Krefjandi starf hjá Alta

Við hjá Alta leitum að ferskum og öflugum liðsmanni til að sinna ráðgjöf í umhverfismálum.
Við gerum miklar kröfur til umsækjenda, en ef þú ert sá rétti / sú rétta, þá hvetjum við þig eindregið til að sækja um!

Hjá Alta starfar víðsýnn og fjölbreyttur hópur ráðgjafa. Viðskiptavinir okkar eru margskonar; smærri og stærri fyrirtæki, einkaaðilar og “hið opinbera”. Umhverfismál og samfélagsleg ábyrgð hafa alltaf verið stór hluti af starfsemi Alta og við leitumst við að störf okkar hafi jákvæð áhrif fyrir viðskiptavini og samfélag.

Sjá auglýsingu hér.

Vaxandi notkun QGIS

QGIS landupplýsingahugbúnaðurinn hefur þróast mjög ört á undanförnum misserum. Þetta er opinn hugbúnaður sem fæst án endurgjalds. Fullyrða má að með honum megi sinna öllum algengustu verkefnum sem slíkur hugbúnaður er ætlaður fyrir. Alta hefur notað QGIS fyrir skipulagsuppdrætti og ýmsa landupplýsingavinnslu og reynslan er mjög góð. Þannig eru t.d. allir uppdrættir í tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Seltjarnarness, sem er í vinnslu hjá Alta, unnir í QGIS og í samræmi við tillögur um innleiðingu stafræns skipulags. 

Hjá ýmsum opinberum aðilum er áhugi á að nota QGIS fyrir ýmsa landupplýsingavinnslu og Alta getur aðstoðað og miðlað af reynslu sinni í þeim efnum, t.d. með kennslu og leiðsögn.

Að græða með verkefnastjórnun

Björg Ágústsdóttir lögfræðingur og MPM, ráðgjafi hjá Alta, skrifaði grein í Markaðinn, sérblað Fréttablaðsins 14. janúar sl. Greinin fjallar um að hagur geti verið af því að nýta aðferðir verkefnastjórnunar í fyrirtækjum og stofnunum.

Greinina má lesa hér.

Alta kortleggur auðlindir ferðaþjónustu

Ferðamálastofa vinnur að uppbyggingu gagnagrunns yfir auðlindir í ferðaþjónustunni í samstarfi við heimamenn um allt land. Hann á að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á frekari þróun og uppbyggingu á þessu sviði. Við hjá Alta höfum tekið að okkur að halda utanum þessa uppbyggingu og samstarfið við heimamenn og hlökkum mjög til samstarfsins.

Myndin var tekin þegar Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Árni Geirsson hjá Alta undirrituðu verksamning.

Verkið er unnið þannig að Alta leggur upp staði sem til greina koma sem áhugaverðir viðkomustaðir, en heimamenn meta aðdráttarafl þeirra og veita frekari upplýsingar um hvern stað. Starfsfólk Alta mun síðan lýsa í stuttu máli þeim stöðum sem taldir verða áhugaverðir. Gert er ráð fyrir að þessu verkefni ljúki í nóvember. Sjá nánari frétt á vef Ferðamálastofu.

Það er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að við höfum fengið til liðs við okkur þrjá unga starfsmenn til að sinna þessu verkefni sérstaklega, þær Iðunni Hauksdóttir, B.Sc. í náttúru- og umhverfisfræði og mastersnema í umhverfisfræði, sem vinnur á Snæfellsnesi, Sóleyju Valdimarsdóttur, B.A. í umhverfisskipulagi og mastersnema í landfræði, sem vinnur á Egilsstöðum og Hrefnu Hjartardóttur, B.Sc. í landfræði, sem vinnur á skrifstofunni hjá Alta í Reykjavík. Þetta sýnir í verki þau tækifæri sem fjarvinnsla gefur til samstarfs við gott fólk um allt land og eru okkur hjá Alta sérstaklega hugleikin.

Nýr starfsmaður: Herborg Árnadóttir

Herborg Árnadóttir tók nýlega til starfa hjá Alta. Verkefni hennar snúast um skipulagshönnun og skipulagsgerð, samband borgarumhverfis og lýðheilsu, not á almenningsrýmum, mat á gönguhæfi umhverfis, vinnu með landupplýsingar, grafíska vinnu og þrívídd, umbrot og myndbandagerð.

Herborg hefur B.A. gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands og M.S. gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni Herborgar fjallaði um samband lýðheilsu og skipulags en þar rannsakaði hún sérstaklega tengsl borgarumhverfis og hversdagslegrar hreyfingar hjá ungu fólki í Reykjavík. Hún hefur einnig unnið við fjölbreyttar rannsóknir á borgarrýmum með rannsóknarhópnum Borghildi, en hún var einn af stofnendum hans (sjá www.borghildur.info).

Upp