Námskeið í miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækja

Dagana 27-28. október næstkomandi heldur danska ráðgjafarfyrirtækið Grontmij | Carl Bro tveggja daga námskeið í miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækja, í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI). Námskeiðið verður haldið hjá Alta í Ármúla 32 sem er samstarfsaðili á Íslandi. Námskeiðið verður haldið í kjölfar fundar norræna Global Compact tengslanetsins, sem verður dagana 25-26. október.

Grontmij | Carl Bro er samstarfsaðili GRI á Norðurlöndunum (GRI Certified Training Partner) og vottað af GRI til að skipuleggja og halda námskeið í miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækja í samræmi við viðmið GRI. Námskeiðið nýtist öllum þeim sem hafa hug á að vinna markvisst með samfélagsábyrgð og miðla upplýsingum um starfið á skipulegan hátt.

Skráning til og með 14. október:

Vinsamlegast skráið ykkur á námskeiðið í síðasta lagi 14. október 2010 með því að hafa samband við Stefán Einarsson (sei [hjá] gmcb.dk) eða Heidi Hjorth (hih [hjá] gmcb.dk) sem gefa jafnframt nánari upplýsingar.

Sjá nánar í námskeiðslýsingu hér.

Umræður um samfélagsábyrgð og siðfræði

“You are in control”, eða “Þú ert við stjórnvölinn” - “Creatives in the digital world: Capitalising on cooperation”, er heitið á alþjóðlegri ráðstefnu sem Icelandic Music Export hélt fjórða sinn, 1. til 2. október 2010. Gestir voru úr öllum áttum, haldnir voru spennandi fyrirlestrar og var tjaldað til fjölbreyttu úrvali íslenskra listamanna, sjá nánar hér.

Hulda Steingrímsdóttir hjá Alta tók að sér að leiða umræður undir yfirskriftinni "ethical business is smart business" um hvað hinar skapandi greinar geti gert til að tryggja að þær séu samfélagslega ábyrgar.

Fyrirsjáanlegt er að kröfur um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja muni aukast, bæði í innra starfi og að hinar skapandi greinar leiki þar lykilhlutverk til að skapa nýjar lausnir og að fræða. Spurningin er hvernig getur iðnaðurinn verið undir það búinn og nýtt sér þessar breytingar sem tækifæri sér til framdráttar?

Umræður voru frjóar og skemmtilegar í “heimskaffistíl” og margvísleg ný sjónarhorn komu fram. Sérstaklega hvað varðar að gera starf fyrirtækja opnara, deila upplýsingum og vera heiðarleg, endurskilgreina framtíðarsýn fyrirtækja (reboot mission) og nota sköpunarkraftinn til að leysa vandamálin en líka til að miðla upplýsingum á ferskan hátt. Einnig taldi hópurinn mikilvægt að mæla árangur og vinna eftir siðareglum.

Heimskaffifundur um „Inspired by Iceland“

Á vormánuðum var ljóst að neikvæð umfjöllun vegna eldgossins í Eyjafjallajökli myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Var af því tilefni efnt til samstillts kynningarátaks; „Inspired by Iceland“. Við lok átaksins voru þátttakendur kallaðir saman og leituðu svara við spurningunni: Hvaða lærdóm getur íslensk ferðaþjónusta dregið af átakinu „Inspired by Iceland“?

Alta stýrði fjörlegum umræðum. Mikill samhljómur var hjá þátttakendum fundarins um þann lærdóm sem má draga af átakinu og ber þar hæst sú samstaða og sjálfstyrking sem átakið skilaði. Átakið virðist hafa tekist vonum framar, náð að fylkja liði um sameiginlega hagsmuni og gefur mikilvægar vísbendingar um nýjar markaðsleiðir og samstarfsmáta. Gaman verður að fylgjast með öflugri atvinnugrein á næstu árum.

Skemmtilegt sjónarhorn á bókasafnið í Grundarfirði og skrifstofu Alta

Félagsfræðingurinn Olaf Eigenbordt, sem er byggingaráðgjafi Humboldt háskólabókasafnsins í Berlín, heimsótti Grundarfjörð fyrir nokkrum dögum í tengslum við landsfund bókasafnsfólks, sem haldinn var í Stykkishólmi 17. til 18. september 2010. Í tilefni þess að Ísland verður heiðurgestur á bókasýningunni í Frankfurt 2011 hyggst Olaf skrifa bók um starfsemi bókasafna á Íslandi. Hann hefur því verið að viða að sér efni hérlendis og heimsótt bókasöfn víða um land. Heimsókn hans til Grundarfjarðar var liður í þeirri vinnu. Á bloggsíðu Olafs kemur fram að fyrirkomulag bókasafnsins og húsnæði þess svipi til hans áherslna við uppbyggingu bókasafna. Þarna sé bókasafnið í nánd við skólann en í sama húsnæði og félagsheimili þar sem starfsemin er fjölbreytt, slökkvistöð og útibú frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem sérhæfi sig meðal annars í ráðgjöf um samfélagsmál.

Golfvellir og umhverfismál

Á vegum Golf environment organization (GEO) hefur undanfarin ár verið byggt upp vandað umhverfisstjórnunarkerfi fyrir golfvelli. Uppfylli golfvellir ákveðnar kröfur er hægt að sækja um vottun á umhverfisstarfinu. Öll umgjörð og leiðbeiningar GEO eru fyrirtaksverkfæri til að efla og bæta umhverfismál golfvalla. Unnið er með nokkra málaflokka; náttúru, landslag og menningarminjar, vatnsnotkun, grassvæði, mengunarvarnir, úrgang, orku, fræðslu og vitund og tengsl við nærsamfélag. Tilgangurinn er að hugsa til langs tíma, bæta yfirsýn og notkun auðlinda, efla tengsl við nærsamfélagið og grípa til aðgerða sem koma umhverfi, heilsu og pyngju til góða. Mikilvægt er að umhverfisstarf sé einfalt og aðgengilegt fyrir gesti og starfsmenn, eins og Arnold Schwarzenegger leggur til.

Alta leiðbeinir íslenskum golfklúbbi sem mátar nú kröfur GEO. Áhugi golfvalla á skipulögðu umhverfisstarfi og raunar gæðastarfi einnig, eykst mjög í Evrópu og vinna æ fleiri vellir að því að fá vottun. Á nýliðinni vorráðstefnu SÍGÍ 2010, þar sem Alta ræddi umhverfisstarf golfvalla og kröfur GEO, var ljóst að áhugi golfvallastarfsmanna er einnig vakinn. Fróðlegt verður að fylgjast með þróun þessara mála hér á landi því hér er á ferðinni gott stjórntæki bæði hvað varðar gæði og umhverfismál.

Upp