Svæðisgarður á Snæfellsnesi - Auðlind til sóknar

Heimamenn á Snæfellsnesi undirrituðu föstudaginn 4. apríl sáttmála um stofnun svæðisgarðsins Snæfellsness. Hann er samstarfsvettvangur, byggður á langtímasýn og vilja til varanlegs samstarf um þróun byggðar á forsendum nærtækra gæða og svæðisbundinnar sérstöðu. Markmiðið er að auka fjölbreytni í atvinnulífi og auka lífsgæði þeirra sem þar búa og starfa.

Þetta er hreinræktað frumkvöðlaverkefni Snæfellinga en í anda þróunar erlendis þar sem markviss svæðisbundin samvinna er nýtt til að efla innviði. Svæðisgarðurinn er verkfæri til að ýta undir jákvæða þróun og búsetu - eins konar byggðaþróunarmódel. Við hjá Alta höfum verið þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna að stofnun svæðisgarðsins með Snæfellingum á síðustu misserum. Svæðisskipulag er nýtt sem verkfæri til að móta stefnuna sem samvinnan byggir á. Þannig verður svæðisskipulagið sem sveitarfélögin fimm ákváðu að vinna í raun “sóknaráætlun” Snæfellsness.

Komið er á víðtæku samstarfi og leitað leiða til að auka og miðla þekkingu um Snæfellsnes, gæði þess og hagnýtingu gæðanna - til framfara. Með góðum og aðgengilegum upplýsingum um sérstöðu og auðlindir heimabyggðarinnar og leiðbeiningum um hvernig megi nýta þær frekar, er stutt við atvinnulíf og stofnanir samfélagsins. Leitað verður tækifæra til að búa til aukin verðmæti úr nærtækum gæðum hvort sem litið er til matvælavinnslu, iðnaðar, listsköpunar eða skólastarfs og rannsókna. Verðmætasköpun er lykilorð.

Sérstakur vefur lýsir svæðisgarðinum, sjá hér. Stutt myndband frá stofnfundinum má sjá hér.

Samfélagsábyrgð: Hagsæld fyrir mig og þig

Við hjá Alta þekkjum úr okkar ráðagjafarstarfi að auðveldara er að reka fyrirtæki með ábata, sem eru samfélagsábyrg. Samfélagsábyrgð er áhættustjórnun í raun, fyrirtæki vinna nánar með samfélaginu, njóta meiri virðingar og þekkja betur þarfir hagsmunaðila sinna. Lykillinn er nýskapandi hugsun og dæmin koma skemmtilega á óvart.

Við hjá Alta viljum miðla þessari reynslu og styrktum því málþing FKA á alþjóðadegi kvenna, í Silfurbergi í Hörpunni sem haldið var þann 8. mars 2014. Þar ræddu Afsané Bassir-Pour frá UNRIC um samfélagslega ábyrgð og ávinning fyrir fyrirtæki og samfélög í heild ásamt Halldóru Hreggviðsdóttur framkvæmdastjóra Alta, Sigurborgu Arnarsdóttur hjá Össuri og Janne Sigurdsson hjá Alcoa Fjarðaráli.

Hér er erindi Halldóru sem hún kallaði "Samfélagsábyrgð: Hagsæld fyrir mig og þig".

Útibúið í Grundarfirði flutt

Útibú Alta í Grundarfirði hefur flutt sig um set og er núna að Grundargötu 30, þar sem sem skrifstofur sveitarfélagsins hafa verið til húsa undanfarin ár. Á næstu vikum munu skrifstofur sveitarfélagsins flytjast í húsnæðið við Borgarbraut þar sem útibúið var áður. Á meðan er millibilsástand og hlutum komið fyrir til bráðabirgða. Allt ætti að vera komið í endanlegt horf í apríl.

Björg og Kristín Rós hlakka til að fá heimsóknir á Grundargötu 30!

Nýr starfsmaður: Þorsteinn Kári Jónsson

Þorsteinn Kári Jónsson hefur hafið störf sem sérfræðingur í samfélagsábyrgð og stefnumótun hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta. Þorsteinn hefur mastersgráðu frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS), þar sem hann lagði sérstaka áherslu á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og sjálfbærni í fyrirtækjarekstri og tók m.a. aukagráðu í samfélagslegri frumkvöðlastarfsemi. Þorsteinn starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sat á vegum hennar í tækninefnd staðlaráðs við gerð ISO 26000 sem og í stjórn faghóps Stjórnvísis um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, þar sem hann er nú formaður. Einnig hefur Þorsteinn starfað hjá rannsóknasetri CBS um samfélagsábyrgð og kennt samfélagsábyrgð við Háskólann á Bifröst. Þorsteinn er góður liðsauki í ráðgjafahóp Alta sem aðstoðað hefur fyrirtæki við innleiðingu samfélagsábyrgðar síðan 2001.

Alta gerist aðili að Festu

Alta hefur gerst aðili að Festu og vill með því stuðla að gagnlegri og aukinni umræðu um samfélagsábyrgð.

“Samfélagsábyrgð er öflugt tæki til að vinna heildstætt að langtímasýn fyrirtækisins með hliðsjón af öllum mikilvægum málaflokkum, bæði augljósum og minna augljósum. Þetta er leiðin til að reka fyrirtæki skynsamlega.” segir Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta.

Ráðgjafafyrirtækið Alta hefur frá upphafi haft samfélagsábyrgð að leiðarljósi. Fagleg ráðgjöf með sjálfbæra þróun sem markmið og samtal við hagsmunaaðila hefur einkennt áherslur Alta og verkefni frá stofnun þess 2001. Alta hefur aðstoðað fjölmörg fyrirtæki í ráðgjöf um samfélagsábyrgð.

Á myndinni er Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og Hulda Steingrímdóttir, ráðgjafi hjá Alta.

Upp