Landmótun í kringum Félagsgarð í Kjós hafin

Félagsgarður í Kjós, sem tekinn var í notkun árið 1946, stendur á lóð Ungmennafélagsins Drengs sem einnig stóð að uppbyggingu hans.

Félagsheimilið hefur verið vinsælt samkomuhús, t.d. til brúðkaupa, afmæla og annarra atburða enda vel í sveit sett og státar af fallegu útsýni yfir Hvalfjörðinn. Kjósarhreppur fékk Alta til liðs við sig til að bæta aðkomu og umgjörð félagsheimilisins til að mæta hlutverki þess betur.

Tillaga Alta miðaði að því að draga fram glæsileika hússins og umgjörð þess en jafnframt að halda í karakter þess sem félagsheimilis í sveit. Þá var leitast við að endurnýta það efni sem hægt var, svo sem hellur og gróður og að skapa betri tengingar milli hæða á byggingunni. Loks var lagt til að tengja hönnunina við fólkið í sveitinni og fá unga íbúa til teikna mynd af uppáhalds dýri sínu til að greypa í hellulögn við inngang byggingarinnar.

Framkvæmdir eru óðum að hefjast og verður gaman að fylgjast með breytingunum.

Hugmyndaleit um Þingvelli lokið

Alls bárust 102 tillögur í hugmyndaleit Þingvallanefndar, sem lauk með málþingi og hugmyndasmiðju laugardaginn 22. október s.l. í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hugmyndirnar voru allar til sýnis í Tjarnarsal ráðhússins en sýningin heldur áfram á vefnum og hana má opna með því að smella hér. Óskað var eftir hugmyndum almennings um hvernig taka megi á móti þeim þúsundum Íslendinga og erlendra gesta sem á ári hverju vilja upplifa sérstöðu Þingvalla, án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins.  Tillögurnar sem bárust eru mjög fjölbreyttar að innihaldi og framsetningu og komu frá fólki úr ólíkum áttum. Dómnefnd veitti höfundum fimm tillagna viðurkenningu. Alta aðstoðaði Þingvallanefnd og starfsfólk þjóðgarðsins við undirbúning og framkvæmd hugmyndaleitarinnar og hugmyndasmiðjunnar í lokin.

Myndin er frá sýningu á hugmyndunum í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Hugmyndaleit um Þingvelli

Þingvallanefnd hefur opnað hugmyndaleit um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þar er leitað eftir hugmyndum landsmanna um hvernig taka megi á móti þeim þúsundum Íslendinga og erlendra gesta sem á ári hverju vilja upplifa sérstöðu Þingvalla án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins. Allir geta tekið þátt í hugmyndaleitinni sem stendur til 22. ágúst 2011 og verða veittar allt að fimm 200 þúsund króna viðurkenningar fyrir hugmyndir sem dómnefnd telur áhugaverðastar.

Meginspurning hugmyndaleitarinnar er þessi: Hvernig má bjóða gestum að upplifa og njóta sérstöðu Þingvalla með virðingu fyrir náttúru og sögu og í góðri sátt við komandi kynslóðir?

Með því að smella hér fást allar upplýsingar um hugmyndaleitina og hvernig taka má þátt.

Til að örva þátttöku og laða fram áhugaverðar og vel unnar hugmyndir mun dómnefnd veita viðurkenningu allt að 5 hugmyndum sem endurspegla hugmyndaauðgi þátttakenda. Viðurkenningu fylgir peningaupphæð, kr. 200.000 krónur. Við val sitt mun dómnefnd leita eftir hugmyndum með eftirfarandi eiginleika:

  • Þær veiti trúverðugt svar við meginspurningu hugmyndaleitarinnar. Það feli því í sér tillögu um upplifun gesta í tengslum við sérstöðu Þingvalla.
  • Hugmyndir séu í öllum meginatriðum í samræmi við stefnumörkun þjóðgarðsins á Þingvöllum 2004-2024.
  • Framsetning sé greinargóð og lýsi vel inntaki hugmyndarinnar.

Í dómnefnd sitja: Ragna Árnadóttir formaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og formaður íslensku heimsminjanefndarinnar.

Alta hefur aðstoðað Þingvallanefnd við undirbúning og framkvæmd hugmyndaleitarinnar.

Vefur með þemakortum af Íslandi

Nýlega opnaði nýr vefur sem Alta sér um og sýnir fjölbreytileg þemakort af Íslandi. Þar má sjá hvar margvíslega áhugaverða staði er að finna, allt frá sundlaugum yfir í eldfjöll. Stærð landsins og dreifing íbúanna, kaupstaðir og bæir, golfvellir og flugvellir - allt er þetta sýnt á vefnum ásamt mörgu fleira. Efnið er sett fram á ensku með þarfir þeirra ferðamanna í huga sem skipuleggja sjálfir ferð sína um landið í fólksbíl og vilja vita hvar áhugavert væri að staldra við. Auðvelt er að kalla fram vélræna þýðingu yfir á fjölmörg tungumál.

Alta byggir vefinn á þekkingu sinni á landafræði Íslands og á söfnun og miðlun landfræðilegra gagna. Vefurinn hefur slóðina www.icelandinmaps.com

Fjölmenni á opnum degi NÍ í Urriðaholti

Opinn dagur hjá Náttúrfræðistofnun Íslands í Urriðaholti tókst frábærlega vel en þá þekktust fimm til sexþúsund manns boð um að koma og kynna sér starfsemi stofnunarinnar. Þarna gafst ungum sem öldnum kostur á að fræðast um störf náttúruvísindamanna og sjá aðstöðu þeirra í nýja húsinu í Urriðaholti. Þarna mátti kynnast skordýrafræði, jarðfræði, steingervingafræði, frjómælingum, grasafræði, flokkunarfræði, fuglafræði og vistfræði.

Þarna gafst líka skemmtilegt tækifæri til að kynna skipulagið í Urriðaholti og samhengi Náttúrufræðistofnunar þar, en bygging stofnunarinnar er fyrsta skriftstofubyggingin sem rís á þeim grunni. Halldóra Hreggviðsdóttir frá Alta kynnti skipulagið fyrir fjölda áhugasamra gesta en Alta verkstýrði skipulaginu og vann við rammaskipulagið með öðrum ráðgjöfum. Þegar hverfið verður fullbyggt munu 8 til 10 þúsund manns búa þar og starfa. Skipulagið og nálgun þess að áhugaverðri blandaðri byggð hefur vakið talsverða athygli og meðal annars fengið þrjár alþjóðlegar viðurkenningar fyrir uppbyggingu og áherslur. Leiðarljósin þar eru fjölbreyttni, sterkur staðarandi, vistvænar áherslur, heilbrigði og vellíðan íbúa. Þarna er hugsað fyrir nauðsynlegri samþættingu mannlífs, náttúru og menningar við uppbyggingu samfélags, sem byggist upp á löngum tíma.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá opna deginum og myndband sem Ólafur Hauksson tók er hér.

Upp