Íbúaþing í Dalabyggð

Atvinnumál og auðlindir svæðisins voru títt nefnd í umræðum og skilaboðum þátttakenda á íbúaþingi sem sveitarstjórn Dalabyggðar bauð til laugardaginn 15. janúar sl. í Dalabúð. Þinggestir ræddu það sem helst þyrfti að standa vörð um en einnig var tekist á við það hvar ætti að sækja fram og þá hvernig, af hálfu sveitarstjórnar en einnig íbúanna og samfélagsins í heild.

Að mati þátttakenda er brýnt að standa vörð um þjónustu og störf í héraðinu. Það er mikið hagsmunamál að opinber þjónusta, eins og t.d. löggæsla, hverfi ekki úr byggðarlaginu. Talað var um að hvert starf skipti máli því að baki því sé heil fjölskylda. Íbúar ættu líka að nýta sér þjónustu og vörur úr heimabyggð, þar sem slíkt er í boði. Tækifæri til atvinnusköpunar voru rædd í víðu samhengi og vildu þátttakendur í því skyni horfa til auðlinda og sérstöðu héraðsins. Gera ætti sem mest úr því sem samfélagið býr yfir, nýta eignir sem fyrir eru og gefa þeim nýtt hlutverk – m.a. var rætt um gamla sláturhúsið í því sambandi. Sagan er óþrjótandi auðlind og tækifæri felast einnig í staðsetningu Dalabyggðar sem skilgreind var sem ,,Vegamót í vestri“. Þátttakendur töldu ýmis tækifæri ónýtt og ókönnuð í landbúnaði, s.s. ræktun ýmiss konar, en einnig í ferðaþjónustu. Bæta þyrfti aðstöðu fyrir ferðamenn, sem myndu þá frekar kjósa að eiga dvöl í Dalabyggð.

Húsnæðismálin fengu töluverða umræðu, en í Dalabyggð hefur um nokkurt skeið verið viðvarandi skortur á heppilegu íbúðarhúsnæði. Margir töldu að byggja ætti hentugar íbúðir með þjónustu fyrir eldri íbúana, því þá myndi losna um húsnæði sem hentaði betur stærri fjölskyldum.

Fjölmargar og skemmtilegar hugmyndir komu fram á íbúaþinginu. Mikill vilji var til að auka samstöðu og efla samfélagið innan frá – ,,leggjum niður hrepparíginn“ var haft á orði. Þátttakendur töldu að miklu skipti að íbúar væru virkir og nauðsynlegt væri að miðla og koma góðum hugmyndum á framfæri. „Skemmtum okkur meira saman“ var ein ábendingin.

Íbúaþingið er liður í vinnu sveitarstjórnar sem vill skerpa á áherslum sínum og móta stefnuskrá fyrir kjörtímabilið. Eins og kunnugt er var sveitarstjórn Dalabyggðar kosin í óbundnum kosningum sl. vor. Eins og ráða má af fyrirkomulagi við slíkar kosningar voru ekki í kjöri framboðslistar með fyrirfram mótaðar stefnuskrár og enginn samstarfssáttmáli er í gildi um meirihlutasamstarf eins og annars staðar tíðkast. Það er því hlutverk einstaklinganna sem kjörnir eru í sveitarstjórn að móta stefnu sveitarstjórnar og forgangsraða viðfangsefnunum. Við ákvarðanir og daglega stjórnun er æskilegt að sveitarstjórn geti stuðst við skýra stefnu sem undirstrikar sameiginlega sýn hinna kjörnu fulltrúa, studda með skilaboðum íbúa.

Á milli 45 og 50 manns tóku þátt í umræðum á íbúaþinginu. Með fundinum var skapaður vettvangur fyrir íbúa til að koma á framfæri hugmyndum sínum og sjónarmiðum um mikilvægustu viðfangsefni samfélagsins. Fundarformið var valið með það fyrir augum að sem flest sjónarmið kæmu fram og að það ýtti undir hlustun og skoðanaskipti þátttakenda. Boðið var upp á kaffiveitingar og léttan hádegisverð.

Umsjón með íbúafundinum var í höndum ráðgjafarfyrirtækisins Alta í Reykjavík og Grundarfirði og mun Alta jafnframt annast frekari úrvinnslu úr skilaboðum fundarins. Upplýsingar um efni og niðurstöður fundarins er að finna á sérstökum vef, dalabyggd.alta.is.

 

Skipulag gömlu hafnarinnar í Eyjum

Alta hefur að undanförnu unnið tillögu að deiliskipulagi gömlu hafnarinnar í Vestmannaeyjum í samvinnu við umhverfis- og skipulagsráð og framkvæmda- og hafnaráð Vestmannaeyjabæjar. Deiliskipulagstillagan tekur til miðhluta hafnarsvæðisins og markar skýra framtíðarsýn fyrir uppbyggingu gömlu hafnarinnar og samspili hafnarinnar og miðbæjarins. Sett hafa verið markmið fyrir alla þá ólíku þætti sem sem þarf að samstilla til að úr verið heildstætt aðlaðandi umhverfi, sem þjónar ólíkum hagsmunahópum. Auk markmiða felur tillagan í sér stefnumótandi áherslur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og leiðbeinandi og bindandi skilmála. Í skipulagsferlinu var umferðaflæði við Herjólfsafgreiðsluna skoðað sérstaklega í samráði við Vegagerðina, rekstaraðila og aðra þá sem eru með starfsemi á Básaskersbryggju. Alta naut aðstoðar breskra umferðarsérfræðinga hjá Alan Baxter við þróun tillagna um umferðarflæði.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt til auglýsingar í bæjarstjórn 9. desember sl, og fer í framhaldinu í auglýsingu í samræmi við skipulags- og byggingarlög og verður aðgengileg hjá umhverfis og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar að Tangargötu 1.

Deiliskipulagstillagan er sett fram sem greinargerð, skiplaguppdráttur og skýringaruppdráttur.

Hugtök og fyrirbæri atvinnulífsins í Athafnaviku

Þann 18. nóvember sl. hélt Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Alta erindi fyrir nemendur Fjölbrautaskóla Snæfellinga í tilefni af Alþjóðlegri athafnaviku. Erindið var nokkurs konar örkynning á þremur hugtökum eða fyrirbærum sem hafa orðið æ algengari í atvinnulífi og á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Fyrirbærin þrjú eru stefnumótun, verkefnastjórnun og hópavinna. Nemendur FSN eru sennilega hvað kunnugastir hópavinnu í skólastarfi, en leiða má líkum að því að stefnumótun og markmiðasetning, bæði í námi og einkalífi, sem og stjórnun verkefna, snerti líf þeirra með einum eða öðrum hætti.

Meira en 100 þjóðir í sex heimsálfum tóku þátt í Alþjóðlegri athafnaviku sem haldin var síðari hluta nóvembermánaðar sl. með það að markmiði að hvetja fólk til að tileinka sér nýsköpun, athafnasemi og frumkvöðlahugsun. Lausn vandamála felst í athafnasemi og því var markmiðið að virkja hugmyndir og láta verkin tala í Alþjóðlegri athafnaviku. Fólk var hvatt til að standa fyrir eða taka þátt í einhvers konar viðburði á meðan Athafnaviku stóð, en í boði var fjöldi viðburða sem ætlað var að kynna fólki leiðir til að nýta hæfileika sína til nýsköpunar, athafnasemi og frumkvöðlahugsunar.

Umsjónaraðili Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi er Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur. Á vef athafnavikunnar er að finna lista yfir fjölbreytta viðburði sem í boði voru í íslenskri athafnaviku.

Fjölskylduvænt samfélag á Akranesi

Skýr sýn og áhersla á fjölskyldu- og íþróttabæinn Akranes var áberandi í umræðum og skilaboðum þátttakenda á samráðsfundi, íbúaþingi, sem bæjarstjórn Akraness bauð til sl. laugardag. Í umræðunum endurspegluðust þau sjónarmið að á Akranesi hafi á liðnum árum verið byggð upp fjölbreytt þjónusta fyrir alla aldurshópa, sem beri að standa vörð um. Góðir skólar og metnaður fyrir skólastarfi voru meðal þeirra atriða sem þátttakendur töldu til sérstakra gæða samfélagsins sem bæri að treysta enn frekar. Íþróttabærinn Akranes var sömuleiðis mjög oft nefndur og hefðin fyrir kröftugu íþróttastarfi. Heilnæmt og snyrtilegt umhverfi og metnaður fyrir góðri umgengni var þátttakendum einnig ofarlega í huga og var hvatt til samstillts átaks bæjarbúa í fegrun umhverfisins. Öflug heilbrigðis- og félagsþjónusta var jafnframt meðal þess sem fundarmenn töldu að bæri að standa vörð um, ekki síst á erfiðum tímum.

Rúmlega fimmtíu manns tóku þátt í jákvæðum og uppbyggilegum samræðum. Boðið var upp á barnagæslu á staðnum, kaffiveitingar og léttan hádegisverð. Fundarmenn ræddu bæði um þau gæði sem þeir töldu samfélagið búa yfir og það sem vel hefði tekist til með, einnig um það sem efla bæri enn frekar. Fundurinn, sem haldinn var í Grundaskóla, stóð í rúmar þrjár klukkustundir og var umræðan tvískipt. Annars vegar var sjónum beint að þeim sérstöku gæðum sem fundarmenn vildu að Akranes væri þekkt fyrir. Í síðari hluta umræðunnar var svo unnið áfram með þær niðurstöður og leitað eftir hugmyndum um leiðarljós og einstök viðfangsefni sveitarstjórnar og íbúanna sjálfra, bæði til skemmri og lengri tíma. Þar er til dæmis um að ræða atriði sem snúa að fjölskyldu-og samfélagsmálum, umhverfis- og skipulagsmálum og atvinnumálum og nýsköpun.

Tilefni og boðun samráðsfundarins er í samræmi við þá sýn og áherslur sem fram komu í stefnu allra stjórnmálaflokka á Akranesi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðasta vor. Helstu markmið fundarins voru að fá fram sjónarmið íbúa til mikilvægra lífsgæða og forgangsverkefna í samfélaginu. Afrakstur fundarins verður nýttur við fjárhagsáætlunargerð ársins 2011 og einnig ætlaður sem viðmið í ákvörðunartöku bæjarstjórnar til lengri tíma.

Umsjón með íbúafundinum var í höndum ráðgjafafyrirtækisins Alta í Reykjavík og Grundarfirði, sem jafnframt annaðist úrvinnslu úr skilaboðum fundarins. Upplýsingar um efni og niðurstöður fundarins hafa nú verið birtar á sérstökum vef, akranes.alta.is, sem er opinn öllum.

Orðasafn umhverfismála

Hafin er vinna við gerð orðasafns á sviði umhverfisfræða og hefur verið myndaður starfshópur sérfræðinga á því sviði. Í hópnum sitja Stefán Gíslason verkefnisstjóri, Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Birna Helgadóttir og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir. Félag umhverfisfræðinga á Íslandi, í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa frumkvæði að verkefninu. Gert er ráð fyrir að orðasafnið byggist upp í áföngum og að fyrsta áfanga verði skilað í mars 2011.

Mörg hugtök innan umhverfisvísinda eru enn óskilgreind á íslensku og enn vantar íslensk heiti á fjölda þeirra fyrirbæra sem umhverfisfræðin fæst við. Þess vegna er löngu tímabært að hefja íðorðastarf á sviði umhverfisfræða, þ.e. vinnu við að finna íslensk heiti á erlend hugtök og skilgreina hugtök sem eru á reiki. Þörfin fyrir slíkt orðasafn er mikið í samfélaginu. Atvinnulíf, fjölmiðlar og ríkisstofnanir kalla beinlínis eftir skilgreiningum og íslenskum heitum sem hægt er að nota til að hugsa og rita á góðri íslensku um umhverfistengd málefni. Starfshópurinn vill gjarnan fá tillögur að hugtökum sem þarf að þýða eða skilgreina. Ábendingar sendist á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Upp