Nýr og öflugur miðbær á Akureyri

Mikill áhugi var á Opnu húsi við kynningu á tillögu að nýju miðbæjarskipulagi á Akureyri, en stýriópur á vegum Akureyrarbæjar og Graeme Massie Architects hafa á síðustu misserum unnið markvisst að því að móta nánar verðlaunahugmyndir úr hugmyndasamkeppni Akureyrar í öndvegi. Sú vinna er unnin undir verkefnisstjórn Alta í samvinnu við stýrihóp um deiliskipulagið. Í stýrihópnum eru: Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri formaður, Hermann Jón Tómasson, Jóhannes Árnason, Jón Ingi Cæsarsson, Ólafur Jónsson og Unnsteinn Jónsson ásamt Pétri Bolla Jóhannessyni skipulagsstjóra. Markmið opna hússins var að fá viðbrögð íbúa og atvinnurekenda við þessum tillögum. Markmiðið tillagnanna er að miðbærinn verði öflugur vettvangur mannlífs, menningar og atvinnutækifæra. Laugardaginn 21. febrúar var fjölmennur kynningarfundur þar sem bæjarstjóri ásamt hönnuðum frá Graeme Massie Architects og skipulagsstjóra kynntu skipulagshugmyndirnar. Sjá nánar á vef Akureyrarbæjar. Á myndinni eru Robin Sutherland, arkitekt hjá Graeme Massie Architects og Sigrún Björk Jakobsdóttir (Ljósm.: Myndrún RÞB)

Áhugaverð umræða á íbúafundum um aðalskipulag

nthing.jpgSíðari hluta febrúar voru haldnir þrír íbúafundir í Norðurþingi í tengslum við gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Á fundum á Raufarhöfn og Kópaskeri fimmtudaginn 19. febrúar sl. var farið yfir drög að skipulagi þorpanna og rætt um viðfangsefni í skipulagi og áherslur varðandi framtíðarþróun byggðar. Á fundi í Skúlagarði laugardaginn 21. febrúar var síðan rætt um skipulag og áherslur í dreifbýli austan Tjörness og samspil við verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.. Lesa má nánar um fundina á vef Norðurþings.

Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs

Vinna við aðalskipulag fyrir Fljótsdalshérað, hófst vorið 2007. Þetta verður fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins, eftir að það varð til við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs, árið 2004. Aðalskipulagi er ætlað að vera umgjörð um farsælt mannlíf í sveitarfélaginu og í skipulaginu er varpað upp mynd af þeirri framtíð sem stefnt er að. Sýnin byggir á sérstöðu Fljótsdalshéraðs, þeim auðlindum sem hér eru og þarf að standa vörð um eða efla. Stefna og markmið, vísa síðan veginn á þeirri leið sem sveitarfélagið vill fara. Lögð er áhersla á að aðalskipulagið verði unnið í samvinnu við íbúa. Mikilvægt er að íbúar í sveitarfélaginu láti í sér heyra þegar mótuð er stefna fyrir þeirra eigið samfélag, því staðbundin þekking er ómetanleg og hún fæst ekki annarsstaðar. Við upphaf aðalskipulagsvinnunnar verður m.a. höfð hliðsjón af skilaboðum íbúa á Héraðsþingi 2005. Stefna Fljótsdalshéraðs verður höfð að leiðarljósi í aðalskipulagsvinnunni, en þar hefur verið mörkuð sýn sem byggir á þremur stoðum, þekkingu, velferð og þjónustu. Starfshópur um gerð Staðardagskrár 21 vinnur nú að endurskoðun stefnunnar og tillögum um fjórðu stoðina, umhverfi. Þá er unnið að atvinnustefnu fyrir Fljótsdalshérað á sama tíma. Þessi tvö verkefni eru nátengd aðalskipulagsvinnunni og við hana er þess gætt að flétta saman umhverfismál, atvinnumál og skipulagsmál. Markmiðið er að í aðalskipulaginu verði með virkri þátttöku íbúa, mörkuð stefna þar sem einstakir kostir Fljótsdalshéraðs skapa grunn að farsælli framtíð. Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur umsjón aðalskipulagsvinnunni í samvinnu við stýrihóp sem skipaður hefur verið af sveitarfélaginu. Tengiliður Fljótsdalshéraðs við Alta er skipulags-og byggingarfulltrúi, Ómar Þ. Björgólfsson.

Sauðárkrókur byggir á traustum grunni

Gott mannlíf og fjölbreytt atvinnulíf í fallegri náttúrulegri umgjörð er sá trausti grunnur sem Skagfirðingar telja að Sauðárkrókur geti byggt á til framtíðar. Þetta kom fram á íbúaþingi sem sveitarfélagið Skagafjörður stóð fyrir og haldið var á Sauðárkróki sl. laugardag með um 100 þátttakendum. Þær hugmyndir og þau sjónarmið sem komu fram á þinginu verða nýtt við endurskoðun aðalskipulags fyrir Sauðárkrók sem ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur umsjón með.

Lesa meira...

Fyrirmynd að innkaupareglum fyrir sveitarfélög

Samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 84/2007, sem tóku gildi 1. janúar 2008, ber öllum sveitarfélögum að setja sér eigin innkaupareglur. Lögfræðisvið Sambands íslenskra sveitarfélaga átti nýlega frumkvæði að því að endurskoða fyrirmynd að innkaupareglum sem Sambandið gaf út í nóvember 2007. Til verkefnisins var fengin Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta. Um er að ræða reglur um innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. þegar ekki þarf að bjóða út innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Við innkaup yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum eru sveitarfélög og stofnanir þeirra bundin af ákvæðum laga um opinber innkaup. Sveitarstjórnir geta nýtt fyrirmynd Sambandsins við samningu innkaupareglna sinna, en verða þó að laga reglurnar að sinni stjórnsýslu og aðstæðum á hverjum stað. Meðal annars þurfa þær að ákveða viðmiðunarfjárhæðir um útboð á vöru, þjónustu og verkum. Mörg sveitarfélög hafa þegar sett sér innkaupareglur sem þeim er að sjálfsögðu frjálst að láta gilda áfram. Fyrirmynd að innkaupareglum er að finna í tveimur útgáfum. Annars vegar er lengri og ítarlegri fyrirmynd að innkaupareglum sem m.a. gera ráð fyrir að sveitarfélag setji sér innkaupastefnu og skipi innkauparáð. Hins vegar er um að ræða styttri og einfaldari fyrirmynd sem kann að henta betur fyrir minni sveitarfélög. Sjá nánar á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Upp