Umhverfisáherslur við endurbætur á húsnæði Alta

Við endurbætur á skrifstofuhúsnæði Alta í Ármúla var lögð áhersla á gæði, heilsu og umhverfismál. Fylgt var LEED-staðli um endurbætur. Það sem kom á óvart er að vistvænu lausnirnar reyndust alls ekki dýrari en aðrar og að jafnframt er ljóst að rekstrarkostnaður hjá okkur verður lægri en ella. Hér fara nokkur dæmi um áherslur og atriði sem er að finna hjá Alta:

 • Málning – umhverfismerkt, Svanurinn
 • Blóm – hreinsa andrúmsloft og gera umhverfið vistlegra.
 • Ljósastýring – sparar orku.
 • Gólfefni – Korkur, endurnýjanleg auðlind, endingargóður, hljóðdempandi, með náttúrulegri brunavörn, olíu- og vaxborinn. Minni viðhaldsþörf.
 • Loftaplötur - Vinnurýmið er allt opið og var því lögð rík áhersla á að fá bestu fáanlegu kerfisloftaplöturnar varðandi hljóðvist. Plöturnar eru auk þess ofnæmisprófaðar og umhverfismerktar, Svanurinn.
 • Gluggar – gler með filmu sem varna varmageilsun út, þ.e. eykur einangrunargildi og temprar varmageilsun inn og bætir þannig vinnuskilyrði.
 • Húsgögn – þrátt fyrir flutning í nýtt húsnæði voru áfram notuð eldri húsgögn enda valdar sígildar vörur.
 • Loftræsting - í skrifstofurýminu er ekki þörf á sjálfvirkri loftræstingu í stað þess var komið fyrir fleiri opnanlegum fögum svo stýra megi betur innstreymi/gegnumstreymi lofts. Í lokuðum rýmum er því nauðsynlegt að hafa tvö opnanleg fög.
 • Orkusparnaður – sem dæmi eru ný ljósritunarvél og faxvél með energy star og power safe.
 • Handklæði – í stað pappírs
 • Salerni - vatnssparandi salerni
 • Sturta – góð aðstaða auðveldar starfsmönnum að hjóla til vinnu.
 • Aðstaða fyrir reiðhjól sem margir starfsmenn nýta sér

Sjá nánar í þessu skjali.

Tengist lýðheilsa og heilnæmi matvæla landnoktun og skipulagi sveitarfélaga?

Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur hjá Alta ræddi um tengsl lýðheilsu og skipulags á málþingi sem Arkitektafélag Íslands gekkst fyrir um skipulagsmál 27. til 29. mars í Ráðhúsi Reykjavíkur. Yfirskriftin var Lýðheilsa og skipulag. Salvör benti á að lýðheilsufræði og skipulag eiga sameiginlega sögu í faraldursfræðum, þessar fræðigreinar hafi því ýmsa snertifleti. Til dæmis voru það Guðmundur Hannesson læknir og Guðjón Samúelsson arkitekt, sem voru brautryðjendur hér á landi á sviði skipulagsmála. Hún beindi athyglinni aðallega að matvælaframleiðslu og hvernig skipulagsákvarðanir geta haft áhrif á framboð og aðgengi heilnæmra matvæla. Svokallað "Food system planning" hefur ekki verið sinnt hér á landi, en er þekkt annars staðar í tengslum við skipulag og matvælaframleiðslu.

Lesa meira...

Nýr og öflugur miðbær á Akureyri

Mikill áhugi var á Opnu húsi við kynningu á tillögu að nýju miðbæjarskipulagi á Akureyri, en stýriópur á vegum Akureyrarbæjar og Graeme Massie Architects hafa á síðustu misserum unnið markvisst að því að móta nánar verðlaunahugmyndir úr hugmyndasamkeppni Akureyrar í öndvegi. Sú vinna er unnin undir verkefnisstjórn Alta í samvinnu við stýrihóp um deiliskipulagið. Í stýrihópnum eru: Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri formaður, Hermann Jón Tómasson, Jóhannes Árnason, Jón Ingi Cæsarsson, Ólafur Jónsson og Unnsteinn Jónsson ásamt Pétri Bolla Jóhannessyni skipulagsstjóra. Markmið opna hússins var að fá viðbrögð íbúa og atvinnurekenda við þessum tillögum. Markmiðið tillagnanna er að miðbærinn verði öflugur vettvangur mannlífs, menningar og atvinnutækifæra. Laugardaginn 21. febrúar var fjölmennur kynningarfundur þar sem bæjarstjóri ásamt hönnuðum frá Graeme Massie Architects og skipulagsstjóra kynntu skipulagshugmyndirnar. Sjá nánar á vef Akureyrarbæjar. Á myndinni eru Robin Sutherland, arkitekt hjá Graeme Massie Architects og Sigrún Björk Jakobsdóttir (Ljósm.: Myndrún RÞB)

Áhugaverð umræða á íbúafundum um aðalskipulag

nthing.jpgSíðari hluta febrúar voru haldnir þrír íbúafundir í Norðurþingi í tengslum við gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Á fundum á Raufarhöfn og Kópaskeri fimmtudaginn 19. febrúar sl. var farið yfir drög að skipulagi þorpanna og rætt um viðfangsefni í skipulagi og áherslur varðandi framtíðarþróun byggðar. Á fundi í Skúlagarði laugardaginn 21. febrúar var síðan rætt um skipulag og áherslur í dreifbýli austan Tjörness og samspil við verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.. Lesa má nánar um fundina á vef Norðurþings.

Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs

Vinna við aðalskipulag fyrir Fljótsdalshérað, hófst vorið 2007. Þetta verður fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins, eftir að það varð til við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs, árið 2004. Aðalskipulagi er ætlað að vera umgjörð um farsælt mannlíf í sveitarfélaginu og í skipulaginu er varpað upp mynd af þeirri framtíð sem stefnt er að. Sýnin byggir á sérstöðu Fljótsdalshéraðs, þeim auðlindum sem hér eru og þarf að standa vörð um eða efla. Stefna og markmið, vísa síðan veginn á þeirri leið sem sveitarfélagið vill fara. Lögð er áhersla á að aðalskipulagið verði unnið í samvinnu við íbúa. Mikilvægt er að íbúar í sveitarfélaginu láti í sér heyra þegar mótuð er stefna fyrir þeirra eigið samfélag, því staðbundin þekking er ómetanleg og hún fæst ekki annarsstaðar. Við upphaf aðalskipulagsvinnunnar verður m.a. höfð hliðsjón af skilaboðum íbúa á Héraðsþingi 2005. Stefna Fljótsdalshéraðs verður höfð að leiðarljósi í aðalskipulagsvinnunni, en þar hefur verið mörkuð sýn sem byggir á þremur stoðum, þekkingu, velferð og þjónustu. Starfshópur um gerð Staðardagskrár 21 vinnur nú að endurskoðun stefnunnar og tillögum um fjórðu stoðina, umhverfi. Þá er unnið að atvinnustefnu fyrir Fljótsdalshérað á sama tíma. Þessi tvö verkefni eru nátengd aðalskipulagsvinnunni og við hana er þess gætt að flétta saman umhverfismál, atvinnumál og skipulagsmál. Markmiðið er að í aðalskipulaginu verði með virkri þátttöku íbúa, mörkuð stefna þar sem einstakir kostir Fljótsdalshéraðs skapa grunn að farsælli framtíð. Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur umsjón aðalskipulagsvinnunni í samvinnu við stýrihóp sem skipaður hefur verið af sveitarfélaginu. Tengiliður Fljótsdalshéraðs við Alta er skipulags-og byggingarfulltrúi, Ómar Þ. Björgólfsson.

Upp