Bæjarstjórn Grindavíkur hélt nýlega opinn kynningarfund þar sem drög að skipulagsstefnu um miðkjarna Grindavíkur voru kynnt. Alta hefur í samvinnu við skipulagsnefnd Grindavíkur mótað skipulagsstefnuna og er verkefnið framhald hugmyndsmiðju íbúa sem Alta sá um fyrir Grindavíkurbæ síðastliðið haust.
Til viðbótar við áherslur íbúa byggir skipulagsstefna um miðkjarna Grindavíkur á bæjargreiningu skipulagssérfræðinga Alta. Í stefnunni eru settar fram áherslur um uppbyggingu miðbæjarins og tenginu hans við hafnarsvæðið. Sérstök áhersla er lögð á göturými og að þau séu nýtt til að ljá bænum bættan brag og styrkja umhverfi þeirra sem ekki fara um akandi. Skipulagsstefnunni er ætlað að leggja þeim línur sem vinna deiliskipulagstillögur eða útfæra framkvæmdir innan svæðisins. Stefnan brúar því bil á milli aðalskipulags Grindvíkur og þeirra framkvæmdaáætlana sem snerta hjarta bæjarins.
Á kynningarfundinum var gerður góður rómur að skipulagsdrögunum sem nú eru til meðferðar hjá bæjarstjórn Grindavíkur.
Skýrsluna má sækja hér.