Rafbílar vekja áhuga

Mikill áhugi hefur vaknað á rafbílum á undanförnum mánuðum enda gæti almenn rafbílavæðing verið mikilvægur þáttur í að minnka kolefnislosun. Víðast hvar myndu rafbílar vera hlaðnir af orkuverum sem nýta kolefniseldsneyti en þar er þó hægt að ná mun betri orkynýtingu en við kolefnisbruna í bílvél. Síðan er mögulegt að hlaða rafbílana þegar straumur berst frá sólar- og vindorkuverum. Ein helsta hindrunin í rafbílavæðingu felst í dreifingu raforkunnar til bílanna þannig að ná megi fullri hleðslu á stuttri stund þegar rafhlaðan tæmist. Ein áhugaverðasta lausnin kemur frá Better Place en það fyrirtæki hefur stungið upp á heildarfyrirkomulagi sem felur í sér hleðslupósta, sjálfvirkar skiptistöðvar fyrir rafhlöður og sjálfvirkri umsjón með hleðslu eftir framboði raforku, t.d. þegar sólin skín og vindurinn blæs. Bílaframleiðandinn Renault-Nissan tengist verkefninu og það er í prófun í Danmörku og Ísrael. Sjá nánar hér.

Framtíðarsýn og skipulagsrammi fyrir Sauðárkrók

krokur.jpgSveitarfélagið Skagafjörður hefur hafið vinnu við mótun framtíðarsýnar fyrir Sauðárkrók. Í verkefninu felst m.a. að greina uppbyggingarmöguleika og hvernig hægt er að bæta ásýnd og umhverfi bæjarins þannig að sem best sé búið að íbúum og atvinnulífi. Þannig verði einnig stuðlað að styrkingu bæjarins sem áfangastaðar ferðamanna. Alta hefur verið ráðið til að aðstoða við stefnumótunina. Meginmarkmið skipulagsvinnunnar eru að til verði skýrar áherslur um mótun byggðarmynsturs og bæjarmyndar þéttbýlisins, sem þróaðar verði í samstarfi sveitarfélagsins, íbúa, hagsmunaaðila og ráðgjafa. Vinnan miði við að skapa mannlífi á Sauðárkróki aðlaðandi umgjörð. Afrakstur vinnunnar verði jafnframt hvetjandi til uppbyggingar og viðhalds byggðar á Sauðárkróki. Í janúar 2009 er ráðgert að halda íbúafund þar sem bæjarbúum og öðrum Skagfirðingum verður boðið að ræða framtíð bæjarins og setja fram hugmyndir um áherslur í þróun hans. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar. Fréttir af framgangi verkefnisins verða birtar á vef Skagafjarðar. Á myndinni eru Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri Skagafjarðar og Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur hjá Alta við undirritun samnings um verkefnið.

Málstofur Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun gengst fyrir röð málstofa um mótun byggðar með þátttöku fulltrúa ólíkra hagsmunahópa. Fyrsta málstofan var haldin 20. nóvember og þar ræddi hópur ungs fólks hvernig til hefur tekist í mótun byggðar hingað til og hvernig gera má betur, bæði hvað varðar byggðina sjálfa og það hvernig ákvarðanir eru teknar. Í næstu málstofu taka þátt íbúa- og félagasamtök, í þeirri þriðju verktakar og fjárfestar, í fjórðu málstofu arkitektar og skipulagsráðgjafar og loks stjórnmálamenn í fimmtu og síðustu málstofunni. Allar nánari upplýsingar um málstofurnar og samantekt umræðna er að finna á sérstakri síðu á vef Skipulagsstofnunar. Málstofurnar eru liður í undirbúningi ráðstefnu sem stofnunin mun halda á vordögum 2009 undir yfirskriftinni "Að móta byggð". Alta aðstoðar Skipulagsstofnun við undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu málstofanna.

Umhverfismerkið Svanurinn í farabroddi á heimsvísu

Umhverfismerkið Svanurinn var stofnað af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989 og var nýlega tilnefnt sem eitt af bestu umhverfismerkjum í heimi. Umhverfismerki eru verkfæri neytenda við að velja vörur sem hafa minni áhrif á umhverfið en aðrar sambærilegar vörur – kröfur Svansins byggja á lífsferli vörunnar og þykja áreiðanlegar eins og þessi tilnefning ber með sér. “Svanurinn er dæmi um nýsköpun, sem byggir á norrænum gildum eins og virðingu fyrir náttúrunni og trausti milli ólíkra aðila í samfélaginu", segir Tryggvi Felixson, deildarstjóri umhverfisskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. „Mikilvæg grunnregla í norrænu samstarfi er að stefna að hæsta metnaðarstigi og það myndi án efa hafa góð áhrif á umhverfi jarðar ef Svanurinn væri notaður í stórum og vaxandi hagkerfum". Hér á Íslandi er að finna um 200 Svansmerktar vörutegundir úr hinum ýmsu vöruflokkum, s.s. málningu, rúm, slátturvélar, penslasápu, hreinsiefni og prentþjónustu, sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar; www.ust.is/Svanurinn. Í rökstuðningi fyrir valinu á Svaninum stendur: Svanurinn er líklega best þekkta umhverfismerkið í Evrópu. Á Norðurlöndum þekkja 67% íbúa merkið og það er í síauknum mæli notað utan Norðurlandanna. Náið samstarf stjórnvalda og iðnaðar hefur tryggt stuðning frá neytendum, stjórnmálamönnum, atvinnulífi og frjálsum félagasamtökum. 207 staðlar og innihaldslýsingar alls staðar að úr heiminum voru greindar til þess að finna nákvæmustu kerfin og fjögur umhverfismerki voru valin sem þau bestu: Svanur Norrænu ráðherranefndarinnar, Blái engillinn frá Þýskalandi, Environmental Choice frá Nýja-Sjálandi og ESB Blómið. Sjá nánar hér.

Koma umhverfismál við sögu á hverjum degi?

Námskeið um umhverfismál hjá öllum starfsmönnum ISAL standa nú yfir. Námskeiðin heldur Alta og fjalla þau um umhverfismál í daglegu lífi, krydduð dæmum. Áhersla er á umhverfismál almennt, orðræðuna hér á landi, t.d. kolefnisjöfnun, umhverfismerkingar, hvað er umhverfisvænt, umhverfisvottun, sparnaðarráð og muninn á viðhorfum og aðgerðum. ISAL hefur lengi verið í fremstu röð hvað varðar skipulegt umhverfis- og öryggisstarf í starfsemi fyrirtækisins. Markmið námskeiðsins er að auka skilning á umhverfismálum í daglegu lífi starfsmanna og þeim tækifærum sem skapast vegna breytinga í umhverfi okkar. Fjörlegar umræður hafa verið enda koma umhverfismál við sögu á hverjum degi...

Upp