top of page

Brú milli landshlutaÞrjú sveitarfélög, á mörkum tveggja landshluta, virkja samtakamáttinn.

Sveitarfélögin Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð hafa tekið höndum saman um að vinna að svæðisskipulagsáætlun og ráðið Alta til ráðgjafar við það verk. Sveitarfélögin hafa um árabil haft með sér samstarf af margvíslegum toga en samgöngubætur um Arnkötludal hafa styrkt svæðið betur sem heild og skapað tækifæri til enn frekari samvinnu, sem skilað getur byggðunum meiri árangri en ella.

Svæðisskipulagið verður nýtt sem verkfæri til að stilla saman strengi í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfis- og skipulagsmálum. Við mótun þess verður lögð áhersla á að draga upp mynd af auðlindum til sjávar og sveita og sérkennum í landslagi, sögu og menningu. Það er gert til að styrkja ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess gagnvart ferðamönnum, nýjum íbúum, fyrirtækjum og fjárfestum. Á grunni þeirrar myndar verður mörkuð stefna sem skilgreinir sameiginlegar áherslur og tækifæri sveitarfélaganna í atvinnu-, samfélags- og umhverfismálum og síðan skipulagsstefna sem styður við þær áherslur. Svæðisskipulagið myndar einnig ramma fyrir aðalskipulag hvers sveitarfélags og einfaldar vinnslu þess.

Á kynningarvef um verkefnið er hægt að lesa nánar um áætlunargerðina og þar verður hægt að fylgjast með framgangi hennar og nálgast ýmsar upplýsingar um svæðið. Lögð er áhersla á að nýta tiltæk landfræðileg gögn og birta á kortum til þess að fá þá heildarmynd sem nauðsynleg er. Þar kemur auðlindabanki ferðaþjónustunnar t.d. að góðum notum en einnig aðrir gagnagrunnar. Kortin verða birt jafnóðum, íbúum til fróðleiks og til nota fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum, s.s. til vöruþróunar og markaðssetningar og sem kveikjur að nýjum verkefnum og fyrirtækjum.

bottom of page