Heimskaffifundur um „Inspired by Iceland“

Á vormánuðum var ljóst að neikvæð umfjöllun vegna eldgossins í Eyjafjallajökli myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Var af því tilefni efnt til samstillts kynningarátaks; „Inspired by Iceland“. Við lok átaksins voru þátttakendur kallaðir saman og leituðu svara við spurningunni: Hvaða lærdóm getur íslensk ferðaþjónusta dregið af átakinu „Inspired by Iceland“?

Alta stýrði fjörlegum umræðum. Mikill samhljómur var hjá þátttakendum fundarins um þann lærdóm sem má draga af átakinu og ber þar hæst sú samstaða og sjálfstyrking sem átakið skilaði. Átakið virðist hafa tekist vonum framar, náð að fylkja liði um sameiginlega hagsmuni og gefur mikilvægar vísbendingar um nýjar markaðsleiðir og samstarfsmáta. Gaman verður að fylgjast með öflugri atvinnugrein á næstu árum.

Skemmtilegt sjónarhorn á bókasafnið í Grundarfirði og skrifstofu Alta

Félagsfræðingurinn Olaf Eigenbordt, sem er byggingaráðgjafi Humboldt háskólabókasafnsins í Berlín, heimsótti Grundarfjörð fyrir nokkrum dögum í tengslum við landsfund bókasafnsfólks, sem haldinn var í Stykkishólmi 17. til 18. september 2010. Í tilefni þess að Ísland verður heiðurgestur á bókasýningunni í Frankfurt 2011 hyggst Olaf skrifa bók um starfsemi bókasafna á Íslandi. Hann hefur því verið að viða að sér efni hérlendis og heimsótt bókasöfn víða um land. Heimsókn hans til Grundarfjarðar var liður í þeirri vinnu. Á bloggsíðu Olafs kemur fram að fyrirkomulag bókasafnsins og húsnæði þess svipi til hans áherslna við uppbyggingu bókasafna. Þarna sé bókasafnið í nánd við skólann en í sama húsnæði og félagsheimili þar sem starfsemin er fjölbreytt, slökkvistöð og útibú frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem sérhæfi sig meðal annars í ráðgjöf um samfélagsmál.

Golfvellir og umhverfismál

Á vegum Golf environment organization (GEO) hefur undanfarin ár verið byggt upp vandað umhverfisstjórnunarkerfi fyrir golfvelli. Uppfylli golfvellir ákveðnar kröfur er hægt að sækja um vottun á umhverfisstarfinu. Öll umgjörð og leiðbeiningar GEO eru fyrirtaksverkfæri til að efla og bæta umhverfismál golfvalla. Unnið er með nokkra málaflokka; náttúru, landslag og menningarminjar, vatnsnotkun, grassvæði, mengunarvarnir, úrgang, orku, fræðslu og vitund og tengsl við nærsamfélag. Tilgangurinn er að hugsa til langs tíma, bæta yfirsýn og notkun auðlinda, efla tengsl við nærsamfélagið og grípa til aðgerða sem koma umhverfi, heilsu og pyngju til góða. Mikilvægt er að umhverfisstarf sé einfalt og aðgengilegt fyrir gesti og starfsmenn, eins og Arnold Schwarzenegger leggur til.

Alta leiðbeinir íslenskum golfklúbbi sem mátar nú kröfur GEO. Áhugi golfvalla á skipulögðu umhverfisstarfi og raunar gæðastarfi einnig, eykst mjög í Evrópu og vinna æ fleiri vellir að því að fá vottun. Á nýliðinni vorráðstefnu SÍGÍ 2010, þar sem Alta ræddi umhverfisstarf golfvalla og kröfur GEO, var ljóst að áhugi golfvallastarfsmanna er einnig vakinn. Fróðlegt verður að fylgjast með þróun þessara mála hér á landi því hér er á ferðinni gott stjórntæki bæði hvað varðar gæði og umhverfismál.

Umhverfisstjórnun í rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs

Samhliða vinnu við Stjórnunar- og verndaráætlunVatnajökulsþjóðgarðs aðstoðaði Alta teymi þjóðgarðsins við að gera umhverfisúttekt á innra starfi. Þar voru kortlögð umhverfisáhrif í innra starfi þjóðgarðsins og rekstri honum tengdum auk þess sem mikilvægi umhverfisþátta var metið. Niðurstöðurnar gefa skýra mynd af þýðingarmiklum umhverfisþáttum og hvaða aðgerðir eru mikilvægastar til að stuðla að vistvænum rekstri þjóðgarðsins.

Við mótun Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs var tekið mið af niðurstöðu umhverfisúttektarinnar. Mótun umhverfisstefnu fyrir innra starf þjóðgarðsins og starfsmarkmið henni tengd er þannig samofin Stjórnunar- og verndaráætluninni.

Sjá nánar á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.

Varmadæla í Vestmannaeyjum?

Nýsköpunarmiðstöð Íslands í Vestmannaeyjum og HS veitur, sem reka hitaveituna þar, hafa undanfarið verið að velta fyrir sér hagnýtingu varmdælu til að afla varmaorku fyrir veituna. Alta aðstoðaði við könnun á fýsileika hugmyndarinnar. Gert er ráð fyrir því að varminn sé tekinn úr sjó og fluttur yfir í vatnsrás hitaveitunnar en nú er varminn að mestu fenginn með rafhitun. Með hagnýtingu varmadælu má minnka raforkuþörf hitaveitunnar um helming en þá er miðað við að varmaafl frá varmadælunni sé um 6 MW og um 2 MW þurfi til að knýja dæluna. Það sem mestu ræður um hagkvæmni þessarar lausnar er verðið sem greitt er fyrir raforkuna en það er núna mjög lágt þar sem um ótryggt rafmagn er að ræða. Búast má við því að raforkuverð hækki, ekki síst ef Ísland tengist meginlandi Evrópu um sæstreng. Benda má á ýmsan óbeinan hag af notkun varmadælunnar, t.d. að raforka losnar til annarra þarfa og því minni þörf fyrir virkjanir. Hjá Nýsköpunarmiðstöð eru uppi hugmyndir um víðtæka notkun varmadæla á svæðum þar sem jarðhitavatn er ekki nægilega heitt, sjá hér.

Upp