Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum?

Björg Ágústsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Alta, var meðal frummælenda á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands föstudaginn 16. maí s.l. Ráðstefnan bar yfirskriftina Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum? Fulltrúalýðræði – stjórnmálaflokkar – hagsmunaaðilar – íbúar og markar upphaf þriggja ára þróunar- og rannsóknaverkefnis Sambandsins og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um íbúalýðræði. Erindi Bjargar, Samráð ,,eftir föngum” – Hver er reynslan af íbúaþingum? fjallaði m.a. um reynslu af samráði við íbúa á vettvangi skipulagsmála, en titill erindisins vísar til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Sjá hér glærur með erindi Bjargar

Kuðungurinn til Sólarræstingar

Kuðungurinn - SólarræstingSólarræsting hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, við athöfn í Perlunni á Degi umhverfisins 25. apríl 2008. Við hjá Alta óskum Sólarræstingu innilega til hamingju með verðlaunin. Birna Helgadóttir ásamt fleiri ráðgjöfum hjá Alta vann með Sólarræstingu við uppbyggingu gæða- og umhverfisstjórnunarkerfis sem uppfyllir viðmiðunarreglur Svansins. Sólarræsting er einstaklega vel að þessum verðlaunum komin því að þar hefur tekist að flétta saman umhverfis- og gæðastarf á einkar árangursríkan hátt og samhæfa það daglegu starfi alls starfsfólks. Hefur það skilað sér í bæði umhverfislegum og fjárhagslegum ávinningi m.a. með bættum rekstri og auknum viðskiptum. Formaður dómnefndar sagði við athöfnina m.a. að Sólarræsting hefði með markvissri áherslu á umhverfissjónarmið í starfi sínu og stefnumótun sett glæsilegt fordæmi sem væri öðrum fyrirtækjum til hvatningar og eftirbreytni. Nánar má lesa um Kuðunginn og umsögn dómnefndar hér: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1262 Á myndinni er Daiva (með verðlaunagripinn), Þórsteinn og Birna eftir athöfnina í Perlunni.

Svanurinn kominn á flug!

Svanurinn - sýning í PerlunniÁ sýningunni “Vistvænn lífsstíll” í Perlunni 25. og 26. apríl sl. var m.a. hægt að sjá Svansmerktar vörur í hundraðatali sem fást í verslunum á Íslandi. Þar var m.a. að finna rúm, parket, sláttuvél, hreinlætispappír og hreinsiefni af ýmsu tagi. Umhverfisstofnun stóð að Svanskynningunni og er hún hugsuð sem fyrsta skrefið í átaki um að efla Svaninn á Íslandi. Ráðgjafar Alta aðstoðuðu Umhverfisstofnun við undirbúning sýningarinnar sem fólst m.a. í að kortleggja Svansmerktar vörur á markaðnum og að uppfæra vef Svansins. Hægt er að nálgast lista yfir Svansmerktu vörurnar og að fá frekar upplýsingar um Svaninn á www.svanurinn.is. Umhverfisráðuneytið, Úrvinnslusjóður og SORPA buðu til sýningarinnar þar sem um 25 fyrirtæki, félög og stofnanir kynntu starfsemi sína. Markmiðið með sýningunni var að skapa vettvang þar sem almenningur fær tækifæri til þess að kynna sér það sem í boði er á þessum markaði.

Norðurþing mótar framtíðarsýn

Norðurþing - aðalskipulagNorðurþing hefur ákveðið að vinna nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Búsetuþróun á svæðinu, nýting og verndun náttúruauðlinda og áform um álver kalla á að Norðurþing móti sér framtíðarsýn og setji niður stefnu um byggðaþróun og landnotkun. Í aðalskipulagsvinnunni verður lögð sérstök áhersla á að marka stefnu um miðbæ Húsavíkur þannig að uppbyggingu hans verði með stýrt í átt að skýrri heildarsýn á þennan kjarna sveitarfélagsins. Einnig verður lögð áhersla á greiningu og stefnumörkun um landslag, í ljósi fjölbreytni þess, verðmætis og þýðingar fyrir búsetuskilyrði og ferðaþjónustu í Norðurþingi. „Í þessari vinnu viljum við skerpa einkenni og ímynd Norðurþings og leita leiða til að nýta betur þau tækifæri sem hér felast í náttúru og samfélagi. Við sjáum þessa stefnumörkun sem mikilvægan þátt til að efla sveitarfélagið, ekki síst í atvinnumálum“, segir Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings. Aðalskipulag er lykilþáttur í markvissri þróun hvers sveitarfélags og sveitarstjórnarmenn gera sér æ betur grein fyrir mikilvægi þess. Ennfremur er vaxandi áhuga og skilningur íbúa og fyrirtækja á skipulagsmálum og æ oftar kallað eftir skýrri stefnu um framtíðarþróun sveitarfélags. Norðurþing hefur samið við ráðgjafarfyrirtækið Alta um gerð aðalskipulagsins og væntir mikils af því samstarfi, þar sem Alta hefur m.a. sérhæft sig í stefnumörkun í aðalskipulagi. Vinna við aðalskipulagið er þegar hafin en gert er ráð fyrir því að henni ljúki í lok árs 2009. Á myndinni eru Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings og Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta við undirritun samnings um aðalskipulagsgerð fyrir Norðurþing.

Skipulag snýst um lífsgæði

Texti greinar eftir Halldóru Hreggviðsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2008. Við gerum skilyrðislausa kröfu um að veggir heimilisins séu því falleg umgjörð. Krafan er hinsvegar ekki eins skýr þegar við komum út á götu og rýmið er skilgreint af útveggjum nálægra húsa. Samt er götumyndin hluti af heimili okkar og við sækjumst eftir að heimsækja staði þar sem bæjarbragurinn er hlýlegur og húsin mynda skjólsæl rými. Alltof oft byggjum við einsleit hverfi með dreifð stakstæð hús og byggingar sem beina vindstrengjum á milli þeirra, þannig að umhverfið verður óaðlaðandi. Skipulag er fyrirhyggja Skipulagsmál hafa víðtækari áhrif á umhverfi okkar en við gerum okkur oft grein fyrir. Hvernig að þeim er staðið hefur áhrif á rýmismyndun, samfélagsgerð, verðmæti lands, nýtingu auðlinda og lýðheilsu. Viðfangsefnið er að skapa áhugaverð, fjölbreytt og eftirminnileg svæði fyrir alla aldurshópa og tækifæri fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Þess vegna er skipulag mikilvægt á öllum stigum, þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag, rammaskipulag og deiliskipulag, þó mælikvarðinn sé ólíkur. Þegar vel tekst til upplifum við góðan staðaranda, vellíðan, væntumþykju og virðingu fyrir umhverfinu. Þegar fyrst var farið að huga að skipulagsmálum á Íslandi var það ekki síst út frá sjónarhóli lýðheilsu, með áherslu á sólríkar íbúðir með skjólsælum görðum. Vandað umhverfi í blandaðri, þéttri byggð er vel til þess fallið að íbúar kynnist hverjir öðrum og treysti nágrönnum sínum – þetta er núna kallað félagsauður. Áður var það orðað svo að maður væri manns gaman. Gæðaumhverfi í þéttbýli byggir á vel ígrunduðu skipulagi, þar sem húsagerðir eru fjölbreytilegar og þess gætt að raða húsum þannig niður með tilliti til veðurfars að umgjörð bygginga myndi skjólsæl og sólrík svæði. Byggðin þarf að vera blönduð og nægilega þétt til að verslun og þjónusta geti þrifist í göngufæri. Áherslan er á að skapa umgjörð um mannlíf og samfélag, eftirminnileg svæði með sérstöðu sem byggir á tækifærum í nærumhverfinu. Umhverfi byggt á skipulagi með stuttum vegalengdum á milli heimilis, verslana, þjónustu og vinnustaða býður upp á aðlaðandi aðstæður til göngu og hjólreiða og stuðlar þannig að bættri heilsu okkar. Hreyfing verður eðlilegur hluti daglegs lífs. Almenningssamgöngur verða líka hagkvæmari og nýting umferðarmannvirkja góð, þar sem umferð verður dreifðari um gatnakerfið. Gróður í byggð og góðar tengingar við náttúruna eru líka endurnærandi – styrkja líkama og sál. Blöndun gamalla bygginga og nýrra og varðveisla götumynda, skiptir einnig máli fyrir vellíðan okkar og sjálfsmynd. Þannig þekkjum við og skiljum hvar rætur okkar liggja. Skipulag hefur því áhrif bæði á líkamlega og andlega lýðheilsu. Á aðalskipulags- og svæðisskipulagsstigi taka sveitarfélög ákvarðanir sem tengjast undirstöðum samfélagsins, byggðaþróun og sjálfbærni. Þar er landnotkun ákveðin og hvernig skuli háttað orkuöflun eða samgöngum um og á milli sveitarfélaga. Viðfangsefnin eru fjölmörg. Hvar og hvernig er hagkvæmast að byggja upp þéttbýli? Höfum við staðið vörð um nægt landbúnaðarland og getu t.a. framleiða matvæli, um landslagsheildir og náttúruverndarsvæði? Á að heimila sumarhúsabyggð hvar sem er eða þarf að setja henni skorður? Gott skipulag skapar verðmæti til langs tíma Okkur finnst framtíðin mjög fjarlæg en fortíðin undarlega nálæg. Í skipulagsmálum þurfum við að vera skynsöm eftirá – fyrirfram. Við þurfum að horfa vítt og til langs tíma, greina tækifæri, meginlínur og heildarmynd. Í skipulagi þarf að skapa sýn sem margir fylla inní á löngum tíma. Sú sýn þarf að byggja á sérstöðu og þörfum hvers samfélags, en þarf jafnframt að geta tekist á við hið óvænta sem framtíðin ber í skauti sér. Vel unnið og ígrundað skipulag getur lagt grunn að aðlaðandi umhverfi, sem getur byggst hratt þegar byr er í seglunum, en heldur áfram að laða að fólk og vera traustur grunnur til íbúðar og fyrir hvers kyns atvinnustarfsemi þegar harðnar á dalnum. Þannig getur vandað byggt umhverfi verið varanleg innistæða sem góðæri skilur eftir. Víða erlendis er það reynsla sveitarfélaga sem hafa viljað snúa vörn í sókn, að ein áhrifaríkasta leiðin til að styrkja stoðir samfélags og ímynd, sé að skapa áhugaverða umgjörð fyrir fjölbreytt mannlíf og viðskipti. Mótun vandaðrar umgjarðar á forsendum lífsgæða hafi skipt sköpum fyrir jákvæða þróun samfélags. Rök hafa líka verið færð fyrir því, að vandað byggt umhverfi sé uppspretta hugmynda og tækifæra á sviði menningar, lista og viðskipta. Það gefi af sér heilbrigt atvinnulíf og nýsköpun, því þar vilji skapandi fólk búa. Mikilvægt er að hafa í huga að skipulagsmálin sem við fáumst við núna er sú fyrirhyggja sem barnabörnin ætlast til af okkur....

Upp