Alta gerist aðili að Festu

Alta hefur gerst aðili að Festu og vill með því stuðla að gagnlegri og aukinni umræðu um samfélagsábyrgð.

“Samfélagsábyrgð er öflugt tæki til að vinna heildstætt að langtímasýn fyrirtækisins með hliðsjón af öllum mikilvægum málaflokkum, bæði augljósum og minna augljósum. Þetta er leiðin til að reka fyrirtæki skynsamlega.” segir Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta.

Ráðgjafafyrirtækið Alta hefur frá upphafi haft samfélagsábyrgð að leiðarljósi. Fagleg ráðgjöf með sjálfbæra þróun sem markmið og samtal við hagsmunaaðila hefur einkennt áherslur Alta og verkefni frá stofnun þess 2001. Alta hefur aðstoðað fjölmörg fyrirtæki í ráðgjöf um samfélagsábyrgð.

Á myndinni er Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og Hulda Steingrímdóttir, ráðgjafi hjá Alta.

Hvernig líður fólkinu á þínum vinnustað?

Vissir þú að inniloft hefur áhrif á heilsufar og afköst starfsfólks? Og að algengustu kvartanir vegna vinnuumhverfis tengjast innilofti og gæðum þess? Umhverfi innandyra hefur bein áhrif á einbeitingu, afköst og á vinnugleði almennt. Rannsóknir sýna að með því að auka gæði innilofts þá aukast afköst til muna.

Lesa meira...

Ný aðkoma og umgjörð um Félagsgarð í Kjós

Félagsgarður í Kjós er sérlega reisuleg bygging og hefur verið vinsælt samkomuhús, t.d. til brúðkaupa, afmæla og annarra atburða. Það er enda vel í sveit sett og státar af fallegu útsýni yfir Hvalfjörðinn.

Kjósarhreppur fékk Alta til liðs við sig til að bæta aðkomu og umgjörð félagsheimilisins til að mæta hlutverki þess betur. Tillaga Alta miðaði að því að draga fram glæsileika hússins og umgjörð þess en jafnframt að halda í karakter þess sem félagsheimilis í sveit. Áhersla var lögð á að endurnýta það efni sem hægt var, svo sem hellur og gróður og að skapa betri tengingar milli hæða á byggingunni.

Lesa meira...

Gjaldtaka vegna uppbyggingar ferðamannastaða

Alta lauk nýlega við ritun skýrslu fyrir Ferðamálastofu sem gefur yfirlit yfir gjaldtökuleiðir vegna uppbyggingar ferðamannastaða erlendis. Einnig er reynt að skýra hvað falist gæti í hugmyndum um náttúrupassa en slíkum hugmyndum hefur verið vel tekið þótt nákvæm útfærsla hafi verið nokkuð á reiki. Í upphafi skýrslunnar er farið stuttlega yfir helstu hagstærðir til þess að lesandinn geti betur glöggvað sig á mögulegum áhrifum ólíkra gjaldtökuleiða ef þær væru innleiddar hér.

Eftir að ferðamönnum fór að fjölga nokkuð hratt upp úr aldamótum hefur reynst erfitt að láta uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða halda í við fjölgun gesta. Ábendingar hafa komið fram um þörf fyrir úrbætur hér og þar og ástand friðlýstra svæða hefur verið metið og aðgerðum forgangsraðað.

Mikil umræða var snemmsumars 2013 um brýna þörf fyrir gjaldtöku sem leið til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. Áhugi er á því hjá stjórnvöldum að bregðast hratt við. Á hinn bóginn er ljóst að gjaldtakan varðar hagsmuni margra enda er ferðaþjónusta orðin fjölmenn og kröftug atvinnugrein sem vegur sífellt þyngra í þjóðarbúskapnum. Forsenda sáttar um niðurstöðu og ákvörðun er að greinargóðar upplýsingar liggi fyrir og þessari skýrslu er ætlað að draga fram hluta af þeim.

Skýrsluna má nálgast hér, á vef Ferðamálastofu.

Lokaúttekt á jarðvarmaverkefni í Níkaragúa

Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta og Stefán Arnórsson prófessor, hafa unnið lokaúttekt þar sem metinn var árangur samvinnuverkefnis Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og stjórnvalda í Níkaragúa, við uppbyggingu þekkingar hjá stjórnvöldum á sviði jarðhita, frá 2007 - 2012. Það var afar ánægjulegt að kynnast því góða starfi sem Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið að með stjórnvöldum í Níkaragúa og fá tækifæri til að sjá þann árangur sem þegar hefur náðst, en helstu niðurstöður lokaúttektarinnar eru þær að árangur þessa starfs hafi verið mjög góður. Úttektina má finna á vef Þróunarsamvinnustofnunar á ensku og spænsku.

Upp