top of page

Fjölbrautaskóli Snæfellinga: framsækinn og leiðandi


Grundarfjarðaútibú Alta stýrði á dögunum þremur samráðsfundum fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga, í tengslum við stefnumótun skólans. Á fundunum kom fram að mjög almenn ánægja er með starf Fjölbrautaskóla Snæfellinga, meðal nemenda, starfsfólks, foreldra, sveitarstjórnarfólks og annarra heimamanna. Úttekt sem menntamálaráðuneytið lét gera á starfi skólans þau þrjú ár sem hann hefur starfað, reyndist jákvæð og þar komu jafnframt fram góðar ábendingar um það sem betur má fara. Með svo góða byrjun, stendur skólinn frammi fyrir þeirri spurningu hvernig megi þróa starfið áfram, þannig að hann verði áfram í fremstu röð og þjóni nemendum og samfélagi sínu vel. Ákveðið var að kalla eftir sjónarmiðum bæði innan og utan skólans um það hvernig fólk vill sjá skólann þróast. Þetta var gert með þremur fundum, opnum fundi, fundi með nemendum og loks fundi starfsmanna og skólanefndar.


Á fundunum komu fram mjög samhljóða skilaboð um það að skólinn hefur sannað tilvist sína sem góður framhaldsskóli með metnað og framsýni að leiðarljósi. Hann hefur haft jákvæð áhrif á byggðaþróun á Snæfellsnesi og aukið milli byggðarlaga. Meðal þess sem nemendur eru stoltir af, er félagslífið, sem þau telja vera gott miðað við stærð skólans, fjölda nemenda og aldur nemendafélags. Þau nefndu líka sérstaklega góðan anda í skólanum, að allir séu jafnir og þar ríki traust. Svo notuð séu þeirra eigin orð: ,,Þetta er einstakur skóli. Það er enginn annar skóli eins og hann á landinu!" Varðandi framtíðarþróun skólans skiptir mestu, að hann haldi áfram að vera framsækinn og leiðandi og samfélögin sem að honum standa veiti starfinu gott bakland. Skólinn þurfi að halda sérstöðu sinni og vera eftirsóknarverður fyrir nemendur. Í því skyni þurfi að leggja áherslu á endurmenntun og þróunarstarf og vera í takt við tíma og tækni. Fjölmörg tækifæri felast í meiri tengingu út í samfélögin á Snæfellsnesi, ekki síst við atvinnulíf. Það kunni að vera lykillinn að því að auka verknám við skólann, sem kallað hefur verið eftir. Að mati starfsfólks stendur skólinn frammi fyrir þeirri áskorun að stækka sem skóli, sem heldur stöðugt áfram að þróast – án þess endilega að nemendum á staðnum fjölgi. Þetta megi gera með auknu vægi dreifnáms, fullorðinsfræðslu og samstarfi við atvinnulífið. Huga þurfi að þróun nýrrar námsbrautar þar sem umhverfi, atvinnulíf og þekking á svæðinu er nýtt. Skilyrði starfsfólks til þróunar og endurmenntunar þurfi að vera góð. Miklu skipti að halda sérstöðu skólans. Að mati nemenda þarf að bæta ýmsa aðstöðu, s.s. til náms og íþróttaiðkunar og fjölga rútuferðum. Félagslíf bæði innan skólans og á stöðunum þurfi að vera gott, auka þurfi fjölbreytni í námsframboði og rækta áframhaldandi samstöðu á milli nemenda. Eins og það var orðað á fundi nemenda felst verkefnið í því að ,,...gæta þess að þótt við séum að standa okkur vel megum við ekki slaka á heldur verðum við að halda áfram að bæta okkur!". Sjá samantekt hér. Nú munu skólastjórnendur vinna frekar úr efniviðnum inn í stefnu skólans, skólanámskrá og annað þróunarstarf.


bottom of page