Hugmyndasamkeppni um Vatnsmýri lokið

Þann 14. febrúar voru kynntar niðurstöður hugmyndasamkeppni um skipulag í Vatnsmýri. Margar áhugaverðar tillögur komu fram og óhætt að segja að vinningstillögurnar hafi vakið mikla athygli og umræðu, ekki síst tillaga Graeme Massies og félaga sem dómnefnd gerði hæst undir höfði. Tillögurnar má sjá á vef keppninnar, www.vatnsmyri.is. Alta átti verulegan þátt í keppnishaldinu frá upphafi. Skipulags- og byggingasvið Reykjavíkur fól Alta að annast undirbúning keppninnar á vordögum 2005 en þá var nýlega lokið alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um miðbæ Akureyrar sem Alta annaðist einnig og þótti takast afar vel. Verk Alta í tengslum við Vatnsmýrarkeppnina voru einkum á fjórum sviðum:

  • Skipulagning keppninnar í upphafi.
  • Skipulagning og framkvæmd samráðs við almenning og hagsmunaaðila.
  • Keppnislýsing, keppnisgögn og vefur keppninnar. Alta lagði til ritara dómnefndar, sem annaðist ritstjórn framangreindra gagna og skiplagði störf dómnefndarinnar.
  • Aðstoð við kynningu niðurstaðna að lokinni keppni.

Í þessu umfangsmikla verkefni skipti ekki minnstu máli að allir sem að því komu, ekki síst dómnefnd, starfsfólk Skipulags- og byggingasviðs, starfsfólk ráðhúss, trúnaðamaður keppenda - og Alta - áttu afar gott samstarf.

Svanurinn: Mikil tækifæri á Íslandi

Þetta kom fram í rannsókn sem Alta gerði fyrir Umhverfisstofnun í tilefni af norrænum fundi um framtíð umhverfismerkisins Svansins. Fundurinn var haldinn á Hótel Nordica 20. október sl. og hann sóttu 40-50 aðilar frá öllum Norðurlöndunum sem sitja í stjórnum og nefndum á vegum norræna umhverfismerkisins Svansins. Birna Helgadóttir, ráðgjafi hjá Alta, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á fundinum. Rannsókn Alta byggir á viðtölum við fyrirtæki sem hafa Svansleyfi og fyrirtæki sem ekki hafa Svansleyfi.

Lesa meira...

Fjölbrautaskóli Snæfellinga: framsækinn og leiðandi

Grundarfjarðaútibú Alta stýrði á dögunum þremur samráðsfundum fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga, í tengslum við stefnumótun skólans. Á fundunum kom fram að mjög almenn ánægja er með starf Fjölbrautaskóla Snæfellinga, meðal nemenda, starfsfólks, foreldra, sveitarstjórnarfólks og annarra heimamanna. Úttekt sem menntamálaráðuneytið lét gera á starfi skólans þau þrjú ár sem hann hefur starfað, reyndist jákvæð og þar komu jafnframt fram góðar ábendingar um það sem betur má fara. Með svo góða byrjun, stendur skólinn frammi fyrir þeirri spurningu hvernig megi þróa starfið áfram, þannig að hann verði áfram í fremstu röð og þjóni nemendum og samfélagi sínu vel. Ákveðið var að kalla eftir sjónarmiðum bæði innan og utan skólans um það hvernig fólk vill sjá skólann þróast. Þetta var gert með þremur fundum, opnum fundi, fundi með nemendum og loks fundi starfsmanna og skólanefndar.

Lesa meira...

Ráðgjafar hjá Alta ráðagóðir!

Morgunblaðið á hrós skilið fyrir ítarlegan og yfyrigripsmiklan greinaflokk um loftslagsbreytingar í Morgunblaðinu undanfarnar vikur. Þar hefur ýmsum þáttum tengdum loftslagsbreytingum verið gerð góð skil, s.s.samgöngur, innkaup, byggingar, skipulag og þróun í alþjóðasamfélaginu almennt. Í greinarflokknum hafa Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Orri Páll Ormarsson blaðamenn unnið gott verk sem vonandi mun drífa áfram áhuga almennings og ekki síst fyrirtækja og sveitarfélaga á umhverfismálum. Niðurstaðan er: Umhverfismál fjalla um lífsgæði og tækifæri í nútíð og framtíð. Þrátt fyrir aukinn þunga og alvarleika í umhverfismálaumræðunni, sjáum við hér hjá Alta þau tækifæri sem við blasa í samfélaginu, einkum fyrirtækjum og sveitarfélögum. Það hefur verið gaman að fá að taka þátt í umfjöllun Morgunblaðsins. Matthildur K. Elmarsdóttir um skipulagsmál og lýðheilsu, Stefán Freyr Einarsson um vistvænar byggingar, Hulda Steingrímsdóttir um innkaup og sorp og Birna Helgadóttir um vistvæn innkaup og tækifæri. Gaman er að geta þess að í sunnudagsleiðara Morgunblaðsins var einmitt vitnað í orð Birnu, sem bendir á að loftslagsbreytingarnar geta verið mikilvægt tækifæri en ekki ógn, ef við höldum rétt á spöðunum. Sjá nánar á vef mbl.is, greinasafn.

Urriðaholt fær lífsgæðaverðlaun

Rammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ fékk nýlega verðlaun fyrir áherslu á lífsgæði í borgarskipulagi frá alþjóðlegu samtökunum Livcom, The International Awards for Livable Communities. Þetta er mikill heiður fyrir það starf sem unnið hefur verið í tengslum við skipulagsvinnu í Urriðaholtinu og þær áherslur sem þar hafa verið lagðar í skipulagi. Livcom samtökin njóta stuðnings umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og eru virt samtök á þessu sviði (www.livcomawards.com). Samtökin hafa það að markmiði að auka lífsgæði íbúa í borgarsamfélögum, með því að byggja upp lífvæn samfélög (e. liveable communities). Á hverju ári veita samtökin verðlaun þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem þykja skara framúr á þessum sviðum og eru þetta einu samtökin sem veita verðlaun á þessu sviði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel hefur heppnast og getur verið öðrum fordæmi. Urriðaholt fær verðlaun í flokknum “The Environmentally Sustainable Project Awards” en markmið þeirra er að hvetja þróunaraðila til að leggja sömu áherslu á umhverfis og samfélagsuppbyggingu og sveitarfélög gera í sinni vinnu. Urriðaholtið fær verðlaunin vegna áherslna á lífsgæði með fjölbreytni í byggð og byggðablöndun, áherslu á samfélagsumgjörð og samspils byggðar við verndun umhverfis. Verðlaunin eru ennfremur veitt vegna tengsla byggðar og náttúru, aðlaðandi bæjarbrags og umgjarðar um blandaða byggð, þar sem hið byggða umhverfi og náttúra eru tengd saman sem órjúfanleg heild. Markmiðið að skapa áhugavert samfélag, sem öruggt og aðlaðandi er að búa í og býður uppá góða aðstöðu til útivistar. Smelltu hér til að sjá kynningu sem Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ og Halldóra Hreggviðsdóttir, hjá Alta, héldu fyrir dómnefnd, en Halldóra verkstýrði þessu verkefni fyrir hönd Urriðaholts ehf. Rammaskipulag Urriðaholtsins hefur áður fengið verðlaun frá Boston Society of Architects (BSA). Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Það er einnig tekið sem dæmi um árangursrík skipulagsverkefni á Norðurlöndum, í rannsókn á vegum Nordregio, þar sem unnið hefur verið markvisst með landnotkun, samgöngur, byggðamynstur, staðaranda, menningarmál, umhverfismál o.fl. í því skyni að byggja upp samkeppnishæf og sjálfbær samfélög.

Upp