Hvar eru teknar myndir?

Í tenglsum við vinnu Alta við svæðisgarð á Snæfellsnesi vaknaði sú spurning hvar teknar væru myndir. Með því að fá yfirsýn yfir þá staði kemur fram hvaða staðir eru í senn aðgengilegir og sjónrænt áhugaverðir. Með netvæðingunni verður sífellt meira af gögnum sýnilegt og fleiri leiðir færar til að gera þau sýnileg. Þannig fékkst svar við spurningunni með því að finna hvar notendur ljósmyndavefjarins Flickr hafa tekið hnitsettar myndir og teikna niðurstöðuna á kort. Alls fundust um 4500 myndir og dreifing þeirra sést vel á kortinu. Sjá nánar hér: www.svaedisgardur.is/flickr.

Alta - Snæfellsnes: Kristín Rós ráðin

Björg Ágústsdóttir og Kristín Rós JóhannesdóttirKristín Rós Jóhannesdóttir hagfræðingur hefur verið ráðin til ráðgjafarfyrirtækisins Alta.
Kristín Rós er ein af þremur nýjum starfsmönnum sem ráðnir eru til Alta og hefja störf nú í byrjun árs 2013. Hún býr í Stykkishólmi og mun starfa á Snæfellsnesi, í útibúi Alta í Grundarfirði.

Kristín Rós er uppalin að Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem foreldrar hennar eru bændur.
Hún lauk BSc-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 2008 og í lokaritgerð sinni þar skoðaði Kristín Rós áhrif kynbóta á afkomu íslenskra kúabúa. Haustin 2007 og 2009 var Kristín aðstoðarkennari í hagfræðikúrsum við HÍ. Hún starfaði sem hagfræðingur á fjármálasviði Seðlabanka Íslands 2008-2010, með viðkomu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis 2009-2010. Þá fór hún til Bretlands og lauk MSc-prófi í hagfræði frá University of Warwick vorið 2012. Í lokaritgerð sinni fjallaði Kristín Rós um húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu.
Kristín Rós hefur starfað hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands síðan hún lauk námi. Samhliða störfum hjá Alta verður Kristín áfram í verkefnum hjá Hagfræðistofnun fram í maí nk., en kemur þá alfarið til starfa hjá Alta.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur frá árinu 2001 aðstoðað bæði opinbera aðila og einkaaðila við stefnumótun og breytingastjórnun, verkefnisstjórnun, samráð og upplýsingamiðlun, einkum á sviði skipulags og byggðaþróunar, umhverfismála, samfélagsábyrgðar og fleira. Alta hefur frá 2004 haft starfsemi á Snæfellsnesi og sinnt þaðan verkefnum um allt land auk ráðgjafar á Vesturlandi. Sjá nánar á á þessum vef.
Hjá Alta starfa nú 11 manns og með ráðningu Kristínar Rósar verður hægt að bjóða enn öflugri og fjölbreyttari þjónustu.

Við hjá Alta bjóðum Kristínu Rós velkomna til starfa og hlökkum til að fá hana til liðs við okkur.

Skriður á mótun svæðisgarðs Snæfellinga

Vinna við svæðisskipulag, sem myndar kjarnann í svæðisgarði Snæfellinga, þess fyrsta á Íslandi, er vel á veg komin. Næstu vikur er áformað að kynna svæðisgarðinn enn betur og ræða við fjölmarga aðila sem tengjast viðfangsefninu með einum eða öðrum hætti. Mikilvæg tengsl hafa myndast við forsvarsmenn erlendra svæðisgarða, ekki síst í Noregi. Nýlega var Snæfellingum boðið annað árið í röð að taka þátt í aðalfundi samtakanna Norske parker og var Ragnhildur Sigurðardóttir þeirra fulltrúi. Ragnhildur er varaformaður svæðisskipulagsnefndar en Alta verkstýrir svæðisskipulagsgerðinni og leggur nefndinni til ýmsa sérfræðiþekkingu.  

Sjá hér umfjöllun um fundinn á vef Norske parker og erindi sem Ragnhildur flutti á fundinum má sjá hér.

Alta leitar að góðu fólki

Alta vill bæta við sig fólki til starfa í Reykjavík og Grundarfirði.

Sjá hér auglýsingu.

Samningur um svæðisgarð á Snæfellsnesi

Þann 7. mars var skrifað undir samstarfssamning sem leggur drög að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn er eign allra Snæfellinga, en þeir aðilar sem hafa tekið að sér að leiða verkefnið og undirbúning eru sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi; Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit, og félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu; Ferðamálasamtök Snæfellsness, Snæfell - félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Búnaðarfélag Staðarsveitar, Búnaðarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps og Búnaðarfélag Eyrarsveitar, ásamt SDS, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu. Áhugasamir aðilar um velferð Snæfellsness eru velkomnir í hópinn.

Svæðisgarður er samstarfsvettvangur þar sem byggt er á sérstöðu svæðis og hún nýtt á markvissan hátt til verðmætasköpunar. Svæðisgarður verður einungis til fyrir samstillt átak heimamanna og starf hans er á forsendum þeirra, með hagsmuni íbúa í nútíð og framtíð að leiðarljósi. Markmiðið er að íbúarnir greini og þekki betur þau tækifæri sem felast í nærtækum gæðum svæðisins og stilli saman strengi um nýtingu þeirra. Þá verður einnig auðveldara að miðla tækifærunum til íbúa, viðskiptavina og gesta.

Alta annast verkefnisstjórn og ýmsa ráðgjöf varðandi mótun svæðisgarðsins. Sjá nánar á http://svaedisgardur.is.

 

Hér er stutt myndband sem lýsir þessum skemmtilega áfanga.

 

Upp