Lífleg samræða á umhverfisþingi

Fjölmennasta Umhverfisþing umhverfisráðuneytisins til þessa var haldið 9. og 10. október síðast liðinn með yfir 400 þátttakendur. Á þinginu var fjallað um tengsl umhverfismála við atvinnu- og efnahagslífið og raunar alla þætti samfélagsins undir merkjum sjálfbærrar þróunar. Hópur ungs fólks tók einnig virkan þátt í þinginu til að stuðla að umræðu á milli kynslóðanna um framtíðarþróun Íslands.
Í samræmi við áherslur í sjálfbærri þróun, um virkt samráð við hagsmunaaðila, lagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra áherslu á að fara nýjar leiðir á Umhverfisþinginu og nýta þekkingu og reynslu þinggesta. Því var efnt til þriggja samráðsfunda í heimskaffistíl, til að fá efnivið í stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Á samráðsfundunum var leitað svara við eftirfarandi spurningum:

  • „Hvernig náum við raunverulegum árangri við uppbyggingu sjálfbærs samfélags?“
  • „Hvernig byggjum við upp öflugt og umhverfisvænt atvinnulíf?“ og
  • „Sjálfbært Ísland – hvernig komumst við þangað?

Það voru þær Birna Helgadóttir og Hulda Steingrímsdóttir ráðgjafar hjá Alta sem stýrðu samráðsfundunum. Umræður voru fjörlegar og komu margar hugmyndir fram sem nánar verður unnið úr á næstunni.

DSCF7583_250.jpg DSCF7594_250.jpg

Hvert er kolefnisspor Reykvíkinga?

umferd.jpgOg hvers vegna er munur á kolefnisspori borga? Þessar spurningar eru áhugaverðar og hafa vísindamenn reiknað út og borið saman losun nokkurrra borga, eins og sjá má í umfjöllun The Economist. Markmiðið er að greina launsir bestu borganna sem gætu nýst þeim er verr standa og þannig unnið hraðar á móti loftslagsbreytingum.

Skoðaðar voru 10 borgir sem losa allt frá 4,1 tonn CO2/einstakling í Barselóna yfir í 21,5 tonn CO2/einstakling í Denver. Genf og Prag losuðu einnig lítið en Los Angeles, Höfðaborg og Toronto voru í hópi þeirra sem losuðu afar mikið. Að baki útreikningunum eru upplýsingar um losun frá t.d. upphitun, samgöngum og sorpurðun.

Í dag losar hver íbúi í Reykjavík um 3 tonn af koldíoxíði (CO2) en það er að sjálfsögðu hitaveitan sem veldur því að losun er lítil í samanburði við aðrar borgir. Í nýsamþykktri loftslags- og loftsgæðastefnu Reykjavíkur, koma fram ný markmið um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Ef þau ná fram að ganga verður losun á hvern íbúa um 1,7 tonn koldíoxíð árið 2020 og um 0,6 tonn árið 2050. Til þess að ná fram markmiðum þurfa allir að leggjast á eitt, einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld.

Drög að aðalskipulagi Norðurþings

Drög að aðalskipulagstillögu fyrir Norðurþing hafa verið birt á vef Norðurþings og er íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þar með gefinn kostur á að kynna sér drögin og senda inn athugasemdir og ábendingar áður en gengið verður frá lokatillögu til kynningar og auglýsingar skv. skipulags- og byggingarlögum. Drögin eru sett fram í nokkrum áfangaskýrslum og hefur hluti þeirra áður verið kynntur á íbúafundum og vef sveitarfélagsins. Sjá nánar á vef Norðuþings, www.nordurthing.is

Bókagjöf til Landbúnaðarháskóla Íslands

lbhi.jpgUndanfarin fimm ár hafa Landbúnaðarháskólinn og Alta átt ánægjulegt samstarf í framhaldi af samkomulagi sem gert var þar um árið 2004. Starfsfólk Alta hefur tekið þátt í kennslu og nemendur hafa fengið tækifæri til að taka þátt í samráðsviðburðum sem Alta hefur annast. Það dróst hins vegar að ljúka einum þætti samkomulagsins sem kvað á um að Alta myndi gefa skólanum bækur. Alta heimsótti landbúnaðarháskólann nýlega til þess að bæta úr þessu og þar veittu Ágúst Sigurðsson rektor, Ólafur Arnalds deildarforseti og Auður Sveinsdóttir dósent bókunum viðtöku.

Aðalskipulag Fjarðabyggðar staðfest

Aðalskipulag Fjarðabyggðar 2007-2027 var staðfest af umhverfisráðherra 24. ágúst 2009. Í því er sett fram samræmd framtíðarsýn fyrir þróun samfélags og mótun umhverfis í Fjarðabyggð sem heild og settar fram áherslur fyrir skipulag í hverjum byggðarkjarna. Við aðalskipulagsgerðina var lögð mikil áhersla á samráð við íbúa, kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélagsins. Meðal annars voru haldin íbúaþing í öllum byggðarkjörnum í upphafi skipulagsvinnunar og kynningar- og umræðufundir í lok hennar. Meginhluti aðalskipulagsvinnunnar stóð í rúm tvö ár en þegar sá tími sem fór í auglýsinga- og afgreiðsluferli er meðtalin tók allt ferlið tæp þrjú ár.

Upp