Hugmyndaleit um Þingvelli

Þingvallanefnd hefur opnað hugmyndaleit um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þar er leitað eftir hugmyndum landsmanna um hvernig taka megi á móti þeim þúsundum Íslendinga og erlendra gesta sem á ári hverju vilja upplifa sérstöðu Þingvalla án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins. Allir geta tekið þátt í hugmyndaleitinni sem stendur til 22. ágúst 2011 og verða veittar allt að fimm 200 þúsund króna viðurkenningar fyrir hugmyndir sem dómnefnd telur áhugaverðastar.

Meginspurning hugmyndaleitarinnar er þessi: Hvernig má bjóða gestum að upplifa og njóta sérstöðu Þingvalla með virðingu fyrir náttúru og sögu og í góðri sátt við komandi kynslóðir?

Með því að smella hér fást allar upplýsingar um hugmyndaleitina og hvernig taka má þátt.

Til að örva þátttöku og laða fram áhugaverðar og vel unnar hugmyndir mun dómnefnd veita viðurkenningu allt að 5 hugmyndum sem endurspegla hugmyndaauðgi þátttakenda. Viðurkenningu fylgir peningaupphæð, kr. 200.000 krónur. Við val sitt mun dómnefnd leita eftir hugmyndum með eftirfarandi eiginleika:

  • Þær veiti trúverðugt svar við meginspurningu hugmyndaleitarinnar. Það feli því í sér tillögu um upplifun gesta í tengslum við sérstöðu Þingvalla.
  • Hugmyndir séu í öllum meginatriðum í samræmi við stefnumörkun þjóðgarðsins á Þingvöllum 2004-2024.
  • Framsetning sé greinargóð og lýsi vel inntaki hugmyndarinnar.

Í dómnefnd sitja: Ragna Árnadóttir formaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og formaður íslensku heimsminjanefndarinnar.

Alta hefur aðstoðað Þingvallanefnd við undirbúning og framkvæmd hugmyndaleitarinnar.

Vefur með þemakortum af Íslandi

Nýlega opnaði nýr vefur sem Alta sér um og sýnir fjölbreytileg þemakort af Íslandi. Þar má sjá hvar margvíslega áhugaverða staði er að finna, allt frá sundlaugum yfir í eldfjöll. Stærð landsins og dreifing íbúanna, kaupstaðir og bæir, golfvellir og flugvellir - allt er þetta sýnt á vefnum ásamt mörgu fleira. Efnið er sett fram á ensku með þarfir þeirra ferðamanna í huga sem skipuleggja sjálfir ferð sína um landið í fólksbíl og vilja vita hvar áhugavert væri að staldra við. Auðvelt er að kalla fram vélræna þýðingu yfir á fjölmörg tungumál.

Alta byggir vefinn á þekkingu sinni á landafræði Íslands og á söfnun og miðlun landfræðilegra gagna. Vefurinn hefur slóðina www.icelandinmaps.com

Fjölmenni á opnum degi NÍ í Urriðaholti

Opinn dagur hjá Náttúrfræðistofnun Íslands í Urriðaholti tókst frábærlega vel en þá þekktust fimm til sexþúsund manns boð um að koma og kynna sér starfsemi stofnunarinnar. Þarna gafst ungum sem öldnum kostur á að fræðast um störf náttúruvísindamanna og sjá aðstöðu þeirra í nýja húsinu í Urriðaholti. Þarna mátti kynnast skordýrafræði, jarðfræði, steingervingafræði, frjómælingum, grasafræði, flokkunarfræði, fuglafræði og vistfræði.

Þarna gafst líka skemmtilegt tækifæri til að kynna skipulagið í Urriðaholti og samhengi Náttúrufræðistofnunar þar, en bygging stofnunarinnar er fyrsta skriftstofubyggingin sem rís á þeim grunni. Halldóra Hreggviðsdóttir frá Alta kynnti skipulagið fyrir fjölda áhugasamra gesta en Alta verkstýrði skipulaginu og vann við rammaskipulagið með öðrum ráðgjöfum. Þegar hverfið verður fullbyggt munu 8 til 10 þúsund manns búa þar og starfa. Skipulagið og nálgun þess að áhugaverðri blandaðri byggð hefur vakið talsverða athygli og meðal annars fengið þrjár alþjóðlegar viðurkenningar fyrir uppbyggingu og áherslur. Leiðarljósin þar eru fjölbreyttni, sterkur staðarandi, vistvænar áherslur, heilbrigði og vellíðan íbúa. Þarna er hugsað fyrir nauðsynlegri samþættingu mannlífs, náttúru og menningar við uppbyggingu samfélags, sem byggist upp á löngum tíma.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá opna deginum og myndband sem Ólafur Hauksson tók er hér.

Náttúrumæraskrá gefin út

Sú frétt birtist nýlega í Austurglugganum að Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, eftir Helga Hallgrímsson, hefði verið gefin út. Alta fékk þetta mikla verk Helga í hendur meðan á vinnu við Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs stóð. Þar lýsir Helgi um 600 athyglisverðum stöðum og svæðum á Héraðssvæðinu, einkum náttúrufari en einnig ýmsu sem varðar mannlíf og þjóðtrú. Alta hafði frumkvæði að því að um 250 svæði, sem Helgi telur markverðust, voru afmörkuð með hnitum og síðan sett inn á vefsjá til þess að auðvelda aðgengi að lýsingunum. Það auðveldaði verkið hvað flokkun og röðun svæðanna var skipuleg í handriti Helga. Vefsjána er að finna hér: www.alta .is/nms

Upplýsingar um svæðin má finna bæði í textaham, þar sem öll svæðin 600 er að finna og í kortaham, þar sem hnitsettu svæðin 250 koma fram. Hægt er að leita að svæðum eftir orðum og orðhlutum.

Sjá má frétt Austurgluggans með því að smella hér.

Skemmtilegt sjónarhorn á bókasafnið í Grundarfirði og skrifstofu Alta

Félagsfræðingurinn Olaf Eigenbordt, sem er byggingaráðgjafi Humboldt háskólabókasafnsins í Berlín, heimsótti Grundarfjörð fyrir nokkrum dögum í tengslum við landsfund bókasafnsfólks, sem haldinn var í Stykkishólmi 17. til 18. september 2010. Í tilefni þess að Ísland verður heiðurgestur á bókasýningunni í Frankfurt 2011 hyggst Olaf skrifa bók um starfsemi bókasafna á Íslandi. Hann hefur því verið að viða að sér efni hérlendis og heimsótt bókasöfn víða um land. Heimsókn hans til Grundarfjarðar var liður í þeirri vinnu. Á bloggsíðu Olafs kemur fram að fyrirkomulag bókasafnsins og húsnæði þess svipi til hans áherslna við uppbyggingu bókasafna. Þarna sé bókasafnið í nánd við skólann en í sama húsnæði og félagsheimili þar sem starfsemin er fjölbreytt, slökkvistöð og útibú frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem sérhæfi sig meðal annars í ráðgjöf um samfélagsmál.

Upp