Á Vísindadegi OR í Hörpu 4. apríl síðastliðinn, sagði Hildur Kristjánsdóttir hjá Alta frá samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Veitna um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna. Erindið, sem bar nafnið "Regn í Reykjavík" má sjá hér fyrir neðan (ath. að brunakerfi Hörpu fór í gang í miðjum fyrirlestri, svo gert var hlé).
Verkefnið er bylting í meðferð ofanvatns í Reykjavík en við hjá Alta höfum aðstoðað borgina og Veitur við innleiðinguna í gegnum ferli frá skipulagi, hönnun og framkvæmda yfir í rekstur og viðhald.
Spennandi möguleikar skapast við að flétta þær blágrænu inní borgarlandslagið - það grænkar og blánar, með meiri gróðri og vatni. Samhliða eykst líffræðileg fjölbreytni borgarinnar og viðnámsþol til að takast á við loftslagsbreytingar.
Ávinningur blágrænna ofanvatnslausna er margþættur. Auk þess að milda umhverfisáhrif byggðarinnar og fegra borgina má nefna betri stýringu á vatnsmagni, minnkaða flóðahættu, aukin vatnsgæði og minni mengun. Einnig lækkar kostnaður við meðferð ofanvatns, álag á núverandi fráveitukerfi minnkar og fé er varið í landslagsmótun í stað röra.