Skipulagsáherslur fyrir heilsuvæna byggð var yfirskrift erindis sem Matthildur Kr. Elmarsdóttir flutti á morgunfundi Skipulagsstofnunar í morgun. Fundurinn fjallaði um skipulag og lýðheilsu í samhengi við mótun landsskipulagsstefnu og var hann haldinn í samvinnu við embætti landlæknis.
Matthildur fjallaði um hvernig við getum mótað byggða umhverfið á þann hátt að það styðji við allar hliðar heilsu - þá andlegu, líklamlegu og félagslegu. Sérstaklega dró hún fram mikilvægi þess að hvetja til hreyfingar í daglegu lífi. Mótun hverfa er lykilviðfangsefni í þessu tilliti, enda það umhverfi sem við lifum og hrærumst í dags daglega. Einnig lagði hún áherslu á mikilvægi þess að búa almenningsrými vel úr garði og auka gróður í götum. Matthildur benti í niðurstöðuhluta erindisins sérstaklega á tvennt sem mögulega mætti leggja áherslu á í Landsskipulagsstefnu hvað varðar lýðheilsumál:
Í fyrsta lagi að bæta gönguhæfi þéttbýlis, sem snýst um að búa sem best um gangandi vegfarendur sem aftur nýtist einnig öðrum virkum fararmátum. Þar skiptir máli að skipuleggja ása og kjarna fyrir þjónustu innan hverfis eða bæjar og tryggja öryggi og skjól fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Einnig að skipuleggja fyrir skynfærin svo sem með því að vinna með list og árstíðirnar.
Í öðru lagi að lögð verði áhersla á skipulagsáherslur sem slá margar flugur í einu höggi. Þar er átt við áherslur sem styðja samtímis við öll þrjú viðfangsefni landskipulagsstefnu að þessu sinni; lýðheilsu og loftslagsmál og landslag. Dæmi um slíkar skipulagsáherslur eru grænar götur, skógrækt í og við þéttbýli og umhverfismótun á grunni sérkenna hvers staðar sem stundum er kallaður staðarandi.
Glærurnar úr erindu má sjá hér.
Matthildur var einnig gestur í þættinum Samfélagið á Rás 1 sl. miðvikudag þar sem hún spjallaði um þessi mál við þáttarstjórnendur.
Önnur erindi á morgunfundi Skipulagsstofnunar voru frá Thor Aspelund, prófessor í tölfræði við HÍ sem fjallaði um lífsstílstengda sjúkdóma, Gígju Gunnarsdóttur, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis sem flutti erindi um Heilsueflandi samfélag og að lokum frá Pétri Inga Haraldssyni, sviðsstjóra skipulagssviðs Akureyrarbæjar sem sagði frá lýðheilsutengdum verkefnum í skipulagi Akureyrarbæjar. Öll erindi fundarins drógu fram mikilvægi þess að beina athygli að öllum hliðum heilsu og fjölbreyttum aðferðum til að stuðla að bættri lýðheilsu.
Comments