Samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga um skipulagsmál

Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur og Sigmar Metúsalemsson landfræðingur hjá Alta kynntu vinnu við aðalskipulag Norðurþings á árlegum samráðsfundi Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga um skipulagsmál sem haldinn var í Keflavík 7. og 8. maí sl. Í aðalskipulagsvinnunni hefur verið lögð áhersla á greiningu náttúru, minja og landslags í dreifbýli sem grunn að stefnumörkun. Marmiðið er heilbrigð vistkerfi, sjálfbær auðlindanýting og fjölbreytt búsetulandslag. Einnig hefur verið lögð áhersla á að móta fallega bæjarmynd í miðbæ Húsavíkur með setningu skýrrar stefnu og skipulagsramma fyrir það svæði. Nánari upplýsingar um aðalskipulagsvinnuna í Norðurþingi er að finna á vef sveitarfélagsins, www.nordurthing.is. Glærur frá kynningunni má sjá hér.

Umhverfisupplýsingar – það borgar sig ekki að plata!

Það er fagnaðarefni hversu mörg fyrirtæki eru farin að leggja aukna áherslu á umhverfismál, sjálfbæra þróun og samfélagsábyrgð enda fjölmörg ónýtt tækifæri hér á landi. Ávinningur er ekki einvörðungu fyrirtækisins heldur einnig neytendanna, umhverfisins og samfélagsins. Auglýsingar og markaðsetning hvers konar með áherslu á umhverfismál endurspeglar m.a. þessar breytingar. Yfirlýsingar fyrirtækja og upplýsingar á umbúðum um umhverfisframmistöðu vöru eða þjónustu eru gott dæmi um það . Mikilvægt er að vanda til verka þegar fjallað er um umhverfisframmistöðu og tryggja áreiðanleika þeirra fullyrðinga eða upplýsinga sem settar eru fram. Of algengt er að fyrirtæki setji sjálf fram fullyrðingar um frammistöðu sýna eða tiltekinnar vöru, án þess að ljóst sé hvað stendur að baki. Dæmi um algengar fullyrðingar um umhverfiseiginleika vöru og þjónustu eru “græn”, “vistvæn”, “umhverfisvæn” o.fl. í þeim dúr. Í nýlegri kanadískri rannsókn kemur fram að fjöldi af “grænum” vörum í verslunum hafi aukist umtalsvert á síðustu árum og fullyrðingar um umhverfiseiginleika þeirra orðið fleiri og fjölbreyttari. Hið neikvæða er að stór hluti þeirra umhverfisfullyrðinga sem framleiðendur setja sjálfir fram um vörur sínar, virðast með einhverjum hætti misvísandi fyrir neytendur, ónákvæmar eða jafnvel í einhverjum tilfellum ósannar. Algengt er að ekki liggi fyrir aðgengilegar upplýsingar sem styðja við viðkomandi fullyrðingu. Fréttina má lesa hér: [http://planetark.org/wen/52454]. Niðurstöður rannsóknarinnar eru áminning um mikilvægi þess að vanda til verka og tryggja að innistæða sé fyrir þeim fullyrðingum sem settar eru fram um umhverfiseiginleika vöru og þjónustu. Trúverðugleiki og gegnsæi eru þar lykilatriði. Ef upplýsingar eru ónákvæmar eða ekki er tryggt að varan uppfylli þá fullyrðingu sem sett er fram til viðskiptavina, getur mögulega jákvæður ávinningur fljótt snúist upp í andhverfu sína, með neikvæðri umfjöllun og skaddaðri ímynd. Trúverðugasta og öruggasta leiðin fyrir fyrirtæki er að styðjast við viðurkennd umhverfismerki sem eru vottuð af þriðja aðila. Dæmi um slík merki eru Norræni Svanurinn og Evrópska Blómið. Í tilfellum þar sem framleiðendur setja sjálfir fram fullyrðingar, er mikilvægt að skýrt sé hvað átt er við og að fyrirtækið geti sýnt fram á með aðgengilegum og trúverðugum hætti að viðkomandi fullyrðing sé sönn. Í öllum tilfellum þarf starfsfólk fyrirtækisins að vera meðvitað um þá umhverfiseiginleika vörunnar sem um er að ræða og geta svarað spurningum þar um. Fræðsla og þekking til starfsfólks er því einnig mikilvæg.

Fyrirlestur Eric Holding á ráðstefnu Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun gekkst fyrir vel heppnaðri ráðstefnu, "Að móta byggð", fimmtudaginn 30. apríl. Meðal fyrirlesara var Eric Holding en í fyrirlestri sínum setti hann mótun byggðar í áhugavert samhengi við tímann, bæði í árþúsundum talið og þeim mánuðum og misserum sem viðfangsefnin þurfa að rúmast í. Hér er hægt að sjá og heyra það sem Eric hafði fram að færa. Athugið að talið hefst smástund eftir að fyrsta glæran birtist.

Íslenska gámafélagið fær Kuðunginn 2009

Á degi umhverfisins 25. apríl, veitti Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra Íslenska gámafélaginu Kuðunginn, umhverfisverðlaun umhverfisráðuneytisins. Verðlaunin voru veitt fyrir framlag fyrirtækisins til sorpmála og beitingu nýrra leiða hjá sveitarfélögum. Aðferðin þykir hafa heppnast afar vel og kallast „Stykkishólmsleiðin“. Leiðin felst í því að flokka allt sorp frá öllum íbúum í þrjá flokka, græna tunnu (endurvinnanlegt sorp; plast, dósir, dagblöð og tímarit og rafhlöður), brúna tunnu (lífrænu heimilissorpi) sem nýtt er til moltugerðar og gráa tunnu (óflokkað sorp). Fleiri sveitarfélög hafa bæst í hópinn enda hefur aðferðin fallið í góðan jarðveg hjá íbúum. Sjá nánari umfjöllun á vef Umhverfisráðuneytisins og vef Íslenska gámafélagsins. Metnaður fyrirtækisins birtist í mörgu en Íslenska Gámafélagið hefur unnið ötullega að því að fjölga metanbifreiðum sem eru nú rúmlega 20 í bílaflota fyrirtækisins og unnið er að uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis samkvæmt ISO 14001 með aðstoð Alta.

Alta hefur undirritað meginreglur Sameinuðu þjóðanna

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur nú gerst aðili að UN Global Compact sem og undirritað yfirlýsingu um að fylgja 10 meginreglum sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Með undirrituninni skuldbindur Alta sig til að fylgja reglunum og að stefna og starfshættir fyrirtækisins taki mið af þeim. Árlega mun Alta gera grein fyrir árangri og/eða verkefnum sem styrkja meginreglurnar 10, eins og fyrirtækjum er gert að gera. Global Compact er ákall til fyrirtækja um allan heim um að taka þátt í að búa til ramma um samfélag og umhverfi sem tryggir opna og frjálsa markaði sem allir hafi jafna möguleika á að njóta.

Lesa meira...

Upp