Málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál

Málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál undir yfirskriftinni "Náum betri árangri" var haldin þann 6. október 2008 í Skriðu, sal Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Sjá nánar hér um málþingið og erindi sem þar voru flutt.

Fjallað var um með hvaða hætti árangur í skólastarfi er metinn, bæði faglegur sem rekstrarlegur, með innlendum mælikvörðum og í alþjóðlegum rannsóknum og hvernig hagnýta mætti niðurstöður. Markmið málstofunnar var að koma á samráðsvettvangi fræði- og fagmanna, sveitarstjórnarmanna sem ákvarða stefnumótun sveitarfélags og starfsmanna sveitarfélaga sem framfylgja henni. Málstofunni var ætlað að skapa virkan samræðugrundvöll þessara aðila þar sem ávinningurinn verður bein hagnýting niðurstaðna og upplýsinga inn í stefnumörkun sveitarfélaga í skólamálum, fjárfrekasta málaflokks hvers sveitarfélags. Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Alta var meðal fyrirlesara á málþinginu. Erindi sitt nefndi hún: Skólastefna sveitarfélaga – kvöð eða tækifæri til að auka árangur í starfsemi skóla? Í erindi sínu fjallaði Björg um ákvæði nýrra laga um leik- og grunnskóla sem eru hluti af nýrri menntastefnu, en í hinni nýju löggjöf er lögð aukin áhersla á stefnumótun hvers skólasamfélags og t.d. kveðið á um að hvert sveitarfélag skuli setja sér skólastefnu. Erindið byggði m.a. á niðurstöðum rannsóknar sem Björg vann í lokaritgerð í mastersnámi í verkefnastjórnun (MPM) frá verkfræðideild Háskóla Íslands vorið 2008, um einkenni á stefnumótun sveitarfélaga, þar sem skólastefnur voru teknar sem dæmi. Þar var m.a. skoðað hvaða hvati hafi búið að baki ákvörðunum um að móta skólastefnu hjá sveitarfélögum sem það höfðu gert, fyrir gildistöku núgildandi grunnskólalaga, en þá var ekki lagaskylda sveitarfélaga að setja skólastefnu. Nú þegar skólastefna er orðin lagaskylda verður forvitnilegt að sjá hvort sveitarfélög muni líta á setningu slíkrar stefnu sem kvöð eða tækifæri til að fjalla um ýmis mikilvæg atriði, t.d. nýjungar í löggjöfinni og hvort þau sjái færi á að nýta stefnumótunina til að auka þátttöku hagsmunaaðila, t.d. nemenda og foreldra í skólastarfinu. Hvorutveggja getur haft áhrif á árangur í skólastarfi. Hér er hægt að sjá erindi Bjargar Hér eru önnur erindi sem flutt voru á málþinginu Ávarp Jóns Torfa Jónassonar forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í upphafi málstofunnar. Hér er dagskrá og upplýsingar um fyrirlesarana. Hér er upptaka HÍ frá málþinginu, Skoða 6. október 2008: Náum betri árangri. II. málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál.

Samstarf um atvinnuþróun á nærsvæði Keflavíkurflugvallar

Þann 30. september 2008 undirrituðu Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og fulltrúar sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum, Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga, í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík, viljayfirlýsingu um samstarf um atvinnuþróun í nágrenni Keflavíkurflugvallar.

Samstarfið byggir á þeirri sérstöðu sem felst í nálægð alþjóðaflugvallarins, en umhverfis Keflavíkurflugvöll er eitt stærsta ónýtta landsvæði í nágrenni alþjóðaflugvallar í Evrópu og skilyrði til vaxtar og þróunar því einstök. Lykilatriði er að ríki og félög og stofnanir í þess eigu annars vegar og sveitarfélög hins vegar vinni saman að því að laða nýja fjárfesta að svæðinu. Reynsla erlendis frá sýnir að þannig geta alþjóðlegir flugvellir orðið mikilvægur aflvaki hagvaxtar. Í yfirlýsingunni kemur fram að stefnt skuli að gerð samstarfssáttmála þar sem þróunarsvæði verði skilgreint, afmörkuð verði sú atvinnustarfsemi sem laða eigi að svæðinu, ákveðið hvernig kostnaði og tekjum verður skipt og skipulagsmál samhæfð. Stefnt er að því að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. janúar 2009. Til að halda utan um samningaferli næstu mánaða hefur verið ráðinn verkefnisstjóri, Björg Ágústsdóttir lögfræðingur og ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta. Sjá hér texta viljayfirlýsingar og sérstaks yfirlits um meginatriði og forsendur.

Náttúruríkt umhverfi í þéttbýli - lykill að góðri lýðheilsu

Lýðheilsa hefur verið talsvert til umræðu hér á landi undanfarin misseri. Í grein sem Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur skrifaði nýlega og birtist stytt í Sveitarstjórnarmálum er fjallað um tengsl lýðheilsu og skipulags og horft sérstaklega til þess hvernig hægt er að beita skipulagi til að stuðla að góðri heilsu íbúa þéttbýlis með því að bæta aðgengi að náttúrunni í sínum ólíku myndum. Sjá greinina hér.

Foreldrar og nemendur í stjórnun og starfsemi skóla

Þann 11. september 2008 var haldinn fulltrúaráðsfundur samtakanna Heimili og skóli, sem eru landssamtök foreldra grunnskólabarna. Fulltrúar víðs vegar af landinu ásamt stjórnarmönnum sóttu fundinn, sem haldinn var í Álftamýrarskóla, í tengslum við Menntaþing menntamálaráðuneytisins sem haldið var daginn eftir í Háskólabíói. Í brennidepli var ný menntastefna, sem grundvallast á nýrri löggjöf um leik-, grunn- og framhaldsskóla, auk laga um menntun og ráðningu kennara.

Lesa meira...

Borgríkið Ísland

Það má setja landfræðilegar upplýsingar fram með margvíslegum hætti og stundum geta óvenjuleg sjónarhorn verið áhugaverð. Á myndinni hér fyrir neðan hafa öll sveitarfélögin á Íslandi verið teygð og toguð þangað til flatarmál þeirra er í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Þau fjölmennustu eru merkt á kortið til glöggvunar. Stuðst er við áætlun Hagstofunnar um fjölda íbúa sveitarfélaga þann 1. apríl 2008 en samkvæmt henni var mannfjöldi á landinu öllu 316.252. Þar sem landið er 103.000 ferkílómetrar koma 326 þúsund fermetrar í hlut hvers landsmanns. Það jafngildir ferhyrndum reit sem er 570 metrar á kant. Sjá hér PDF skjal með sömu mynd.

Sveitarfélög á Íslandi

Upp