Nýtt aðalskipulag fyrir Reykhólahrepp tók gildi vorið 2023 en það byggir m.a. á þeim ramma sem lagður var í svæðisskipulagi Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar sem staðfest var árið 2018. Í aðalskipulaginu er, í anda svæðisskipulagsins, sett fram sú sýn að í Reykhólahreppi byggi atvinnulíf á auðlindum og sérkennum í náttúru, landslagi, menningu og sögu sveitarfélagsins og að samspil mannvirkja og landslags skapi sterkan staðaranda.
Til að vinna að þessari framtíðarsýn eru sett fram markmið fyrir viðfangsefni aðalskipulagsins sem flokkast undir búsetu og byggðarmynstur, vistkerfi og auðlindir, atvinnustarfsemi, samfélagsþjónustu og menningarlíf, landslag, minjar og lífríki, útivist og afþreyingu, samgöngur, veitukerfi og náttúruvá.
Markmiðin eru svo útfærð með skipulagsákvæðum fyrir svæði út frá þeim landnotkunarflokkum sem skilgreindir eru í skipulagsreglugerð. Ákvæðin eru sett fram sem almennir skilmálar fyrir hvern landnotkunarflokk og/eða sem sértækir skilmálar um einstök svæði.
Alta óskar Reykhólahreppi til hamingju með aðalskipulagið og velfarnaðar við framfylgd þess!
Comments