Aðalskipulag Fjarðabyggðar staðfest

Aðalskipulag Fjarðabyggðar 2007-2027 var staðfest af umhverfisráðherra 24. ágúst 2009. Í því er sett fram samræmd framtíðarsýn fyrir þróun samfélags og mótun umhverfis í Fjarðabyggð sem heild og settar fram áherslur fyrir skipulag í hverjum byggðarkjarna. Við aðalskipulagsgerðina var lögð mikil áhersla á samráð við íbúa, kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélagsins. Meðal annars voru haldin íbúaþing í öllum byggðarkjörnum í upphafi skipulagsvinnunar og kynningar- og umræðufundir í lok hennar. Meginhluti aðalskipulagsvinnunnar stóð í rúm tvö ár en þegar sá tími sem fór í auglýsinga- og afgreiðsluferli er meðtalin tók allt ferlið tæp þrjú ár.

Náttúrulegt leiksvæði í Hvalfirði

Náttúrleg leiksvæði njóta nú vaxandi vinsælda víða um heim og risið hafa upp hreyfingar sem beyta sér fyrir fjölgun slíkra leiksvæða á kostnað hinna hefbundnu. Náttúruleg leiksvæði falla mun betur að landi en hefðbundin og hvetja börn til uppgötvana í sjálfu umhverfinu, flóru og fánu. Náttúruleg leiksvæði auka þannig á reynsluheim barna sem í auknum mæli dvelja í tilbúnu umhverfi. Í Hlíðarbæ í Hvalfjarðarsveit er búið að útbúa náttúrulegt leiksvæði. Alta hafði umsjón með skipulagi og verkeftirliti en Stokkar og steinar sáu um smíði og uppsetngu leiktækjanna. Öll leiktækin, kofi, sandkassi, jafnvægisslá og þrautabraut, eru gerð úr Íslenskum viði úr Skógræktinni í Skorradal og falla vel í kjarrivaxið umhverfið. Í námunda við leiktækin eru bláber og hrútaber og kjarrið sjálft býður uppá spennandi uppgötvanir fyrir þau börn sem bregða þar á leik.

Vefur um vistvæn innkaup

Nýverið var opnaður vefur með hagnýtum upplýsingum um vistvæn innkaup, sjá hér: http://vinn.is/. Tilgangur vefsins er að aðstoða opinbera aðila að innleiða vistvæn innkaup á hagkvæman hátt. Að vefnum standa Ríkiskaup, Umhverfisráðuneytið, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær. Þar er að finna upplýsingar sem nýtast við útboðsgerð, innkaupafólki og seljendum vöru. Einnig er að finna á vefnum hagnýtt efni frá Evrópu, upplýsingar fyrir stjórnendur, um lagarammann, nokkur umhverfisskilyrði í útboðum og fleira. Alta hefur aðstoðað við mótun stefnu um vistvæn innkaup og gerð vefjarins og verður fróðlegt að fylgjast með ávinningi af vistvænum innkaupum í framtíðinni.

Grundarfjarðarbær mótar stefnu í ferðaþjónustu

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti þann 8. júní 2009 stefnu í ferðaþjónustu. Upphaf stefnumótunarvinnunnar má rekja til aðgerða bæjarstjórnarinnar og ákvörðunar um að verkefnið yrði einn liður í mótvægisaðgerðum vegna almennrar skerðingar á aflaheimildum. Með því vildi bæjarstjórn bregðast við og kortleggja, með markvissum hætti, möguleika byggðarlagsins til eflingar ferðaþjónustu sem atvinnugreinar. Markmið ferðaþjónustustefnu er að hún stuðli að vexti ferðaþjónustu í bænum, að auknu samstarfi í greininni og auknu samstarfi milli ferðaþjónustuaðila og bæjarins – auk samstarfs á stærra svæði.

Lesa meira...

Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs

Meðal þeirra gagna sem byggt var á við mótun aðalskipulags fyrir Fljótsdalshérað er gríðarlega umfangsmikið ritverk sem Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum hefur tekið saman og hann nefnir Náttúrumæraskrá. Þar lýsir Helgi landslagi og örnefnum á rúmlega 600 stöðum og svæðum auk annarra atriða í náttúrufari, svo sem plöntum, fuglum og fiskum. Skrá Helga er mjög skipulega fram sett. Öllu Héraðssvæðinu er skipt í 13 undirsvæði sem aftur skiptast í griðlönd en þar hefur Helgi tengt saman nálæga staði og svæði. Ákveðið var að reyna að miðla þessum mikla fróðleik á nútímalegan og aðgengilegan hátt á vefnum. Fyrsta skrefið var að fá Helga til að afmarka helstu svæði í landupplýsingakerfi Alta og tengja lýsingu hvers svæðis við afmörkunina. Þessar upplýsingar voru síðan tengdar við landupplýsingavefsjá þar sem greinargott yfirlit fæst yfir þessi svæði. Á vefsjánni má finna um 250 helstu svæði sem voru afmörkuð en í textaham má slá upp öllum svæðunum. Náttúrumæraskráin er aðgengileg gegnum vef Fljótsdalshéraðs eða með beinni tengingu hér

Upp