top of page

Urriðaholt fær lífsgæðaverðlaunRammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ fékk nýlega verðlaun fyrir áherslu á lífsgæði í borgarskipulagi frá alþjóðlegu samtökunum Livcom, The International Awards for Livable Communities. Þetta er mikill heiður fyrir það starf sem unnið hefur verið í tengslum við skipulagsvinnu í Urriðaholtinu og þær áherslur sem þar hafa verið lagðar í skipulagi. Livcom samtökin njóta stuðnings umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og eru virt samtök á þessu sviði (www.livcomawards.com). Samtökin hafa það að markmiði að auka lífsgæði íbúa í borgarsamfélögum, með því að byggja upp lífvæn samfélög (e. liveable communities). Á hverju ári veita samtökin verðlaun þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem þykja skara framúr á þessum sviðum og eru þetta einu samtökin sem veita verðlaun á þessu sviði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel hefur heppnast og getur verið öðrum fordæmi. Urriðaholt fær verðlaun í flokknum “The Environmentally Sustainable Project Awards” en markmið þeirra er að hvetja þróunaraðila til að leggja sömu áherslu á umhverfis og samfélagsuppbyggingu og sveitarfélög gera í sinni vinnu.

Urriðaholtið fær verðlaunin vegna áherslna á lífsgæði með fjölbreytni í byggð og byggðablöndun, áherslu á samfélagsumgjörð og samspils byggðar við verndun umhverfis. Verðlaunin eru ennfremur veitt vegna tengsla byggðar og náttúru, aðlaðandi bæjarbrags og umgjarðar um blandaða byggð, þar sem hið byggða umhverfi og náttúra eru tengd saman sem órjúfanleg heild. Markmiðið að skapa áhugavert samfélag, sem öruggt og aðlaðandi er að búa í og býður uppá góða aðstöðu til útivistar. Halldóra Hreggviðsdóttir verkstýrði þessu verkefni fyrir hönd Urriðaholts ehf. Rammaskipulag Urriðaholtsins hefur áður fengið verðlaun frá Boston Society of Architects (BSA).

Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Það er einnig tekið sem dæmi um árangursrík skipulagsverkefni á Norðurlöndum, í rannsókn á vegum Nordregio, þar sem unnið hefur verið markvisst með landnotkun, samgöngur, byggðamynstur, staðaranda, menningarmál, umhverfismál o.fl. í því skyni að byggja upp samkeppnishæf og sjálfbær samfélög.

bottom of page