Alta með ArcGIS Online vefsjárkerfi

Vefsjá

Alta hefur tekið í notkun öflugt kerfi til að búa til vefsjár og miðla landfræðilegum gögnum yfir netið. Kerfið nefnist ArcGIS Online og er frá ESRI, leiðandi framleiðanda hugbúnaðar fyrir landupplýsingar. Með kerfinu, ásamt auknu framboði margvíslegra landupplýsinga og loftmynda, getur Alta boðið viðskiptavinum sínum hýsingu og miðlun landupplýsinga með öflugustu tólum sem völ er á.

Kerfið sem hér um ræðir er "í skýinu" og útheimtir því ekki rekstur hug- eða vélbúnaðar innan Alta heldur reiðir sig á grunnkerfi ESRI. Búast má við örri þróun þessa kerfis í framtíðinni
og að sífellt bætist við nýir áhugaverðir eiginleikar.

Hér má sjá dæmi um vefsjár sem Alta hefur útbúið í þessu kerfi:

Prestaköll, kirkjur og bænhús á Íslandi: http://alta.is/maps/prestakoll/

Þemakort fyrir svæðisgarð Snæfellinga: http://snaefellsnes.is/atlas

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir ráðin til starfa

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir hefur komið til liðs við okkur hjá Alta en hún hefur fengist við fjölbreytt verkefni á sviði skipulags, samgangna og umhverfismála. Hún er landfræðingur og bætti nýlega við sig M.Sc. gráðu í skipulagsfræði og samgöngum. Í meistaraverkefni sínu fjallaði hún um samspil skipulags og samgangna í þéttbýli og hvernig breytingar á samgöngukerfum geta haft áhrif langt út fyrir þau áhrif sem framkvæmdinni er ætlað að hafa t.a.m. á það í hvernig samfélagi við búum og hvernig við ferðumst á milli staða. Verkefni hennar “Glímt við þjóðveginn - áhrif hjáleiðar um Selfoss” má finna hér.  Þar er skoðað hvaða áhrif væntanleg hjáleið um Selfoss hefur haft á skipulag svæðisins og hvaða áhrif hjáleiðin er líkleg til að hafa. Hrafnhildur hefur áhuga á samspili samgangna og landnotkunar og hvernig skipulag hefur áhrif á ferðamáta fólks, umhverfi okkar og líf í hverfum og bæjum.

Hrafnhildur hefur starfað sem ráðgjafi síðustu 15 árin og komið að fjölbreyttum verkefnum á sviði kortagerðar og greininga í landupplýsingakerfum (GIS) og í skipulagsmálum m.a. svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur einnig unnið að skipulagi og rekstri á opnum svæðum í þéttbýli, mati á umhverfisáhrifum fyrir framkvæmdir og umhverfismati áætlana.

Með Hrafnhildi í hópnum getum við boðið enn öflugri og fjölbreyttari þjónustu á sviði skipulags- og umhverfismála. Við bjóðum hana velkomna í hópinn.

Hvar eru teknar myndir?

Í tenglsum við vinnu Alta við svæðisgarð á Snæfellsnesi vaknaði sú spurning hvar teknar væru myndir. Með því að fá yfirsýn yfir þá staði kemur fram hvaða staðir eru í senn aðgengilegir og sjónrænt áhugaverðir. Með netvæðingunni verður sífellt meira af gögnum sýnilegt og fleiri leiðir færar til að gera þau sýnileg. Þannig fékkst svar við spurningunni með því að finna hvar notendur ljósmyndavefjarins Flickr hafa tekið hnitsettar myndir og teikna niðurstöðuna á kort. Alls fundust um 4500 myndir og dreifing þeirra sést vel á kortinu. Sjá nánar hér: www.snaefellsnes.is/flickr.

Alta - Snæfellsnes: Kristín Rós ráðin

Björg Ágústsdóttir og Kristín Rós JóhannesdóttirKristín Rós Jóhannesdóttir hagfræðingur hefur verið ráðin til ráðgjafarfyrirtækisins Alta.
Kristín Rós er ein af þremur nýjum starfsmönnum sem ráðnir eru til Alta og hefja störf nú í byrjun árs 2013. Hún býr í Stykkishólmi og mun starfa á Snæfellsnesi, í útibúi Alta í Grundarfirði.

Kristín Rós er uppalin að Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem foreldrar hennar eru bændur.
Hún lauk BSc-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 2008 og í lokaritgerð sinni þar skoðaði Kristín Rós áhrif kynbóta á afkomu íslenskra kúabúa. Haustin 2007 og 2009 var Kristín aðstoðarkennari í hagfræðikúrsum við HÍ. Hún starfaði sem hagfræðingur á fjármálasviði Seðlabanka Íslands 2008-2010, með viðkomu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis 2009-2010. Þá fór hún til Bretlands og lauk MSc-prófi í hagfræði frá University of Warwick vorið 2012. Í lokaritgerð sinni fjallaði Kristín Rós um húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu.
Kristín Rós hefur starfað hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands síðan hún lauk námi. Samhliða störfum hjá Alta verður Kristín áfram í verkefnum hjá Hagfræðistofnun fram í maí nk., en kemur þá alfarið til starfa hjá Alta.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur frá árinu 2001 aðstoðað bæði opinbera aðila og einkaaðila við stefnumótun og breytingastjórnun, verkefnisstjórnun, samráð og upplýsingamiðlun, einkum á sviði skipulags og byggðaþróunar, umhverfismála, samfélagsábyrgðar og fleira. Alta hefur frá 2004 haft starfsemi á Snæfellsnesi og sinnt þaðan verkefnum um allt land auk ráðgjafar á Vesturlandi. Sjá nánar á á þessum vef.
Hjá Alta starfa nú 11 manns og með ráðningu Kristínar Rósar verður hægt að bjóða enn öflugri og fjölbreyttari þjónustu.

Við hjá Alta bjóðum Kristínu Rós velkomna til starfa og hlökkum til að fá hana til liðs við okkur.

Skriður á mótun svæðisgarðs Snæfellinga

Vinna við svæðisskipulag, sem myndar kjarnann í svæðisgarði Snæfellinga, þess fyrsta á Íslandi, er vel á veg komin. Næstu vikur er áformað að kynna svæðisgarðinn enn betur og ræða við fjölmarga aðila sem tengjast viðfangsefninu með einum eða öðrum hætti. Mikilvæg tengsl hafa myndast við forsvarsmenn erlendra svæðisgarða, ekki síst í Noregi. Nýlega var Snæfellingum boðið annað árið í röð að taka þátt í aðalfundi samtakanna Norske parker og var Ragnhildur Sigurðardóttir þeirra fulltrúi. Ragnhildur er varaformaður svæðisskipulagsnefndar en Alta verkstýrir svæðisskipulagsgerðinni og leggur nefndinni til ýmsa sérfræðiþekkingu.  

Sjá hér umfjöllun um fundinn á vef Norske parker og erindi sem Ragnhildur flutti á fundinum má sjá hér.
Upp