Táknatréð risið á Urriðaholti

Tree of Life - Lífsins tréFyrsta mannvirkið – Táknatréð – er risið í nýju hverfi Urriðaholts. Táknatréð er fimm metra hár skúlptúr úr bronsi og dæmi um fjölbreytni þeirra verkefna sem eru á borðum Alta; þar sem góðar hugmyndir verða að veruleika. Táknatréð er hugmynd Gabríelu Friðriksdóttur og listamannanna/hönnuðanna M/M; Mathias Augustyniak og Michael Amzalag. Tréð segir Gabríela vera minnisvarða um mögleika, innblásið af gjafmildi og góðu samstarfi ólíkra aðila og endurspegli þannig undirstöður þeirrar byggðar sem rísa mun í Urriðaholti. Það var hátíðarbragur á Urriðaholti hinn 19. maí síðastliðinn, þegar Táknatréð var afhjúpað að viðstöddum listamönnunum þremur, aðstandendum verksins og öðrum góðum gestum. Hlutverk Alta í ferlinu var verkstjórn á undirbúningsstigi listaverksins. Mótasmíðin fór fram í Frakklandi hjá MakingArtProd en steypuvinna í Þýskalandi hjá Strassacker. Fjölmargir komu að gerð verksins og þakkar Alta þeim öllum gott samstarf. Sjá hér sérstaka umfjöllun um tréð á vef Bjarkar. Myndband þar sem Gabríela Friðriksdóttir og M/M eru að störfum.

Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum?

Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Alta, var meðal frummælenda á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands föstudaginn 16. maí s.l. Ráðstefnan bar yfirskriftina Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum? Fulltrúalýðræði – stjórnmálaflokkar – hagsmunaaðilar – íbúar og markar upphaf þriggja ára þróunar- og rannsóknaverkefnis Sambandsins og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um íbúalýðræði. Erindi Bjargar, Samráð ,,eftir föngum” – Hver er reynslan af íbúaþingum? fjallaði m.a. um reynslu af samráði við íbúa á vettvangi skipulagsmála, en titill erindisins vísar til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Sjá hér glærur með erindi Bjargar

Kuðungurinn til Sólarræstingar

Kuðungurinn - SólarræstingSólarræsting hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, við athöfn í Perlunni á Degi umhverfisins 25. apríl 2008. Við hjá Alta óskum Sólarræstingu innilega til hamingju með verðlaunin. Birna Helgadóttir ásamt fleiri ráðgjöfum hjá Alta vann með Sólarræstingu við uppbyggingu gæða- og umhverfisstjórnunarkerfis sem uppfyllir viðmiðunarreglur Svansins. Sólarræsting er einstaklega vel að þessum verðlaunum komin því að þar hefur tekist að flétta saman umhverfis- og gæðastarf á einkar árangursríkan hátt og samhæfa það daglegu starfi alls starfsfólks. Hefur það skilað sér í bæði umhverfislegum og fjárhagslegum ávinningi m.a. með bættum rekstri og auknum viðskiptum. Formaður dómnefndar sagði við athöfnina m.a. að Sólarræsting hefði með markvissri áherslu á umhverfissjónarmið í starfi sínu og stefnumótun sett glæsilegt fordæmi sem væri öðrum fyrirtækjum til hvatningar og eftirbreytni. Nánar má lesa um Kuðunginn og umsögn dómnefndar hér: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1262 Á myndinni er Daiva (með verðlaunagripinn), Þórsteinn og Birna eftir athöfnina í Perlunni.

Svanurinn kominn á flug!

Svanurinn - sýning í PerlunniÁ sýningunni “Vistvænn lífsstíll” í Perlunni 25. og 26. apríl sl. var m.a. hægt að sjá Svansmerktar vörur í hundraðatali sem fást í verslunum á Íslandi. Þar var m.a. að finna rúm, parket, sláttuvél, hreinlætispappír og hreinsiefni af ýmsu tagi. Umhverfisstofnun stóð að Svanskynningunni og er hún hugsuð sem fyrsta skrefið í átaki um að efla Svaninn á Íslandi. Ráðgjafar Alta aðstoðuðu Umhverfisstofnun við undirbúning sýningarinnar sem fólst m.a. í að kortleggja Svansmerktar vörur á markaðnum og að uppfæra vef Svansins. Hægt er að nálgast lista yfir Svansmerktu vörurnar og að fá frekar upplýsingar um Svaninn á www.svanurinn.is. Umhverfisráðuneytið, Úrvinnslusjóður og SORPA buðu til sýningarinnar þar sem um 25 fyrirtæki, félög og stofnanir kynntu starfsemi sína. Markmiðið með sýningunni var að skapa vettvang þar sem almenningur fær tækifæri til þess að kynna sér það sem í boði er á þessum markaði.

Norðurþing mótar framtíðarsýn

Norðurþing - aðalskipulagNorðurþing hefur ákveðið að vinna nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Búsetuþróun á svæðinu, nýting og verndun náttúruauðlinda og áform um álver kalla á að Norðurþing móti sér framtíðarsýn og setji niður stefnu um byggðaþróun og landnotkun. Í aðalskipulagsvinnunni verður lögð sérstök áhersla á að marka stefnu um miðbæ Húsavíkur þannig að uppbyggingu hans verði með stýrt í átt að skýrri heildarsýn á þennan kjarna sveitarfélagsins. Einnig verður lögð áhersla á greiningu og stefnumörkun um landslag, í ljósi fjölbreytni þess, verðmætis og þýðingar fyrir búsetuskilyrði og ferðaþjónustu í Norðurþingi. „Í þessari vinnu viljum við skerpa einkenni og ímynd Norðurþings og leita leiða til að nýta betur þau tækifæri sem hér felast í náttúru og samfélagi. Við sjáum þessa stefnumörkun sem mikilvægan þátt til að efla sveitarfélagið, ekki síst í atvinnumálum“, segir Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings. Aðalskipulag er lykilþáttur í markvissri þróun hvers sveitarfélags og sveitarstjórnarmenn gera sér æ betur grein fyrir mikilvægi þess. Ennfremur er vaxandi áhuga og skilningur íbúa og fyrirtækja á skipulagsmálum og æ oftar kallað eftir skýrri stefnu um framtíðarþróun sveitarfélags. Norðurþing hefur samið við ráðgjafarfyrirtækið Alta um gerð aðalskipulagsins og væntir mikils af því samstarfi, þar sem Alta hefur m.a. sérhæft sig í stefnumörkun í aðalskipulagi. Vinna við aðalskipulagið er þegar hafin en gert er ráð fyrir því að henni ljúki í lok árs 2009. Á myndinni eru Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings og Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta við undirritun samnings um aðalskipulagsgerð fyrir Norðurþing.

Upp