Íslenska gámafélagið fær Kuðunginn 2009

Á degi umhverfisins 25. apríl, veitti Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra Íslenska gámafélaginu Kuðunginn, umhverfisverðlaun umhverfisráðuneytisins. Verðlaunin voru veitt fyrir framlag fyrirtækisins til sorpmála og beitingu nýrra leiða hjá sveitarfélögum. Aðferðin þykir hafa heppnast afar vel og kallast „Stykkishólmsleiðin“. Leiðin felst í því að flokka allt sorp frá öllum íbúum í þrjá flokka, græna tunnu (endurvinnanlegt sorp; plast, dósir, dagblöð og tímarit og rafhlöður), brúna tunnu (lífrænu heimilissorpi) sem nýtt er til moltugerðar og gráa tunnu (óflokkað sorp). Fleiri sveitarfélög hafa bæst í hópinn enda hefur aðferðin fallið í góðan jarðveg hjá íbúum. Sjá nánari umfjöllun á vef Umhverfisráðuneytisins og vef Íslenska gámafélagsins. Metnaður fyrirtækisins birtist í mörgu en Íslenska Gámafélagið hefur unnið ötullega að því að fjölga metanbifreiðum sem eru nú rúmlega 20 í bílaflota fyrirtækisins og unnið er að uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis samkvæmt ISO 14001 með aðstoð Alta.

Alta hefur undirritað meginreglur Sameinuðu þjóðanna

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur nú gerst aðili að UN Global Compact sem og undirritað yfirlýsingu um að fylgja 10 meginreglum sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Með undirrituninni skuldbindur Alta sig til að fylgja reglunum og að stefna og starfshættir fyrirtækisins taki mið af þeim. Árlega mun Alta gera grein fyrir árangri og/eða verkefnum sem styrkja meginreglurnar 10, eins og fyrirtækjum er gert að gera. Global Compact er ákall til fyrirtækja um allan heim um að taka þátt í að búa til ramma um samfélag og umhverfi sem tryggir opna og frjálsa markaði sem allir hafi jafna möguleika á að njóta.

Lesa meira...

Háskólinn í Reykjavík mótar umhverfisstefnu

HR vinnur nú að umhverfisstefnu sem studd er fjórum stoðum; rannsóknum, kennslu, samgöngum og rekstri, sjá nánar hér. Stoðirnar fjórar taka til helstu áhrifa sem starfsemi skólans hefur á umhverfið. Gert er ráð fyrir að stefnan liggi fyrir í sumar og strax verði farið að vinna að henni, enda margt spennandi og aðkallandi sem knýr á um aðgerðir. Nægir þar að nefna flutning HR í nýtt húsnæði í Vatnsmýri með tilheyrandi umferð og lausnum sem beita má til að lágmarka áhrif starfsfólks og nemenda á loftgæði borgarinnar.

Lesa meira...

Vistvænar áherslur í innkaupareglum Fljótsdalshéraðs

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti í lok síðasta árs innkaupastefnu og innkaupareglur fyrir sveitarfélagið. Umhverfisáherslur og vistvæn innkaup eru fléttaðar inn í innkaupareglurnar og mun Fljótsdalshérað vera fyrsta sveitarfélagið til að gera slíkt með markvissum hætti. Alta, ráðgjafarfyrirtæki, hefur aðstoðað Fljótsdalshérað við þessa vinnu og komu Birna Helgadóttir umhverfisfræðingur og Björg Ágústsdóttir lögfræðingur að því verki. Innkaupastefnan var unnin með hliðsjón af þörfum sveitarfélagsins, en innkaup og innkaupaaðferðir sveitarfélagsins voru tekin til skoðunar í því skyni. Það er stefna Fljótsdalshéraðs að innkaup sveitarfélagsins stuðli að hagkvæmni í rekstri og hvetji um leið til nýsköpunar og framsækinnar þróunar í atvinnulífi, með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Innkaupastefnan er í samræmi við framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs 2007-2027.

Lesa meira...

Umhverfisáherslur við endurbætur á húsnæði Alta

Við endurbætur á skrifstofuhúsnæði Alta í Ármúla var lögð áhersla á gæði, heilsu og umhverfismál. Fylgt var LEED-staðli um endurbætur. Það sem kom á óvart er að vistvænu lausnirnar reyndust alls ekki dýrari en aðrar og að jafnframt er ljóst að rekstrarkostnaður hjá okkur verður lægri en ella. Hér fara nokkur dæmi um áherslur og atriði sem er að finna hjá Alta:

 • Málning – umhverfismerkt, Svanurinn
 • Blóm – hreinsa andrúmsloft og gera umhverfið vistlegra.
 • Ljósastýring – sparar orku.
 • Gólfefni – Korkur, endurnýjanleg auðlind, endingargóður, hljóðdempandi, með náttúrulegri brunavörn, olíu- og vaxborinn. Minni viðhaldsþörf.
 • Loftaplötur - Vinnurýmið er allt opið og var því lögð rík áhersla á að fá bestu fáanlegu kerfisloftaplöturnar varðandi hljóðvist. Plöturnar eru auk þess ofnæmisprófaðar og umhverfismerktar, Svanurinn.
 • Gluggar – gler með filmu sem varna varmageilsun út, þ.e. eykur einangrunargildi og temprar varmageilsun inn og bætir þannig vinnuskilyrði.
 • Húsgögn – þrátt fyrir flutning í nýtt húsnæði voru áfram notuð eldri húsgögn enda valdar sígildar vörur.
 • Loftræsting - í skrifstofurýminu er ekki þörf á sjálfvirkri loftræstingu í stað þess var komið fyrir fleiri opnanlegum fögum svo stýra megi betur innstreymi/gegnumstreymi lofts. Í lokuðum rýmum er því nauðsynlegt að hafa tvö opnanleg fög.
 • Orkusparnaður – sem dæmi eru ný ljósritunarvél og faxvél með energy star og power safe.
 • Handklæði – í stað pappírs
 • Salerni - vatnssparandi salerni
 • Sturta – góð aðstaða auðveldar starfsmönnum að hjóla til vinnu.
 • Aðstaða fyrir reiðhjól sem margir starfsmenn nýta sér

Sjá nánar í þessu skjali.

Upp