Enn bætist við hóp Grænna farfuglaheimila

Frétt frá Farfuglum:

Til að hvetja rekstraraðila farfuglaheimila á Íslandi til að vinna markvisst að umhverfismálum ákvað stjórn Farfugla árið 2003 að þau heimili sem uppfylla ákveðin viðmið á sviði umhverfismála fái heimild til að kalla sig Græn farfuglaheimili. Því til staðfestingar fá þau að nota umhverfismerki samtakanna. Þessi viðmið byggja á almennum gæðastöðlum sem öll farfuglaheimili þurfa að uppfylla en til að fá heimild til að nota umhverfismerkið þurfa heimilin auk þess að uppfylla ýmis viðbótarskilyrði sem tengjast umhverfismálum.

Á nýafstöðnu Gestgjafamóti Farfugla fékk Farfuglaheimilið á Bíldudal heimild til að kalla sig Grænt farfuglaheimili. Nú eru því tólf farfuglaheimili hérlendis sem eru einkennd vegna góðrar frammistöðu í umhverfismálum, tíu þeirra bera merkið Grænt farfuglaheimili og tvö bera Norræna umhverfismerkið Svaninn.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur unnið með Farfuglum síðan 2004 að þróun viðmiða fyrir Græn farfuglaheimili og gert úttektir á þeim heimilum sem sótt hafa um merkið. Í úttektunum hefur komið í ljós að umhverfisstarf þessara heimila hefur skilað sér m.a. í jákvæðri ímynd, sparnaði, áhuga gesta og ánægðari eigendum. Óhætt er að mæla sérstaklega með Grænum farfuglaheimilum fyrir alla sem eiga leið um landið.

Farfuglar óska gestgjöfum og starfsfólki á Bíldudal innilega til hamingju með viðurkenninguna og vonumst til að hún verði fleirum hvatning til góðra verka í þessum mikilvæga málaflokki.

Nánari upplýsingar fást á vefsíðu Farfugla www.hostel.is

og hjá Ástu Kristínu Þorsteinsdóttur verkefnisstjóra hjá Farfuglum astakristin (hjá) hostel.is

Framúrskarandi lokaverkefni

Heiða Aðalsteinsdóttir, ráðgjafi hjá Alta, lagði fram verkefni sitt „Devising Methodologies for Landscape Assessment in Iceland“ til MA gráðu í landslagsarkitektúr við University of Gloucestershire síðastliðið vor. Hún var hvött til að senda verkefnið inn til þátttöku í „John Rose Award“ sem eru verðlaun veitt árlega af „The Institution of Environmental Sciences (IES)“ í Bretlandi. IES er alþjóðleg stofnun sem hefur það markmið að stuðla að aukinni meðvitund almennings um umhverfismál, með því að styðja við bakið á vísinda- og fræðimönnum á þessu mikilvæga sviði. Markmið verðlaunanna er að heiðra og vekja athygli á framúrskarandi mastersverkefni á umhverfissviði sem þykir upplýsandi og hvetjandi fyrir almenning. Sjá nánar hér.

Niðurstöður liggja nú fyrir og var verkefni Heiðu eitt þriggja verkefna sem kom til greina að myndu hreppa John Rose verðlaunin í ár. Þetta er frábær viðurkenning og lýsir þeim metnaði sem Heiða lagði í verkið. Í ritgerðinni fjallar Heiða um aðferðir við landslagsgreiningu í tengslum við evrópska landslagssáttmálann og var Snæfellsbær vettvangur rannsóknarinnar.

Velheppnuð hugmyndasmiðja í Grindavík

Sveitarstjórn Grindavíkur hélt íbúafund laugardaginn 30. október, með aðstoð Alta. Tæplega 60 heimamenn skiptust þar á skoðunum og settu fram sínar hugmyndir um hvar hjarta bæjarins lægi og hvernig miðbærinn ætti að þróast. Fundarmenn ræddu fyrst saman um miðbæinn almennt og drógu síðan fram helstu áherslur á loftmynd og kynntu. Góð stemning og vinnugleði var á hugmyndasmiðjunni eins og þetta myndskeið á vef Grindavíkurbæjar ber með sér. Alta fer nú yfir allar hugmyndir og í framhaldinu verða þær grunnur í frekari skipulagsvinnu á miðbæjarsvæðinu í Grindavík.

Sjá einnig hér.

Námskeið í miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækja

Dagana 27-28. október næstkomandi heldur danska ráðgjafarfyrirtækið Grontmij | Carl Bro tveggja daga námskeið í miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækja, í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI). Námskeiðið verður haldið hjá Alta í Ármúla 32 sem er samstarfsaðili á Íslandi. Námskeiðið verður haldið í kjölfar fundar norræna Global Compact tengslanetsins, sem verður dagana 25-26. október.

Grontmij | Carl Bro er samstarfsaðili GRI á Norðurlöndunum (GRI Certified Training Partner) og vottað af GRI til að skipuleggja og halda námskeið í miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækja í samræmi við viðmið GRI. Námskeiðið nýtist öllum þeim sem hafa hug á að vinna markvisst með samfélagsábyrgð og miðla upplýsingum um starfið á skipulegan hátt.

Skráning til og með 14. október:

Vinsamlegast skráið ykkur á námskeiðið í síðasta lagi 14. október 2010 með því að hafa samband við Stefán Einarsson (sei [hjá] gmcb.dk) eða Heidi Hjorth (hih [hjá] gmcb.dk) sem gefa jafnframt nánari upplýsingar.

Sjá nánar í námskeiðslýsingu hér.

Umræður um samfélagsábyrgð og siðfræði

“You are in control”, eða “Þú ert við stjórnvölinn” - “Creatives in the digital world: Capitalising on cooperation”, er heitið á alþjóðlegri ráðstefnu sem Icelandic Music Export hélt fjórða sinn, 1. til 2. október 2010. Gestir voru úr öllum áttum, haldnir voru spennandi fyrirlestrar og var tjaldað til fjölbreyttu úrvali íslenskra listamanna, sjá nánar hér.

Hulda Steingrímsdóttir hjá Alta tók að sér að leiða umræður undir yfirskriftinni "ethical business is smart business" um hvað hinar skapandi greinar geti gert til að tryggja að þær séu samfélagslega ábyrgar.

Fyrirsjáanlegt er að kröfur um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja muni aukast, bæði í innra starfi og að hinar skapandi greinar leiki þar lykilhlutverk til að skapa nýjar lausnir og að fræða. Spurningin er hvernig getur iðnaðurinn verið undir það búinn og nýtt sér þessar breytingar sem tækifæri sér til framdráttar?

Umræður voru frjóar og skemmtilegar í “heimskaffistíl” og margvísleg ný sjónarhorn komu fram. Sérstaklega hvað varðar að gera starf fyrirtækja opnara, deila upplýsingum og vera heiðarleg, endurskilgreina framtíðarsýn fyrirtækja (reboot mission) og nota sköpunarkraftinn til að leysa vandamálin en líka til að miðla upplýsingum á ferskan hátt. Einnig taldi hópurinn mikilvægt að mæla árangur og vinna eftir siðareglum.

Upp