Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs

Þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður fyrir tæpum tveimur árum var stjórn þjóðgarðsins gert að ljúka við gerð verndaráætlunar innan tveggja ára. Síðan þá hafa sérfræðingar á vegum svæðisráða rekstrarsvæðanna fjögurra sem þjóðgarðurinn skiptist í, mótað tillögur til stjórnar um innihald verndaráætlunar. Alta var falið að samræma tillögurnar fjórar og steypa þeim saman í eina stjórnunar- og verndaráætlun og vinna að stefnumótun með stjórn þjóðgarðsins. Auk tillagna frá svæðisráðum var m.a. stuðst við afrakstur samráðsfundar sem haldinn var í nóvember með um 80 þátttakendum sem tengjast þjóðgarðinum á ýmsan hátt. Þann afrakstur má sjá hér (alta.is/vjokull).

Nú hefur tillaga að Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt umhverfisskýrslu verið auglýst og gefst almenningi kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Athugasemdafrestur rennur út fimmtudaginn 24. júní 2010. Tillöguna má sjá hér (www.alta.is/vj).

Græna borgin í Evrópu: Reykjavík í úrslit

Reykjavíkurborg hefur verið valin ein af sex evrópskum borgum sem keppa til úrslita um að vera Græna borgin í Evrópu (European Green Capital) árið 2012 eða 2013. Sautján borgir í tólf Evrópuríkjum sóttu um þessa eftirsóttu viðurkenningu og nú hafa sex þeirra komist í úrslit. Mikil vinna var lögð í umsókn Reykjavíkurborgar sem unnin var af 13 vinnuhópum undir forystu Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Alta aðstoðaði umhverfis- og samgöngusvið við undirbúning og framkvæmd umsóknarvinnunnar og var ánægjulegt að sjá hve vel ritstjórn og vinnuhópar leystu starf sitt af hendi. Auk þess kom vel í ljós hve öflugt starf hefur verið unnið á sviði umhverfismála hjá Reykjavíkurborg á undanförnum árum.

Sjá nánar hér á vef Reykjavíkurborgar og hér á vef Evrópusambandsins.

Með valinu vill Evrópusambandið leggja áherslu á mikilvægi borga sem lykilaðila í umhverfismálum. Viðurkenningin er aðeins veitt borgum sem hafa sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum, fylgt þeim vel eftir og verið öðrum góð fyrirmynd.

Litið er til ýmissa umhverfismála, m.a. loftslagsmála, samgangna, grænna svæða, loftgæða og úrgangsmála. Stokkhólmur ber fyrst borga titilinn Græna borg Evrópu árið 2010 og mun Hamborg taka við þeim titli árið 2011.

Alta óskar Reykjavíkurborg hjartanlega til hamingju með árangurinn!

Aðalskipulag Norðurþings á lokasprettinum

Tillaga að Aðalskiplagi Norðurþings 2009-2029 var kynnt á opnum fundi á Húsavík 8. febrúar sl. Þar var farið yfir forsendur og meginstefnu tillögunnar en hún skiptist í þrjá megin hluta: 1) Stefnu í öllum helstu málaflokkum sem sveitarfélagið starfar á, 2) skipulag dreifbýlis og 3) skipulag þéttbýlis. Einnig hefur verið unnin umhverfisskýrsla fyrir tillöguna í samræmi við lög um umhverfismat áætlana. Glærur frá kynningarfundinum má nálgast hér.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á fundi sínum 18. febrúar sl. að leggja til við sveitarstjórn að aðalskipulagstillagan yrði auglýst að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga. Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 23. febrúar sl.

Aðalskipulagstillagan er nú í skoðun hjá Skipulagsstofnun og verður hún auglýst þegar þeirri skoðun er lokið sem reiknað er með að verði í lok mars. Þegar tillagan hefur verið formlega auglýst, þá hafa íbúar og aðrir hagsmunaaðilar 6 vikna frest til þess að kynna sér skipulagsgögnin og gera athugasemdir við tillöguna. Þetta verður auglýst nánar þegar þar að kemur.

Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrar

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa nú um nokkurt skeið unnið að nýrri stefnumótun til endurreisnar miðbæ Akureyrar. Bæjarstjórn samþykkti á fundi 2. febrúar 2010 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi miðbæjar - austurhluta, skv. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Deiliskipulagið er afrakstur viðamikillar vinnu sem hófst 2004 þegar sjáflseignarstofnunin Akureyri í öndvegi stóð fyrir víðtæku samráði við íbúa Akureyrar og atvinnurekendur í miðbænum, um hvað mætti betur fara. Hugmyndir og áherslur í deiliskipulaginu byggja meðal annars á niðurstöðum samráðsins, þar sem skilaboðin voru þau að snúa þyrfti við neikvæðri þróun miðbæjarins. Bærinn þyrfti að vera skjólmeiri, grænni og litríkari, fjölga þyrfti íbúðum og auka þjónustu. Miðbærinn eigi einnig að vera líflegur vettvangur mannlífs og skemmtunar. Graeme Massie Architects nýttu þessar hugmyndir í tillögu sem vann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri hugmyndasamkeppninni um miðbæinn, sem Akureyri í öndvegi stóð fyrir í kjölfarið. Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa síðan unnið úr þessum hugmyndum og er það deiliskipulag sem nú er kynnt unnið í samráði við verðlaunatillöguhafa. Graeme Massie Architects brjóta í raun upp miðbæinn og snúa honum austur- vestur. Sjórinn er dreginn aftur inn í miðbæinn með síkinu um nýtt sund, Eyrarsund, sem liggur frá Bótinni að Skipagötu og þaðan áfram að gamla Apótekinu með tjörn eða vatnasvæði. Við síkið verða aðlaðandi og eftirsótt svæði fyrir gangandi vegfarendur. Síkið liggur í sömu stefnu og Skátagil og verður í skjóli fyrir ríkjandi vindáttum. Þannig verða beggja vegna þess skjólsælir og sólríkir staðir. Kaffihús, veitingastaðir og önnur þjónusta við síkissvæðið munu laða að íbúa og ferðamenn og skapa lifandi götulíf og afþreyingu. Með því að draga sjóinn aftur inn að hjarta bæjarins tengir síkið Ráðhústorg og Hafnarstræti við Pollinn.

Með deiliskipulaginu er sett fram skýr og heildstæð framtíðarsýn fyrir kjarna miðbæjarins sem skapar nauðsynlega umgjörð og festu fyrir ákvarðanir um einstakar fjárfestingar og byggingarframkvæmdir. Þannig verði tryggt að átak allra sem að uppbyggingu miðbæjarins muni koma verði samstillt og markvisst. Alta hefur verkstýrt þessari vinnu frá upphafi, fyrst í samvinnu við Akureyri í öndvegi og síðan undir leiðsögn Akureyrarbæjar. Sjá hér deiliskipulagstillöguna í heild.

Reykjavík græna borgin í Evrópu 2012?

Reykjavíkurborg sækist eftir því að vera tilnefnd Græna borgin í Evrópu. Viðurkenningin er aðeins veitt borgum sem hafa sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum, fylgt þeim vel eftir og verið öðrum góð fyrirmynd. Borgir sem helst koma til greina eru metnar út frá nokkrum mælikvörðum, m.a. loftlagsmálum, samgöngum, grænum svæðum, loftgæðum, hávaða, úrgangsstjórnun og vatnsnotkun. Stokkhólmur mun fyrst borga bera titilinn Græn borg í Evrópu fyrir árið 2010 og Hamborg verður Græna borgin árið 2011, sjá nánar hér.

Alta aðstoðaði við gerð umsóknar og var það mál manna að ferlið hefði verið afar lærdómsríkt og upplýsingum var safnað sem gangast munu í framtíðinni við frekara umhverfisstarf Reykjavíkurborgar.

Upp