Koma umhverfismál við sögu á hverjum degi?

Námskeið um umhverfismál hjá öllum starfsmönnum ISAL standa nú yfir. Námskeiðin heldur Alta og fjalla þau um umhverfismál í daglegu lífi, krydduð dæmum. Áhersla er á umhverfismál almennt, orðræðuna hér á landi, t.d. kolefnisjöfnun, umhverfismerkingar, hvað er umhverfisvænt, umhverfisvottun, sparnaðarráð og muninn á viðhorfum og aðgerðum. ISAL hefur lengi verið í fremstu röð hvað varðar skipulegt umhverfis- og öryggisstarf í starfsemi fyrirtækisins. Markmið námskeiðsins er að auka skilning á umhverfismálum í daglegu lífi starfsmanna og þeim tækifærum sem skapast vegna breytinga í umhverfi okkar. Fjörlegar umræður hafa verið enda koma umhverfismál við sögu á hverjum degi...

Matsskýrsla vegamóta við Leirvogstungu/Tungumela

Fyrir liggur matsskýrsla fyrir framkvæmd mislægra vegamóta á Vesturlandsvegi við Leirvogstungu/Tungumela. Matsskýrslan byggir á fyrirliggjandi frummatsskýrslu og þeim umsögnum og athugasemdum sem fram hafa komið við hana. Alta verkstýrði og vann mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samvinnu við Fjölhönnun, fyrir framkvæmdaraðila sem eru Leirvogstunga ehf og Ístak hf., sem gert hafa samning við Vegagerðina um að sjá um þessa framkvæmd. Framkvæmdin felur í sér byggingu hringtorgs á brúm yfir Hringveginn, sem er stofnbraut og breytingu á honum. Markmið framkvæmdarinnar er að auka öryggi vegfarenda á vegamótunum og að tryggja að vegamótin afkasti þeirri umferð sem væntanleg er frá hinum nýbyggðu hverfum beggja vegna Hringvegar. Talið er að jákvæð áhrif framkvæmdarinnar verði umtalsverð, í formi bætts umferðaröryggis á Hringvegi við vegamót við íbúðabyggð í Leirvogstungu og athafnasvæði á Tungumelum. Jafnframt munu umferðarafköst mislægra vegamóta aukast til muna sé miðað við núverandi vegamót í plani. Það er mat framkvæmdaraðila að fyrirhuguð framkvæmd hafi í för með sér talsverð jákvæð áhrif á umferðaröryggi og hljóðvist i Leirvogstungu og Tungumelum en að neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði óveruleg.

Deiliskipulag fyrsta áfanga Urriðaholtsstrætis tekur gildi

Deiliskipulag fyrsta áfanga Urriðaholtsstrætis, Jónasartorg, í Garðabæ hefur tekið gildi. Framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar eru í undirbúningi á deiliskipulagssvæðinu og verða þær fyrsta byggingin sem mun rísa við þetta viðskiptastræti Urriðaholts. Deiliskipulagssvæðið er 6 ha að stærð og er gert ráð fyrir byggingum beggja vegna strætisins fyrir skrifstofur ásamt tengdri þjónustu fyrir rekstraraðila og verðandi íbúa í Urriðaholti. Aðkoma að svæðinu er frá Reykjanesbraut og síðar er gert ráð fyrir tengingu til austurs við Elliðavatnsveg. Tillagan er í samræmi við rammaskipulag Urriðaholts. Urriðaholtsstræti er tengibraut og framkvæmdin því tilkynningarskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda nr. 106/2000. Deiliskipulagið fellur þar af leiðandi einnig undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Greinargerð deiliskipulagsins ásamt umhverfisskýrslu með umhverfismati þess og tilkynningu um framkvæmd tengibrautar Urriðaholtsstrætis var unnin af Alta.

Málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál

Málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál undir yfirskriftinni "Náum betri árangri" var haldin þann 6. október 2008 í Skriðu, sal Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Sjá nánar hér um málþingið og erindi sem þar voru flutt.

Fjallað var um með hvaða hætti árangur í skólastarfi er metinn, bæði faglegur sem rekstrarlegur, með innlendum mælikvörðum og í alþjóðlegum rannsóknum og hvernig hagnýta mætti niðurstöður. Markmið málstofunnar var að koma á samráðsvettvangi fræði- og fagmanna, sveitarstjórnarmanna sem ákvarða stefnumótun sveitarfélags og starfsmanna sveitarfélaga sem framfylgja henni. Málstofunni var ætlað að skapa virkan samræðugrundvöll þessara aðila þar sem ávinningurinn verður bein hagnýting niðurstaðna og upplýsinga inn í stefnumörkun sveitarfélaga í skólamálum, fjárfrekasta málaflokks hvers sveitarfélags. Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Alta var meðal fyrirlesara á málþinginu. Erindi sitt nefndi hún: Skólastefna sveitarfélaga – kvöð eða tækifæri til að auka árangur í starfsemi skóla? Í erindi sínu fjallaði Björg um ákvæði nýrra laga um leik- og grunnskóla sem eru hluti af nýrri menntastefnu, en í hinni nýju löggjöf er lögð aukin áhersla á stefnumótun hvers skólasamfélags og t.d. kveðið á um að hvert sveitarfélag skuli setja sér skólastefnu. Erindið byggði m.a. á niðurstöðum rannsóknar sem Björg vann í lokaritgerð í mastersnámi í verkefnastjórnun (MPM) frá verkfræðideild Háskóla Íslands vorið 2008, um einkenni á stefnumótun sveitarfélaga, þar sem skólastefnur voru teknar sem dæmi. Þar var m.a. skoðað hvaða hvati hafi búið að baki ákvörðunum um að móta skólastefnu hjá sveitarfélögum sem það höfðu gert, fyrir gildistöku núgildandi grunnskólalaga, en þá var ekki lagaskylda sveitarfélaga að setja skólastefnu. Nú þegar skólastefna er orðin lagaskylda verður forvitnilegt að sjá hvort sveitarfélög muni líta á setningu slíkrar stefnu sem kvöð eða tækifæri til að fjalla um ýmis mikilvæg atriði, t.d. nýjungar í löggjöfinni og hvort þau sjái færi á að nýta stefnumótunina til að auka þátttöku hagsmunaaðila, t.d. nemenda og foreldra í skólastarfinu. Hvorutveggja getur haft áhrif á árangur í skólastarfi. Hér er hægt að sjá erindi Bjargar Hér eru önnur erindi sem flutt voru á málþinginu Ávarp Jóns Torfa Jónassonar forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í upphafi málstofunnar. Hér er dagskrá og upplýsingar um fyrirlesarana. Hér er upptaka HÍ frá málþinginu, Skoða 6. október 2008: Náum betri árangri. II. málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál.

Samstarf um atvinnuþróun á nærsvæði Keflavíkurflugvallar

Þann 30. september 2008 undirrituðu Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og fulltrúar sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum, Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga, í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík, viljayfirlýsingu um samstarf um atvinnuþróun í nágrenni Keflavíkurflugvallar.

Samstarfið byggir á þeirri sérstöðu sem felst í nálægð alþjóðaflugvallarins, en umhverfis Keflavíkurflugvöll er eitt stærsta ónýtta landsvæði í nágrenni alþjóðaflugvallar í Evrópu og skilyrði til vaxtar og þróunar því einstök. Lykilatriði er að ríki og félög og stofnanir í þess eigu annars vegar og sveitarfélög hins vegar vinni saman að því að laða nýja fjárfesta að svæðinu. Reynsla erlendis frá sýnir að þannig geta alþjóðlegir flugvellir orðið mikilvægur aflvaki hagvaxtar. Í yfirlýsingunni kemur fram að stefnt skuli að gerð samstarfssáttmála þar sem þróunarsvæði verði skilgreint, afmörkuð verði sú atvinnustarfsemi sem laða eigi að svæðinu, ákveðið hvernig kostnaði og tekjum verður skipt og skipulagsmál samhæfð. Stefnt er að því að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. janúar 2009. Til að halda utan um samningaferli næstu mánaða hefur verið ráðinn verkefnisstjóri, Björg Ágústsdóttir lögfræðingur og ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta. Sjá hér texta viljayfirlýsingar og sérstaks yfirlits um meginatriði og forsendur.

Upp