Samfélagsleg ábyrgð og GRI sjálfbærnivísar

Samfélagsleg ábyrgð verður sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi fyrirtækja. Samfélagsábyrgð fyrirtækja tekur til umhverfis-, efnahags- og samfélagsþátta og felst í því að starfshættir og auðlindir fyrirtækisins séu einnig nýttar til hagsældar fyrir samfélagið sem það starfar í. GRI leiðbeiningar eru alþjóðlegur staðall sjálfbærnivísa á vegum Global Reporting Initiative sem auðveldar fyrirtækjum að miðla upplýsingum um starf sitt á sviði samfélagslegrar ábyrgðar með trúverðugum hætti, þar sem skilgreint er hvaða atriði og áherslur skipta mestu máli í slíku starfi og æskilegt er að miðla. Auk þess eru GRI viðmiðin góður leiðarvísir til hliðsjónar við uppbyggingu sjálfbærnistarfs fyrirtækja. Lykiláherslur GRI eru gagnsæi, áreiðanleiki, kynning og sjálfbærni. Yfir 1000 fyrirtæki nota GRI-viðmiðin í dag, algengust eru stór og meðalstór fyrirtæki. Hægt er vinna með GRI viðmiðin í áföngum og ganga smám saman lengra varðandi miðlun upplýsinga. Hægt er að velja um nokkur stig varðandi umfang upplýsinga og mismunandi stig vottunar. Mikilvægt er að líta á samfélagsábyrgð fyrirtækisins sem langferð sem smám saman skilar sér í bættri frammistöðu, trúverðugleika, ímynd og þar af leiðandi bættri samkeppnisstöðu. Mestum árangri er náð ef gefinn er góður tími, þá verður starfið vel skipulagt og árangursríkt. Greina má ákveðna þróun í samfélaglegri ábyrgð fyrirtækja undanfarin misseri. Sé horft út fyrir landsteinana kemur í ljós að:

 • Fjárfestar gera auknar kröfur um frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum
 • Fyrirtækjum fjölgar sem nýta sér GRI-viðmiðin
 • Tengsl og samræður við hagsmunaaðila hafa aukist
 • Umræðan um loftslagsbreytingar hefur haft áhrif á starf fyrirtækja. Til dæmis hafa 7 af hverjum 10 fyrirtækjum í Svíþjóð aukið umhverfisstarf sitt síðasta árið, sem rekja má til aukins þunga í umræðum um loftslagsmál.
 • Fleiri fyrirtæki gera grein fyrir sjálfbærnistarfi sínu sem hluta af ársskýrslum, til dæmis hefur sænska ríkisstjórnin skyldað allar ríkisstofnanir til að fylgja GRI-viðmiðum við ársuppgjör.
 • Gerð er krafa um að upplýsingar um samfélagsábyrgð sé á tungumáli viðskiptafræðinnar

Hér á Íslandi hefur umræða aukist um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Á vordögum var stofnuð miðstöð Íslands um samfélagsábyrgð fyrirtækja sem hýst er hjá HR. Mjög fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa málaflokks á Íslandi á næstunni. Sjá nánar um GRI á www.globalreporting.org og um nýstofnaða miðstöð samfélagsábyrgðar fyrirtækja Eþíkos. Alta veitir alhliða aðstoð við að greina tækifærin og innleiða samfélagslega ábyrgð í rekstur, sjá m.a. um þjónustu Alta hér.

Samgöngustefna fyrirtækja: Hver er ávinningurinn?

Innleiðing samgöngustefnu er góð leið fyrir fyrirtæki og stofnanir til að stuðla að minni kostnaði og umhverfisáhrifum vegna ferða starfsmanna sinna, hvort sem er vegna ferða til og frá vinnu eða á vinnutíma. Slíkt starf getur haft í för með sér margskonar ávinning fyrir bæði fyrirtækið og starfsmenn þess, ekki síst nú þegar verð á eldsneyti fer hækkandi dag frá degi. Auk þess fellur slík vinna vel að umhverfisstarfi fyrirtækisins og sýnir samfélagslega ábyrgð í verki, þar sem stuðlað er að vistvænni og heilnæmari samgönguháttum. Gerð og innleiðing samgöngustefnu felur m.a. í sér kortlagningu á stöðu mála m.t.t. umfangs og kostnaðar við ferðir hjá fyrirtækinu og starfsmönnum þess. Byggt á þeirri vinnu eru mótaðir valkostir varðandi fyrirkomulag samgöngumála, sett markmið og gerð áætlun um framfylgd. Dæmi um ávinning af innleiðingu samgöngustefnu:

 • Minni kostnaður við vinnutengdar ferðir starfsmanna.
 • Möguleiki á að nýta betur lóðir fyrir byggingar auk minni kostnaðar við rekstur bílastæða.
 • Stuðlað að umhverfisvænni samgöngumátum, minni bílaumferð, hljóð- og loftmengun og losun á CO2.
 • Aukin hreyfing og bætt heilsa starfsmanna.
 • Minni ,,bílastæðavandi". Greiðari aðgangur viðskiptavina að bílastæðum.
 • Aukin samkennd starfsmanna og bættur mórall á vinnustað.
 • Aukin samfélagsábyrgð fyrirtækisins og stuðlað að jákvæðri ímynd meðal almennings og viðskiptavina.

Alta aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að koma á árangursríkri samgöngustefnu, s.s. við:

 • Að byggja upp þekkingu og áhuga stjórnenda og starfsmanna, s.s. með fræðslu um mögulegar aðgerðir og dæmum af ávinningi.
 • Undirbúning og gerð stefnu, þ.m.t. gerð starfsmannakönnunar
 • Skilgreina valkosti varðandi ferðir starfsmanna og koma í farveg sem hvetur til breytinga, s.s. varðandi samkeyrslu starfsmanna, bílastæðafyrirkomulag, almenningssamgöngur, göngu- og hjólreiðar, sveigjanlegan vinnutíma og vinnu að heiman, o.fl.
 • Yfirvinna hindranir, s.s. varðandi fyrirkomulag ferða- / bílastyrkja og aðstoð við mótun valkosta.
 • Samvinnu við hagsmunaaðila, fyrirtæki og opinberar stofnanir.
 • Eftirfylgni.

Táknatréð risið á Urriðaholti

Tree of Life - Lífsins tréFyrsta mannvirkið – Táknatréð – er risið í nýju hverfi Urriðaholts. Táknatréð er fimm metra hár skúlptúr úr bronsi og dæmi um fjölbreytni þeirra verkefna sem eru á borðum Alta; þar sem góðar hugmyndir verða að veruleika. Táknatréð er hugmynd Gabríelu Friðriksdóttur og listamannanna/hönnuðanna M/M; Mathias Augustyniak og Michael Amzalag. Tréð segir Gabríela vera minnisvarða um mögleika, innblásið af gjafmildi og góðu samstarfi ólíkra aðila og endurspegli þannig undirstöður þeirrar byggðar sem rísa mun í Urriðaholti. Það var hátíðarbragur á Urriðaholti hinn 19. maí síðastliðinn, þegar Táknatréð var afhjúpað að viðstöddum listamönnunum þremur, aðstandendum verksins og öðrum góðum gestum. Hlutverk Alta í ferlinu var verkstjórn á undirbúningsstigi listaverksins. Mótasmíðin fór fram í Frakklandi hjá MakingArtProd en steypuvinna í Þýskalandi hjá Strassacker. Fjölmargir komu að gerð verksins og þakkar Alta þeim öllum gott samstarf. Sjá hér sérstaka umfjöllun um tréð á vef Bjarkar. Myndband þar sem Gabríela Friðriksdóttir og M/M eru að störfum.

Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum?

Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Alta, var meðal frummælenda á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands föstudaginn 16. maí s.l. Ráðstefnan bar yfirskriftina Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum? Fulltrúalýðræði – stjórnmálaflokkar – hagsmunaaðilar – íbúar og markar upphaf þriggja ára þróunar- og rannsóknaverkefnis Sambandsins og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um íbúalýðræði. Erindi Bjargar, Samráð ,,eftir föngum” – Hver er reynslan af íbúaþingum? fjallaði m.a. um reynslu af samráði við íbúa á vettvangi skipulagsmála, en titill erindisins vísar til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Sjá hér glærur með erindi Bjargar

Kuðungurinn til Sólarræstingar

Kuðungurinn - SólarræstingSólarræsting hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, við athöfn í Perlunni á Degi umhverfisins 25. apríl 2008. Við hjá Alta óskum Sólarræstingu innilega til hamingju með verðlaunin. Birna Helgadóttir ásamt fleiri ráðgjöfum hjá Alta vann með Sólarræstingu við uppbyggingu gæða- og umhverfisstjórnunarkerfis sem uppfyllir viðmiðunarreglur Svansins. Sólarræsting er einstaklega vel að þessum verðlaunum komin því að þar hefur tekist að flétta saman umhverfis- og gæðastarf á einkar árangursríkan hátt og samhæfa það daglegu starfi alls starfsfólks. Hefur það skilað sér í bæði umhverfislegum og fjárhagslegum ávinningi m.a. með bættum rekstri og auknum viðskiptum. Formaður dómnefndar sagði við athöfnina m.a. að Sólarræsting hefði með markvissri áherslu á umhverfissjónarmið í starfi sínu og stefnumótun sett glæsilegt fordæmi sem væri öðrum fyrirtækjum til hvatningar og eftirbreytni. Nánar má lesa um Kuðunginn og umsögn dómnefndar hér: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1262 Á myndinni er Daiva (með verðlaunagripinn), Þórsteinn og Birna eftir athöfnina í Perlunni.

Upp