- eitt stærsta nýja uppbyggingarlandið á höfuðborgarsvæðinu.
Alta sá um gerð rammahluta aðalskipulags Mosfellsbæjar fyrir Blikastaðaland sem var auglýstur nýlega samhliða endurskoðun á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2022-2040. Blikastaðaland er um 98 hektara landsvæði á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, undir Úlfarsfelli, þar sem nýr bæjarhluti fyrir um 3.500 - 3.700 íbúðir mun rísa. Blikastaðaland er stórt og mun byggjast upp í áföngum á löngum tíma. Mikilvægt er því að hvert hverfi geti staðið sjálfstætt og miðar skipulag gatnakerfis, grænna geira og byggðarreita að því.
Í rammahlutanum er farið yfir helstu fosendur sem skipulag Blikastaðalands þarf að byggja á sem og meginmarkmið og megindrætti skipulagstillögunnar. Rammahlutanum er ætlað að lýsa heildstæðri framtíðarsýn á skipulag þessa nýja bæjarhluta sem er grunnur að frekari skipulagsvinnu og áætlanagerð fyrir uppbyggingu.
Hverfi aðskilin með grænum geirum
Í skipulagstillögunni er lögð megináhersla á að nýta þau gæði sem felast í landslagsumgjörð svæðisins og skapa nýtt landslag sem rímar vel við sérkenni Mosfellsbæjar sem náttúruríks bæjar með fjölbreytta útivistarmöguleika. Þetta er gert með því skipuleggja græna geira á milli Úlfarsfells og strandar sem tryggja aðgengi að útivistarsvæðum í kring, um leið og skapast nýir útivistarkostir innan svæðisins.
Grænu geirarnir skipta svæðinu upp í fimm einingar sem hver fyrir sig getur myndað eitt hverfi, samsett úr fjölbreyttum húsagerðum, grænum svæðum og þjónustustarfsemi. Stærsti geirinn er staðsettur eftir núverandi farvegi Skálatúnslækjar og gefur kost á að hann taki við ofanvatni.
Með geirunum skapast tækifæri til að staðsetja fjölda húsa meðfram grænum svæðum, sem gerir þau eftirsóknarverð til búsetu.
Blikastaðabærinn nýtt kennileiti og áfangastaður
Borgarlína í sérrými með hjóla- og göngustíg mun liggja í gegnum svæðið endilangt með tveimur stöðvum þar sem verða bæjarkjarnar með helstu nærþjónustu. Gamli Blikastaðabærinn verður áfram mikilvægt kennileiti og nýr áfangastaður fyrir íbúa í bæjarhlutanum jafnt sem aðra íbúa Mosfellsbæjar. Með staðsetningu Borgarlínustöðvar og þjónustukjarna í grennd við Blikastaðabæinn skapast möguleikar fyrir sterkt hjarta samfélagsins sem laðar að gesti. Gert er ráð fyrir tveimur grunnskólum á Blikastaðalandi og að þeir verði staðsettir í grennd við miðkjarna til að stuðla að sterkum kjörnum og tryggja gott aðgengi milli þeirra og Borgarlínu.
Umhverfis Blikastaðabæinn verður aðalkjarninn með þjónustu, verslun og afþreyingu.
Bæjarhluti með sterka bæjarmynd
Gengið er út frá þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit.
Bærinn nær til fjölbýlishúsa næst Borgarlínu með þéttleika sem tryggir grundvöll almenningssamgangna og verslunar- og þjónustu.
Þorpið er með smærri fjölbýli í bland við sérbýli í par- og raðhúsum á völdum reitum ofan og neðan línunnar.
Sveitin er svo neðst á svæðinu þar sem verða sérbýli af fjölbreyttri stærð og gerð.
Hæð húsa fer stigvaxandi frá Úlfarsá í átt að Vesturlandsvegi sem gerir það að verkum að sjávarútsýnið er nýtt sem best.
Bærinn - fjölbýlishús í nálægð við borgarlínu í þéttu og gönguvænu umhverfi.
Þorpið - smærri fjölbýli í bland við sérbýli í par- og raðhúsum í fjölskylduvænu hverfi.
Sveitin - sérbýli af fjölbreyttri stærð og gerð í sterkum tengslum við Úlfarsá.
Comments