Matsáætlun mislægra vegamóta við Leirvogstungu

Fyrir liggur tillaga að matsáætlun fyrir gerð mislægra vegamóta á Hringvegi við Leirvogstungu/Tungumela í Mosfellsbæ. Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Tillagan, sem unnin er undir verkstjórn Alta ehf. fyrir framkvæmdaraðila sem eru Ístak hf. og Leirvogstunga ehf., var kynnt á vef í tvær vikur frá og með 7. mars 2008 og hefur nú verið send Skipulagsstofnun til formlegrar umfjöllunar. Markmið framkvæmdarinnar er að auka öryggi vegfarenda á vegamótum Hringvegar og tengibrauta við byggð í Leirvogstungu og athafnasvæði á Tungumelum og að tryggja að vegamótin anni þeirri umferð sem væntanleg er frá hinum nýbyggðu hverfum beggja vegna Hringvegar. Í þessari tillögu að matsáætlun er staðsetning fyrirhugaðs framkvæmdarsvæðis og framkvæmdinni lýst. Þá kemur fram yfirlit um hvaða umhverfisþættir eru taldir verða fyrir áhrifum vegna framkvæmdarinnar og hvernig umfjöllun verður háttað í frummatsskýrslu. Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum við tillögu að matsáætlun skulu senda þær til Skipulagsstofnunar fyrir 15. apríl n.k.

Stefnumótun ferðaþjónustu í Grundarfirði

Alta vinnur nú með Grundarfjarðarbæ að stefnumótun í ferðaþjónustu. Af því tilefni var haldinn opinn samráðsfundur með hagsmunaaðilum og áhugafólki um ferðaþjónustu í bæjarfélaginu þann 10. mars sl. í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Markmið fundarins nú var að leiða fram hlutverk Grundfirðinga í ferðaþjónustu og framtíðarsýn á ferðaþjónustu og hlut samfélagsins í henni. Greind voru sóknarfæri fyrir hönd ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar, stillt upp leiðum til að gera framtíðarsýnina að veruleika og reynt að forgangsraða aðgerðum. Góð stemmning var á fundinum og hugur í fólki að efla ferðaþjónustuna enda styðja ferðaþjónusta og uppbygging samfélagsins hvort annað. Líflegar umræður spunnust á fundinum og bættist ríkulega í hugmyndasarpinn. Alta mun vinna úr efni fundarins og verða niðurstöður kynntar síðar. Gert er ráð fyrir að stefnumótunarvinnunni ljúki í apríl. Í febrúar var haldinn sambærilegur fundur með hagsmunaaðilum og áhugafólki um ferðaþjónustu staðarins til að greina stöðu ferðaþjónustunnar. 

Hugmyndasamkeppni um Vatnsmýri lokið

Þann 14. febrúar voru kynntar niðurstöður hugmyndasamkeppni um skipulag í Vatnsmýri. Margar áhugaverðar tillögur komu fram og óhætt að segja að vinningstillögurnar hafi vakið mikla athygli og umræðu, ekki síst tillaga Graeme Massies og félaga sem dómnefnd gerði hæst undir höfði. Tillögurnar má sjá á vef keppninnar, www.vatnsmyri.is. Alta átti verulegan þátt í keppnishaldinu frá upphafi. Skipulags- og byggingasvið Reykjavíkur fól Alta að annast undirbúning keppninnar á vordögum 2005 en þá var nýlega lokið alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um miðbæ Akureyrar sem Alta annaðist einnig og þótti takast afar vel. Verk Alta í tengslum við Vatnsmýrarkeppnina voru einkum á fjórum sviðum:

  • Skipulagning keppninnar í upphafi.
  • Skipulagning og framkvæmd samráðs við almenning og hagsmunaaðila.
  • Keppnislýsing, keppnisgögn og vefur keppninnar. Alta lagði til ritara dómnefndar, sem annaðist ritstjórn framangreindra gagna og skiplagði störf dómnefndarinnar.
  • Aðstoð við kynningu niðurstaðna að lokinni keppni.

Í þessu umfangsmikla verkefni skipti ekki minnstu máli að allir sem að því komu, ekki síst dómnefnd, starfsfólk Skipulags- og byggingasviðs, starfsfólk ráðhúss, trúnaðamaður keppenda - og Alta - áttu afar gott samstarf.

Svanurinn: Mikil tækifæri á Íslandi

Þetta kom fram í rannsókn sem Alta gerði fyrir Umhverfisstofnun í tilefni af norrænum fundi um framtíð umhverfismerkisins Svansins. Fundurinn var haldinn á Hótel Nordica 20. október sl. og hann sóttu 40-50 aðilar frá öllum Norðurlöndunum sem sitja í stjórnum og nefndum á vegum norræna umhverfismerkisins Svansins. Birna Helgadóttir, ráðgjafi hjá Alta, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á fundinum. Rannsókn Alta byggir á viðtölum við fyrirtæki sem hafa Svansleyfi og fyrirtæki sem ekki hafa Svansleyfi.

Lesa meira...

Fjölbrautaskóli Snæfellinga: framsækinn og leiðandi

Grundarfjarðaútibú Alta stýrði á dögunum þremur samráðsfundum fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga, í tengslum við stefnumótun skólans. Á fundunum kom fram að mjög almenn ánægja er með starf Fjölbrautaskóla Snæfellinga, meðal nemenda, starfsfólks, foreldra, sveitarstjórnarfólks og annarra heimamanna. Úttekt sem menntamálaráðuneytið lét gera á starfi skólans þau þrjú ár sem hann hefur starfað, reyndist jákvæð og þar komu jafnframt fram góðar ábendingar um það sem betur má fara. Með svo góða byrjun, stendur skólinn frammi fyrir þeirri spurningu hvernig megi þróa starfið áfram, þannig að hann verði áfram í fremstu röð og þjóni nemendum og samfélagi sínu vel. Ákveðið var að kalla eftir sjónarmiðum bæði innan og utan skólans um það hvernig fólk vill sjá skólann þróast. Þetta var gert með þremur fundum, opnum fundi, fundi með nemendum og loks fundi starfsmanna og skólanefndar.

Lesa meira...

Upp