Yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar

Gefin hefur verið út yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar á Íslandi. Að yfirlýsingunni standa aðilar í íslenskum sjávarútvegi; Sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnunin, Fiskistofa og Fiskifélag Íslands. Yfirlýsingin er liður í því að koma á framfæri upplýsingum um hvernig staðið er að fiskveiðum á Íslandi. Kröfur markaða um upplýsingar og staðfestingu á því að fiskur sé veiddur með ábyrgum hætti hafa aukist talsvert á undanförnum árum og er yfirlýsingin liður í að bregðast við því. Í yfirlýsingunni er farið yfir meginþætti íslensks fiskveiðistjórnunarkerfis og hvernig íslensk fiskveiðistjórnun stuðlar að ábyrgum veiðum og sjálfbærri nýtingu fiskistofna. Alta aðstoðaði Fiskifélag Íslands við gerð yfirlýsingarinnar. Yfirlýsinguna má nálgast á vef Sjávarútvegsráðuneytisins.

Sólarræsting fær Svansvottun

Birna, Steini og Daiva fagna SvansleyfinuÞjónustufyrirtækið Sólarræsting hefur fengið umhverfisvottun Svansins sem veitt er af Umhverfisstofnun. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra afhenti Þorsteini Ágústsyni framkvæmdastjóra fyrirtækisins vottorð þar um, við formlega athöfn í Iðnó þann 8.ágúst sl. Sólarræsting hefur síðan í haust unnið að því að byggja upp gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi í starfseminni í samræmi við viðmiðunarreglur Svansins og hefur Alta aðstoðað Sólarræstingu í þerri vinnu. Sólarræsting ehf. er þjónustufyrirtæki sem býður fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum upp á þjónustu við reglulegar ræstingar og ýmis hreingerningaverkefni. Þórsteinn Ágústsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir m.a. í grein í Viðskiptablaðinu 10 júlí 2007, “Við höfum strax fundið áhrifin af þessu. Það er ákveðinn hópur fólks sem er þegar vel meðvitaður um umhverfismál. Þetta fólk er farið að hafa samband við okkur og óska eftir þjónustu. Þá hefur þetta vottunarferli líka lyft okkur upp á hærra plan hvað allt skipulag varðar og gerir okkur kleift að stækka mun hraðar.” Svanurinn byggist á viðmiðunarkröfum sem taka til margra þátta á öllum lífsferli viðkomandi vöru eða þjónustu, bæði hvað varðar gæði og umhverfisáhrif. Svansmerkið er trygging neytenda fyrir gæðavöru sem skaðar umhverfið minna en aðrar vörur eða þjónusta til sömu nota. Gefnar hafa verið út viðmiðunarreglur fyrir fjölda vörutegunda og þjónustu, sjá m.a. á www.svanurinn.is. Á myndinni hér að ofan má sjá Birnu Helgadóttur ráðgjafa Alta fagna Svansleyfinu með Þórsteini Ágústssyni og Daivu Léliené starfsmönnum Sólarræstingar.

Gera kaffistofur lífið ánægjulegra?

Hjá Kaffistofum stúdenta í Háskóla Íslands er svarið já. Fyrirhugað er að gera nokkrar breytingar á rekstri og stefnu kaffistofanna í tengslum við opnun nýrrar kaffistofu í Háskólatorginu sem verið er að byggja. Við stefnumótun fyrir Kaffistofurnar var leitað aðstoðar Birnu Helgadóttur og Huldu Steingrímsdóttur hjá Alta ehf. Félagsstofnun stúdenta rekur Kaffistofur stúdenta og byggja hugmyndir um breytta stefnu m.a. á því að samfélagsleg ábyrgð verði grunntónninn í öllum rekstri kaffistofanna. Unnið var með þessar hugmyndir í stefnumótunarferlinu ásamt Hönnu Maríu Jónsdóttur, rekstrarstjóra Kaffistofanna. Nú liggur fyrir ný stefna fyrir kaffistofurnar. Í henni kveður við nýjan tón þar sem áhersla verður lögð á að kaffistofurnar geri háskólalífið ánægjulegra. Það er gert með alúðlegri þjónustu, ferskum og spennandi veitingum, gleðjandi verði, notalegu andrúmslofti og síðast en ekki síst mun samfélagslega ábyrgð verða sýnd í starfi kaffistofanna. Samfélagsleg ábyrgðin mun m.a. birtast í því að markvisst verður unnið að því að kaupa umhverfis- og siðgæðisvottaðar vörur og að taka mið af umhverfissjónarmiðum við val á umgjörð og umbúðum. Í haust verður unnið áfram að útfærslu stefnunnar ásamt hagsmunaaðilum og nýtt vörumerki og útlit kaffistofanna lítur dagsins ljós. Stúdentar og starfsfólk Háskólans geta þegar farið að hlakka til opnun nýs Háskólatorgs þar sem uppáhaldskaffihús þeirra verður opnað!

Umhverfismerking smábátafisks í undirbúningi

LS vinnur að umhverfismerkingu smábátafisks í samstarfi við KRAVLandssamband smábátaeigenda (LS) vinnur nú að verkefni sem felur í sér umhverfismerkingu á íslenskum smábátafiski og hefur verið tekin ákvörðun um samstarf við sænska fyrirtækið KRAV um slíka vottun. Alta hefur m.a. komið að undirbúningi verkefnisins með LS. Eftirspurn eftir fiski sem hefur hlotið vottun um sjálfbærar veiðar hefur aukist mikið á síðustu árum og er verkefnið liður í því að svara þeim kröfum markaðarins. Einnig er verkefnið liður í því að efla markaðssetningu á íslenskum smábátafiski á erlendum mörkuðum sem fyrsta flokks vöru sem uppfyllir ströngustu umhverfiskröfur við veiðar og vinnslu og þannig auka verðmæti aflans. KRAV eru samtök sem þróa og markaðsetja staðla fyrir lífræna vottun matvöru í Svíþjóð og er KRAV merkið eitt útbreiddasta umhverfismerkið fyrir lífrænt ræktaða matvöru í Svíþjóð og víðar í Skandinavíu. KRAV hefur á undanförnum árum þróað staðal og vottunarferli fyrir sjálfbærar fiskveiðar á Norðurlöndum og nær KRAV vottunin m.a. til veiða, veiðafæra, vinnslu og sölu tiltekinnar vöru. Til að hægt sé að markaðssetja fisk með KRAV merkinu þarf að uppfylla viðeigandi kröfur fyrir öll þessi stig í framleiðsluferlinu. Í byrjun verður um tilraunaverkefni að ræða og er gert ráð fyrir að unnið verði að umhverfisvottun á fiski frá nokkrum bátum og einni fiskvinnslu til að byrja með. Ef vel gengur má gera ráð fyrir að fleiri fylgi í kjölfarið. Stefnt er að því að fyrsti umhverfismerkti smábátafiskurinn fari á markað fyrrihluta árs 2008.

Kaffihúsafundur um umhverfismál á Fljótsdalshérað

Um tuttugu manns mættu á kaffihúsafund um umhverfismál sem haldinn var þriðjudaginn 5. júní. Fyrir fundinum stóð starfshópur um Staðardagskrá 21 fyrir Fljótsdalshérað og var tilgangur hans að fá fram ábendingar og hugmyndir um umhverfismál í sveitarfélaginu. Þátttakendur ræddu spurninguna ,,Græn sérstaða Fljótsdalshéraðs er auðlind – hvernig viljum við standa vörð um hana og efla til framtíðar?”. Hvað sveitarfélagið sjálft varðar voru helstu skilaboð fundarins þau að sveitarfélagið þurfi umfram allt að vera góð fyrirmynd þegar kemur að umhverfismálum. Fundarmenn lögðu jafnframt mikla áherslu á heildarsýn í úrgangsmálum. Þá kom fram áhersla á mikilvægi þess að íbúarnir sjálfir leggi sitt af mörkum þegar um umhverfismál er að ræða. Þegar fundarmenn voru beðnir um að forgangsraða verkefnum í því samhengi kom fram að þeir verða að bæta eigin umgengni og ábyrgð. Einnig að fræða þurfi börnin betur um ýmislegt er varðar umhverfismál og að það þurfi að leggja meiri áherslu á flokkun úrgangs og vistvæna meðhöndlun hans. Starfshópurinn mun nú vinna úr skilaboðum fundarins og nýta þau við gerð Staðardagskrár 21 og endurskoðun á stefnu sveitarfélagsins. Auk þess munu þau nýtast við ákvarðanatökur á vegum sveitarfélagsins og endurspeglast í aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs sem nú er unnið að.

Upp