því til staðfestingar fá þau að nota umhverfismerki samtakanna. Þessi viðmið byggja á almennum gæðastöðlum sem öll farfuglaheimili þurfa að uppfylla en til að fá heimild til að nota umhverfismerkið þurfa heimilin auk þess að uppfylla ýmis viðbótarskilyrði sem tengjast umhverfismálum.

Á nýafstöðnu Gestgjafamóti Farfugla fékk Farfuglaheimilið á Bíldudal heimild til að kalla sig Grænt farfuglaheimili. Nú eru því tólf farfuglaheimili hérlendis sem eru einkennd vegna góðrar frammistöðu í umhverfismálum, tíu þeirra bera merkið Grænt farfuglaheimili og tvö bera Norræna umhverfismerkið Svaninn.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur unnið með Farfuglum síðan 2004 að þróun viðmiða fyrir Græn farfuglaheimili og gert úttektir á þeim heimilum sem sótt hafa um merkið. Í úttektunum hefur komið í ljós að umhverfisstarf þessara heimila hefur skilað sér m.a. í jákvæðri ímynd, sparnaði, áhuga gesta og ánægðari eigendum. Óhætt er að mæla sérstaklega með Grænum farfuglaheimilum fyrir alla sem eiga leið um landið.

Farfuglar óska gestgjöfum og starfsfólki á Bíldudal innilega til hamingju með viðurkenninguna og vonumst til að hún verði fleirum hvatning til góðra verka í þessum mikilvæga málaflokki.

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Farfugla www.hostel.is

og hjá Ástu Kristínu Þorsteinsdóttur verkefnisstjóra hjá Farfuglum astakristin (hjá) hostel.is

Framúrskarandi lokaverkefni

Heiða Aðalsteinsdóttir, ráðgjafi hjá Alta, lagði fram verkefni sitt „Devising Methodologies for Landscape Assessment in Iceland“ til MA gráðu í landslagsarkitektúr við University of Gloucestershire síðastliðið vor. Hún var hvött til að senda verkefnið inn til þátttöku í „John Rose Award“ sem eru verðlaun veitt árlega af „The Institution of Environmental Sciences (IES)“ í Bretlandi. IES er alþjóðleg stofnun sem hefur það markmið að stuðla að aukinni meðvitund almennings um umhverfismál, með því að styðja við bakið á vísinda- og fræðimönnum á þessu mikilvæga sviði. Markmið verðlaunanna er að heiðra og vekja athygli á framúrskarandi mastersverkefni á umhverfissviði sem þykir upplýsandi og hvetjandi fyrir almenning. Sjá nánar hér.

Niðurstöður liggja nú fyrir og var verkefni Heiðu eitt þriggja verkefna sem kom til greina að myndu hreppa John Rose verðlaunin í ár. Þetta er frábær viðurkenning og lýsir þeim metnaði sem Heiða lagði í verkið. Í ritgerðinni fjallar Heiða um aðferðir við landslagsgreiningu í tengslum við evrópska landslagssáttmálann og var Snæfellsbær vettvangur rannsóknarinnar.

Upp