Vefur um vistvæn innkaup

Nýverið var opnaður vefur með hagnýtum upplýsingum um vistvæn innkaup, sjá hér: http://vinn.is/. Tilgangur vefsins er að aðstoða opinbera aðila að innleiða vistvæn innkaup á hagkvæman hátt. Að vefnum standa Ríkiskaup, Umhverfisráðuneytið, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær. Þar er að finna upplýsingar sem nýtast við útboðsgerð, innkaupafólki og seljendum vöru. Einnig er að finna á vefnum hagnýtt efni frá Evrópu, upplýsingar fyrir stjórnendur, um lagarammann, nokkur umhverfisskilyrði í útboðum og fleira. Alta hefur aðstoðað við mótun stefnu um vistvæn innkaup og gerð vefjarins og verður fróðlegt að fylgjast með ávinningi af vistvænum innkaupum í framtíðinni.

Grundarfjarðarbær mótar stefnu í ferðaþjónustu

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti þann 8. júní 2009 stefnu í ferðaþjónustu. Upphaf stefnumótunarvinnunnar má rekja til aðgerða bæjarstjórnarinnar og ákvörðunar um að verkefnið yrði einn liður í mótvægisaðgerðum vegna almennrar skerðingar á aflaheimildum. Með því vildi bæjarstjórn bregðast við og kortleggja, með markvissum hætti, möguleika byggðarlagsins til eflingar ferðaþjónustu sem atvinnugreinar. Markmið ferðaþjónustustefnu er að hún stuðli að vexti ferðaþjónustu í bænum, að auknu samstarfi í greininni og auknu samstarfi milli ferðaþjónustuaðila og bæjarins – auk samstarfs á stærra svæði.

Lesa meira...

Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs

Meðal þeirra gagna sem byggt var á við mótun aðalskipulags fyrir Fljótsdalshérað er gríðarlega umfangsmikið ritverk sem Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum hefur tekið saman og hann nefnir Náttúrumæraskrá. Þar lýsir Helgi landslagi og örnefnum á rúmlega 600 stöðum og svæðum auk annarra atriða í náttúrufari, svo sem plöntum, fuglum og fiskum. Skrá Helga er mjög skipulega fram sett. Öllu Héraðssvæðinu er skipt í 13 undirsvæði sem aftur skiptast í griðlönd en þar hefur Helgi tengt saman nálæga staði og svæði. Ákveðið var að reyna að miðla þessum mikla fróðleik á nútímalegan og aðgengilegan hátt á vefnum. Fyrsta skrefið var að fá Helga til að afmarka helstu svæði í landupplýsingakerfi Alta og tengja lýsingu hvers svæðis við afmörkunina. Þessar upplýsingar voru síðan tengdar við landupplýsingavefsjá þar sem greinargott yfirlit fæst yfir þessi svæði. Á vefsjánni má finna um 250 helstu svæði sem voru afmörkuð en í textaham má slá upp öllum svæðunum. Náttúrumæraskráin er aðgengileg gegnum vef Fljótsdalshéraðs eða með beinni tengingu hér

Samráðsfundur um Miklatún

Reykjavíkurborg hefur áhuga á því að efla Miklatún sem sælureit í borginni. Til þess að fá góðar hugmyndir og ábendingar um það hvernig svo gæti orðið var boðað til samráðsfundar með borgarbúum þann 6. maí s.l. á Kjarvalsstöðum. Þátttaka var mjög góð því milli 80 og 90 áhugasamir borgarar ræddu hugmyndir sínar í litlum hópum og í lokin gerði hver hópur grein fyrir meginatriðum. Allgóður samhljómur var í þeim hugmyndum sem fram komu og ljóst að þátttakendum var annt um garðinn. Nánar má lesa um fundinn á vef Reykjavíkurborgar, sjá hér.

Yfirlýsing og andlitslyfting hjá G.RUN

Sjávarútvegsfyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf í Grundarfirði hefur sett sér skýra gæðastefnu og einn af meginþáttum hennar er að engum aukefnum er bætt í vörur fyrirtækisins. Forsvarsmenn fyrirtækisins vildu koma skýrri yfirlýsingu um þetta til skila til viðskiptavina og fengu því Alta í lið með sér til að leggja á ráðin um hvernig það yrði best gert. Þróað var sérstakt merki sem fyrirtækið setur á vörur sínar ásamt upplýsingum um fyrirtækið og starfsemi þess, nýtt útlit var hannað og útbúinn nýr vefur þar sem upplýsingar um fyrirtækið koma fram á nokkrum tungumálum. Alta átti gott samstarf við H2 hönnun um útlitið og Islingua varðandi þýðingar. Öll dýrðin var síðan kynnt á sjómannadaginn, m.a. með áberandi auglýsingum í fjölmiðlum og mæltist vel fyrir.

Upp