Það eru til fjölmörg góð dæmi um samráð við almenning í skipulagsverkefnum. Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, sagði frá nokkrum slíkum í málstofu Vistbyggðarráðs á Fundi fólksins föstudaginn 8. september sl. Fundur fólksins er árlegur viðburður haldinn á vegum Almannaheilla - samtaka þriðja geirans á Íslandi. Fundinum er ætlað að gefa almenningi kost á að hlusta á og taka þátt í umræðu um málefni líðandi stundar. Á fundinum, sem var haldinn á Akureyri í þetta sinn, stóðu félagasamtök, stjórnmálaflokkar og stofnanir fyrir málstofum og uppákomum. Í málstofu Vistbyggðarráðs var fjallað um umhverfismál og samráð við íbúa þegar kemur að skipulagi þéttbýlis. Í framsögu sinni í málstofunni benti Matthildur á ýmsar aðferðir sem beita má við samráð í skipulagsvinnu. Hún lagði m.a. áherslu á mikilvægi góðs undirbúnings, skýrra markmiða með hverjum samráðsviðburði og að beitt sé fjölbreyttum aðferðum til að ná til sem flestra. Einnig sagði hún mikilvægt að draga skilaboð úr samráði vel saman og kynna þau eða gera aðgengileg svo þátttakendur geti séð afraksturinn. Þá minnti hún á mikilvægi þess að veita reglubundnar upplýsingar um skipulagsverkefni, t.d. á verkefnisvef eða samfélagsmiðlum, svo almenningur geti fylgst með framganginum frá upphafi til loka verkefnis.
Myndir af Fundi fólksins á Akureyri má finna á Facebook.