Samráðsfundur um Miklatún

Reykjavíkurborg hefur áhuga á því að efla Miklatún sem sælureit í borginni. Til þess að fá góðar hugmyndir og ábendingar um það hvernig svo gæti orðið var boðað til samráðsfundar með borgarbúum þann 6. maí s.l. á Kjarvalsstöðum. Þátttaka var mjög góð því milli 80 og 90 áhugasamir borgarar ræddu hugmyndir sínar í litlum hópum og í lokin gerði hver hópur grein fyrir meginatriðum. Allgóður samhljómur var í þeim hugmyndum sem fram komu og ljóst að þátttakendum var annt um garðinn. Nánar má lesa um fundinn á vef Reykjavíkurborgar, sjá hér.

Yfirlýsing og andlitslyfting hjá G.RUN

Sjávarútvegsfyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf í Grundarfirði hefur sett sér skýra gæðastefnu og einn af meginþáttum hennar er að engum aukefnum er bætt í vörur fyrirtækisins. Forsvarsmenn fyrirtækisins vildu koma skýrri yfirlýsingu um þetta til skila til viðskiptavina og fengu því Alta í lið með sér til að leggja á ráðin um hvernig það yrði best gert. Þróað var sérstakt merki sem fyrirtækið setur á vörur sínar ásamt upplýsingum um fyrirtækið og starfsemi þess, nýtt útlit var hannað og útbúinn nýr vefur þar sem upplýsingar um fyrirtækið koma fram á nokkrum tungumálum. Alta átti gott samstarf við H2 hönnun um útlitið og Islingua varðandi þýðingar. Öll dýrðin var síðan kynnt á sjómannadaginn, m.a. með áberandi auglýsingum í fjölmiðlum og mæltist vel fyrir.

Umhverfisvænir fjarfundir spara mikið fé og tíma

Við hjá Alta reynum að tileinka okkur einfaldar, handhægar og umhverfisvænar leiðir til að funda, halda námskeið eða fara á ráðstefnur. Þessu hafa viðskiptavinir okkar tekið eftir og við höfum miðlað þeim af reynslu okkar enda getur verið um gríðarlegan sparnað að ræða, ekki síst fyrir sveitarfélög og fyrirtæki á landsbyggðinni. Sem dæmi má nefna að Alta hélt á dögunum námskeið um umhverfismál fyrir innkaupafólk Fljótsdalshéraðs í gegnum fjarfundatækni og tveir starfsmenn Alta, annar í Reykjavík og hinn í Boston "fóru" á ráðstefnu sem haldin var í Ohio með því að horfa á og taka þátt í umræðum á netinu. Allt sparar þetta tíma, fé, fyrirhöfn og losun á koltvísýringi. Við erum vön því að halda fundi vegna verkefna sem við erum að vinna þar sem fundarmenn eru dreifðir um landið og jafnvel heiminn. Engan sérstakan búnað þarf annan en venjulega tölvu og gott netsamband.

Skipulag sem stefna og stjórntæki

Skipulag sem stefna og stjórntæki - framtíðarsýn með þátttöku íbúa er heiti fyrirlestrar sem Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta hélt fyrir nemendur Umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands 6. maí. Landbúnaðarháskólinn og Alta hafa gert með sér samstarfssamning þar sem starfsfólk Alta tekur að sér að halda fyrirlestur um stefnumörkun og samráð fyrir nemendur í Landbúnaðarháskólanum. Skipulagsmál hafa víðtækari áhrif á umhverfi okkar en við gerum okkur oft grein fyrir. Hvernig að þeim er staðið hefur áhrif á rýmismyndun, samfélagsgerð, verðmæti lands, nýtingu auðlinda og lýðheilsu. Viðfangsefnið er að skapa áhugaverð, fjölbreytt og eftirminnileg svæði fyrir alla aldurshópa og tækifæri fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.

Lesa meira...

Samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga um skipulagsmál

Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur og Sigmar Metúsalemsson landfræðingur hjá Alta kynntu vinnu við aðalskipulag Norðurþings á árlegum samráðsfundi Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga um skipulagsmál sem haldinn var í Keflavík 7. og 8. maí sl. Í aðalskipulagsvinnunni hefur verið lögð áhersla á greiningu náttúru, minja og landslags í dreifbýli sem grunn að stefnumörkun. Marmiðið er heilbrigð vistkerfi, sjálfbær auðlindanýting og fjölbreytt búsetulandslag. Einnig hefur verið lögð áhersla á að móta fallega bæjarmynd í miðbæ Húsavíkur með setningu skýrrar stefnu og skipulagsramma fyrir það svæði. Nánari upplýsingar um aðalskipulagsvinnuna í Norðurþingi er að finna á vef sveitarfélagsins, www.nordurthing.is. Glærur frá kynningunni má sjá hér.

Upp