top of page

Sóknarfæri í staðarandanum



„Innviðir, ímynd og sóknarfæri“ og hvernig nýta má staðarandann til að styrkja m.a. atvinnugreinar og samfélög, var viðfangsefni ráðstefnu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og Landbúnaðarháskóla Íslands sem haldin var 4. maí á Hvanneyri.

Í staðaranda felast verðmæti sem nýtast atvinnugreinum og samfélögum á margvíslegan hátt. Til að nýta þau verðmæti er mikilvægt að kunna skil á staðarandanum, geta lýst honum og miðlað með fjölbreyttum, en - að einhverju leyti - samræmdum hætti. Jafnframt þarf að haga ákvörðunum á svæðum með þeim hætti að þær styrki staðarandann, en rýri hann ekki.

Fyrirlesarar komu frá háskólum, ríkisstofnun, landshlutasamtökum, ferðaþjónustufyrirtæki, frumkvöðlafyrirtæki, fjölmiðli og svo voru þær Björg Ágústsdóttir og Matthildur Kr. Elmarsdóttir frá Alta, sjá um innlegg þeirra og annarra fyrirlesara hér fyrir neðan.

Staðarandi er hugtak sem hefur verið notað til að lýsa tilfinningum fólks eða áhrifum sem það verður fyrir á stað eða svæði. Þau áhrif stafa bæði frá umhverfinu og mannfólkinu. Því sterkari sem upplifunin er, því skýrari verður mynd staðarins í huga okkar og þar með ímynd hans. Því jákvæðari sem upplifunin er, því líklegra er að við viljum heimsækja staðinn aftur. Í staðarandanum felast því verðmæti og til að nýta þau er mikilvægt að geta lýst honum og miðlað með fjölbreyttum, en - að einhverju leyti - samræmdum hætti. Tækfærin sem liggja í staðaranda svæða eru ekki bara á sviði ferðaþjónustu heldur má einnig nýta verðmætin í staðarandanum á öðrum sviðum, eins og í vöruþróun og markaðssetningu á matvælum og handverki. Sterkur staðarandi getur líka laðað að nýja íbúa. Þetta var umfjöllunarefni ráðstefnunnar.

Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga setti ráðstefnuna og ræddi m.a. tengsl staðaranda við sjálfsmynd samfélags og mikilvægi þess að íbúar finni staðarandann í sjálfum sér. Einnig að hagnýting staðarandans sé eitt af tækifærunum sem sveitarfélög geti horft til í stöðugri viðleitni sinni til að styrkja samfélög sín.


Helena Guttormsdóttir brautarstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands benti á að landsbyggðin ​

​hefði margt það sem þætti eftirsóknarvert í lífsstíl samtímans, sbr. það sem fólk birtir á samfélagsmiðlum og að í því fælust sóknarfæri. Edda Ívarsdóttir kennari við Landbúnaðarháskólann fjallaði um hvernig landslagshönnun getur tekið mið af staðaranda, s.s. með formum, efnisvali, litum og áferð.

Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Alta sagði frá því hvernig unnið var með staðaranda við gerð svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes, en Alta aðstoðaði Snæfellinga við skipulagsgerðina og við stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness sem m.a. er ætlað að fylgja eftir markmiðum og verkefnum svæðisskipulagsins. Björg útskýrði tilgang og ferli svæðisskipulagsins, sem væri í reynd áætlun um þróun svæðisins og byggði á sérkennum þess, þ.m.t. staðaranda. Farin var sú leið að greina sérkenni svæðisins og tækifærin sem í þeim felast og byggja stefnu svæðisskipulagsins á því. Framfylgd þeirrar stefnu miðar að því að byggja “Snæfellsnes” upp sem sterkt mark eða “brand”.


Matthildur Kr. Elmarsdóttir ráðgjafi hjá Alta tók upp þann þráð og fjallaði um mörkun svæða (e. regional branding) í samhengi við áætlanagerð um byggðaþróun. Hún útskýrði hugtökin mark (e. brand) og mörkun (e. branding) og fjallaði um mikilvægi þess að greina sjálfsmynd samfélags og ímynd svæðis sem grunn að mótun marks. Þannig sé tryggt að markið endurspegli sýn íbúa á sitt svæði sem er nauðsynlegt til að það þjóni tilgangi sínum. Hún fór jafnframt yfir hvernig áætlun um þróun svæðis getur miðað að því að byggja upp sterkt mark og hvaða ávinningur getur verið af því.

Í kynningu Vífils Karlssonar hagfræðings hjá SSV kom fram að kenningar um vaxtarskilyrði landsvæða horfi ekki lengur einungis til hagrænna þátta og hve mikilvægir þeir séu, t.d. fyrirtæki og vinnumarkaður, heldur einnig til huglægra þátta eins og staðargæða, sögu, hefða og viðhorfs íbúa.

Daði Guðjónsson verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu fjallaði um kynningu á Íslandi sem áfangastað þar sem leitast hefur verið við að draga fram „staðaranda landsins“. Hann benti á mikilvægi þess að svæði drægju fram sínar sögur og ákvæðu hvernig þær yrðu sagðar, hver segði þær og hverjum.

Sævar Freyr Sigurðsson framkvæmdastjóri Saga Travel kynnti nálgun fyrirtækisins við mótun á ferðavörum sínum, sem allar byggja á náttúru- og menningarauði hvers svæðis. Hann sagði mikilvægt að ferðaaðilar innan hvers svæðis ynnu saman og að litið væri til tækifæra sem fælust í manngerðum viðkomustöðum sem hafa há þolmörk, þ.e. geta tekið við mörgum gestum. Sem dæmi nefndi hann mjólkurbú, virkjanir, miðbæi, hafnarsvæði, kirkjur, bóndabæi og vinnustofur ýmiskonar.

Brynjar Þór Þorsteinsson aðjúnkt við Háskólann á Bifröst fjallaði um stefnumótun og mörkun svæða og fór í gegnum helstu skrefin við að marka svæði, þ.e. greiningu markaðsumhverfis og síðan markaðslega stefnumótun.

Bryndís Geirsdóttir frumkvöðull frá Búdrýgindum fjallaði um mikilvægi þess að vinna með sögulegt samhengi og að passa upp á inntak við vöruþróun og markaðssetningu.

Að lokum fjallaði Gísli Einarsson fréttamaður á RÚV um ímynd Vesturlands sem hann taldi ekki eins skýra og t.d. ímynd Vestfjarða. Hann benti á að ímynd er ekki alltaf rétt og að margt mótar hana, þ.m.t. sjónvarpsþættir og fjölmiðlaumfjöllun. Hann sagði mikilvægt að reyna ekki að fara í föt sem maður passar ekki í og að í sumum tilvikum geti margar ímyndir átt við.

bottom of page