Lokaúttekt á jarðvarmaverkefni í Níkaragúa

Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta og Stefán Arnórsson prófessor, hafa unnið lokaúttekt þar sem metinn var árangur samvinnuverkefnis Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og stjórnvalda í Níkaragúa, við uppbyggingu þekkingar hjá stjórnvöldum á sviði jarðhita, frá 2007 - 2012. Það var afar ánægjulegt að kynnast því góða starfi sem Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið að með stjórnvöldum í Níkaragúa og fá tækifæri til að sjá þann árangur sem þegar hefur náðst, en helstu niðurstöður lokaúttektarinnar eru þær að árangur þessa starfs hafi verið mjög góður. Úttektina má finna á vef Þróunarsamvinnustofnunar á ensku og spænsku.

Nýjar loftmyndir: Grundarfjörður og Sjáland

Með hækkandi sól eru farnar að bætast myndir í loftmyndasafn Alta. Nú síðast bættust við myndir af Sjálandi í Garðabæ og af Grundafjarðarbæ.

Nú eru í safninu alls rúmlega 2500 myndir. Hér má sjá yfirlit: www.alta.is/loftmyndir.

Alta með ArcGIS Online vefsjárkerfi

Vefsjá

Alta hefur tekið í notkun öflugt kerfi til að búa til vefsjár og miðla landfræðilegum gögnum yfir netið. Kerfið nefnist ArcGIS Online og er frá ESRI, leiðandi framleiðanda hugbúnaðar fyrir landupplýsingar. Með kerfinu, ásamt auknu framboði margvíslegra landupplýsinga og loftmynda, getur Alta boðið viðskiptavinum sínum hýsingu og miðlun landupplýsinga með öflugustu tólum sem völ er á.

Kerfið sem hér um ræðir er "í skýinu" og útheimtir því ekki rekstur hug- eða vélbúnaðar innan Alta heldur reiðir sig á grunnkerfi ESRI. Búast má við örri þróun þessa kerfis í framtíðinni
og að sífellt bætist við nýir áhugaverðir eiginleikar.

Hér má sjá dæmi um vefsjár sem Alta hefur útbúið í þessu kerfi:

Prestaköll, kirkjur og bænhús á Íslandi: http://alta.is/maps/prestakoll/

Þemakort fyrir svæðisgarð Snæfellinga: http://snaefellsnes.is/atlas

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir ráðin til starfa

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir hefur komið til liðs við okkur hjá Alta en hún hefur fengist við fjölbreytt verkefni á sviði skipulags, samgangna og umhverfismála. Hún er landfræðingur og bætti nýlega við sig M.Sc. gráðu í skipulagsfræði og samgöngum. Í meistaraverkefni sínu fjallaði hún um samspil skipulags og samgangna í þéttbýli og hvernig breytingar á samgöngukerfum geta haft áhrif langt út fyrir þau áhrif sem framkvæmdinni er ætlað að hafa t.a.m. á það í hvernig samfélagi við búum og hvernig við ferðumst á milli staða. Verkefni hennar “Glímt við þjóðveginn - áhrif hjáleiðar um Selfoss” má finna hér.  Þar er skoðað hvaða áhrif væntanleg hjáleið um Selfoss hefur haft á skipulag svæðisins og hvaða áhrif hjáleiðin er líkleg til að hafa. Hrafnhildur hefur áhuga á samspili samgangna og landnotkunar og hvernig skipulag hefur áhrif á ferðamáta fólks, umhverfi okkar og líf í hverfum og bæjum.

Hrafnhildur hefur starfað sem ráðgjafi síðustu 15 árin og komið að fjölbreyttum verkefnum á sviði kortagerðar og greininga í landupplýsingakerfum (GIS) og í skipulagsmálum m.a. svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur einnig unnið að skipulagi og rekstri á opnum svæðum í þéttbýli, mati á umhverfisáhrifum fyrir framkvæmdir og umhverfismati áætlana.

Með Hrafnhildi í hópnum getum við boðið enn öflugri og fjölbreyttari þjónustu á sviði skipulags- og umhverfismála. Við bjóðum hana velkomna í hópinn.

Hvar eru teknar myndir?

Í tenglsum við vinnu Alta við svæðisgarð á Snæfellsnesi vaknaði sú spurning hvar teknar væru myndir. Með því að fá yfirsýn yfir þá staði kemur fram hvaða staðir eru í senn aðgengilegir og sjónrænt áhugaverðir. Með netvæðingunni verður sífellt meira af gögnum sýnilegt og fleiri leiðir færar til að gera þau sýnileg. Þannig fékkst svar við spurningunni með því að finna hvar notendur ljósmyndavefjarins Flickr hafa tekið hnitsettar myndir og teikna niðurstöðuna á kort. Alls fundust um 4500 myndir og dreifing þeirra sést vel á kortinu. Sjá nánar hér: www.snaefellsnes.is/flickr.

Upp