Skriður á mótun svæðisgarðs Snæfellinga

Vinna við svæðisskipulag, sem myndar kjarnann í svæðisgarði Snæfellinga, þess fyrsta á Íslandi, er vel á veg komin. Næstu vikur er áformað að kynna svæðisgarðinn enn betur og ræða við fjölmarga aðila sem tengjast viðfangsefninu með einum eða öðrum hætti. Mikilvæg tengsl hafa myndast við forsvarsmenn erlendra svæðisgarða, ekki síst í Noregi. Nýlega var Snæfellingum boðið annað árið í röð að taka þátt í aðalfundi samtakanna Norske parker og var Ragnhildur Sigurðardóttir þeirra fulltrúi. Ragnhildur er varaformaður svæðisskipulagsnefndar en Alta verkstýrir svæðisskipulagsgerðinni og leggur nefndinni til ýmsa sérfræðiþekkingu.  

Sjá hér umfjöllun um fundinn á vef Norske parker og erindi sem Ragnhildur flutti á fundinum má sjá hér.

Alta leitar að góðu fólki

Alta vill bæta við sig fólki til starfa í Reykjavík og Grundarfirði.

Sjá hér auglýsingu.

Samningur um svæðisgarð á Snæfellsnesi

Þann 7. mars var skrifað undir samstarfssamning sem leggur drög að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn er eign allra Snæfellinga, en þeir aðilar sem hafa tekið að sér að leiða verkefnið og undirbúning eru sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi; Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit, og félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu; Ferðamálasamtök Snæfellsness, Snæfell - félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Búnaðarfélag Staðarsveitar, Búnaðarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps og Búnaðarfélag Eyrarsveitar, ásamt SDS, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu. Áhugasamir aðilar um velferð Snæfellsness eru velkomnir í hópinn.

Svæðisgarður er samstarfsvettvangur þar sem byggt er á sérstöðu svæðis og hún nýtt á markvissan hátt til verðmætasköpunar. Svæðisgarður verður einungis til fyrir samstillt átak heimamanna og starf hans er á forsendum þeirra, með hagsmuni íbúa í nútíð og framtíð að leiðarljósi. Markmiðið er að íbúarnir greini og þekki betur þau tækifæri sem felast í nærtækum gæðum svæðisins og stilli saman strengi um nýtingu þeirra. Þá verður einnig auðveldara að miðla tækifærunum til íbúa, viðskiptavina og gesta.

Alta annast verkefnisstjórn og ýmsa ráðgjöf varðandi mótun svæðisgarðsins. Sjá nánar á http://svaedisgardur.is.

 

Hér er stutt myndband sem lýsir þessum skemmtilega áfanga.

 

Landmótun í kringum Félagsgarð í Kjós hafin

Félagsgarður í Kjós, sem tekinn var í notkun árið 1946, stendur á lóð Ungmennafélagsins Drengs sem einnig stóð að uppbyggingu hans.

Félagsheimilið hefur verið vinsælt samkomuhús, t.d. til brúðkaupa, afmæla og annarra atburða enda vel í sveit sett og státar af fallegu útsýni yfir Hvalfjörðinn. Kjósarhreppur fékk Alta til liðs við sig til að bæta aðkomu og umgjörð félagsheimilisins til að mæta hlutverki þess betur.

Tillaga Alta miðaði að því að draga fram glæsileika hússins og umgjörð þess en jafnframt að halda í karakter þess sem félagsheimilis í sveit. Þá var leitast við að endurnýta það efni sem hægt var, svo sem hellur og gróður og að skapa betri tengingar milli hæða á byggingunni. Loks var lagt til að tengja hönnunina við fólkið í sveitinni og fá unga íbúa til teikna mynd af uppáhalds dýri sínu til að greypa í hellulögn við inngang byggingarinnar.

Framkvæmdir eru óðum að hefjast og verður gaman að fylgjast með breytingunum.

Hugmyndaleit um Þingvelli lokið

Alls bárust 102 tillögur í hugmyndaleit Þingvallanefndar, sem lauk með málþingi og hugmyndasmiðju laugardaginn 22. október s.l. í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hugmyndirnar voru allar til sýnis í Tjarnarsal ráðhússins en sýningin heldur áfram á vefnum og hana má opna með því að smella hér. Óskað var eftir hugmyndum almennings um hvernig taka megi á móti þeim þúsundum Íslendinga og erlendra gesta sem á ári hverju vilja upplifa sérstöðu Þingvalla, án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins.  Tillögurnar sem bárust eru mjög fjölbreyttar að innihaldi og framsetningu og komu frá fólki úr ólíkum áttum. Dómnefnd veitti höfundum fimm tillagna viðurkenningu. Alta aðstoðaði Þingvallanefnd og starfsfólk þjóðgarðsins við undirbúning og framkvæmd hugmyndaleitarinnar og hugmyndasmiðjunnar í lokin.

Myndin er frá sýningu á hugmyndunum í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Upp