Starfsfólk
Við höfum fjölbreyttan bakgrunn og reynslu, jafnt í námi sem starfi.
Hjá okkur starfa skipulagsfræðingar, landfræðingar, arkitektar og verkfræðingar sem hafa löggildingu ráðherra í starfsgrein sinni skv. lögum nr. 8/1996 og eru á lista Skipulagsstofnunar yfir skipulagsráðgjafa. Við byggjum því á góðum grunni í glímu við verkefni sem krefjast góðrar yfirsýnar, frumlegrar nálgunar og fagmennsku.
Við viljum vita af góðu fólki sem hefur áhuga á að ganga til liðs við okkur. Ef þú vilt að við vitum af þér, sendu þá ferilskrá og aðrar upplýsingar sem máli skipta á starf@alta.is.
ÁRNI GEIRSSON
Ráðgjafi
Árni er skipulagsráðgjafi. Hann lauk doktorsprófi í vélaverkfræði frá Stanford háskóla árið 1990. Síðan þá hafa verkefni Árna verið mjög margvísleg, þ.m.t. þróun vara og hugbúnaðar, vélahönnun, tölfræðileg greining, vefsmíðar, mat og samval á verðbréfum og fjárfestingakostum, greining verðflökts á fjármálamörkuðum, gerð einkaleyfisumsókna og stjórnun í sprotafyrirtæki. Árni hefur einnig heimild til að starfa sem skipulagsráðgjafi skv. skipulagslögum.
Árni er stofnandi Alta og hefur starfað þar síðan 2003. Hann hefur einkum sinnt verkefnum sem snúa að skipulagsmálum og stefnumótun, þ.á.m. gerð skipulagsáætlana fyrir sveitarfélög, stjórnunaráætlana fyrir þjóðgarða og leitt gerð nokkurra aðalskipulagsáætlana sveitarfélaga. Árni hefur aðstoðað við samráð og margar skipulagssamkeppnir s.s. fyrir miðbæ Akureyrar, skipulag Vatnsmýrar fyrir Reykjavíkurborg og skipulag Keldnalands fyrir Betri samgöngur; einnig ráðgjöf við skipulagningu hönnunarsamkeppni fyrir Fossvogsbrú.
Árni hefur sérþekkingu á landupplýsingakerfum og forritun og nýtir þessa þekkingu við greiningu á margvíslegum viðfangsefnum sem tengjast skipulagi byggðar og landnotkunar. Hann hefur m.a. þróað landfræðilegt reiknilíkan fyrir þéttleikagreiningu í byggðu umhverfi á grunni skipulagshugmynda, sem notað hefur verið í öllum helstu rammaskipulagsverkefnum Alta undanfarin ár. Árni hefur einnig þróað vefsja.is sem gefur yfirlit yfir allar helstu landupplýsingar sem varða skipulags- og umhverfismál
Árni er hefur gaman af hjólreiðum, annarri útiveru og ljósmyndun auk hvers kyns skapandi iðju.
S: 897 9549
arni@alta.is
DRÍFA ÁRNADÓTTIR
Ráðgjafi
Drífa lauk MS gráðu í sjálfbærri borgarhönnun (e. Sustainable Urban Design) frá Arkitektaskólanum í Lundi 2017 og þar á undan BS gráðu í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands 2013. Í náminu lagði hún áherslu á mótun blandaðrar byggðar með vistvænum áherslum og sterkum staðaranda. MS verkefnið hennar fjallaði um borgarvæðingu úthverfis (e. Urbanize the Suburb) samhliða borgarlínunni. Áhersla var einnig lögð á gönguvænt umhverfi, leikvæn almenningssvæði fyrir fjölmenningarsamfélag og blágrænar ofanvatnslausnir. Í náminu þróaði Drífa einnig þekkingu sína og færni í hönnun, sjálfbærum lausnum, greiningarvinnu og myndrænni framsetningu. Mannlegur skali og heilsusamlegt borgarumhverfi er henni einnig hugleikið.
Drífa hefur starfað hjá Alta síðan 2018. Hjá Alta hefur hún unnið að fjölbreyttum skipulagsverkefnum í ólíkum skala, allt frá deiliskipulagi fyrir minni svæði upp í forsögn og rammaskipulag fyrir hverfi og bæi s.s. Ásbrú, Blikastaðaland, Höfn í Hornafirði og Vestanvert Kársnes.
Drífu finnst fátt skemmtilegra en að rölta um í borgum, bæjum og náttúrunni og fá innblástur og endurheimt. Einnig deilir hún miklum áhuga á vel hönnuðum og frumlegum leiksvæðum með sonum sínum. Drífa er sérstaklega veik fyrir svæðum í nálægð við vatn og sjó og líður hvergi betur en í sundi!
Eric Holding
Ráðgjafi
Eric er staðarhönnuður (place strategist), borgarhönnuður, arkitekt og stjórnunarráðgjafi. Hann hefur sérhæft sig í mótun framtíðarsýnar og stefnu fyrir þróun staða byggt á sérstöðu þeirra. Eric hefur langa reynslu af því að leiða stór verkefni í byggðaþróun, rammaskipulagi, borgarhönnun og staðarmörkun víða um heim, auk ritstarfa og rannsókna.
Eric lauk arkitektanámi í Bretlandi og Bandaríkjunum, er með mastersgráðu í miðlunarfræðum og stjórnunarráðgjöf frá Grenoble í Frakklandi. Hann hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum m.a. við uppbyggingu á Battersea Power Station í London - sem er eitt stærsta umbreytingarverkefni í Evrópu á síðustu árum. Þar vann hann fýsileikakönnun, kom að staðarhönnun og rammaskipulagsgerð o.fl.
Eric hefur starfað víða um lönd, en með Alta hefur hann unnið að verkefnum víðsvegar um landið síðan 2004. Eric var einn af aðalhönnuðum rammaskipulags Urriðholts í Garðabæ, þar sem Alta hélt utanum skipulagshönnun og almenna verkstjórn. Skipulagið hefur fengið fjölda verðlauna. Eric vann að rammaskipulagi Ásbrúar, Blikastaðalands og Vestanverðs Kársness, auk annarra skipulags- og þróunarverkefna með Alta.
Eric býr í London, en kemur reglulega til Íslands. Þess á milli nýtum við okkur fjarvinnutækni til samskipta. Utan vinnu nýtur hann samveru með fjölskyldu og vinum, góðrar tónlistar og þess að ferðast til framandi staða með fjölskyldunni. Þar má nefna Japan, sem hann þekkir vel og hefur sérstakt dálæti á, auk Íslands.
HALLDÓRA HREGGVIÐSDÓTTIR
Framkvæmdarstjóri og ráðgjafi
Halldóra er skipulagsráðgjafi, framkvæmdastjóri og stofnandi Alta. Halldóra hefur yfir 30 ára reynslu af vinnu í skipulagsmálum og hefur leitt mörg okkar stærstu og smæstu skipulags- og umhverfismatsverkefni. Hún hefur MS gráður í hagverkfræði og jarðfræði frá Stanford háskóla og BS gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands. Hún er einnig skipulagsráðgjafi skv. skipulagslögum.
Halldóra er reyndur sérfræðingur á sviði skipulags- og umhverfismála almennt og þróunar byggðar, samráðs, rekstrar og breytingastjórnunar og starfar sem ráðgjafi á þessum sviðum auk þess að sinna framkvæmdastjórn. Hún hefur viðamikla reynslu af þróun sjálfbærrar byggðar, gerð rammaskipulags, s.s. rammaskipulags Urriðaholts, sem hún leiddi, gerð deiliskipulagsáætlana, skipulagi og innleiðingu á blágrænum ofanvatnslausnum og öðrum náttúrurænum lausnum (e. nature based solutions), umhverfismati, aðlögun að loftslagsbreytingum, skipulagi verndarsvæða, þjóðgarða og UNESCO svæða.
Áður en Halldóra stofnaði Alta 2001, starfaði hún m.a. sem sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun við mat á umhverfisáhrifum og sem ráðgjafi á sviði verkfræði, skipulags-, umhverfis- og rekstrarmála og breytingarstjórnunar fyrir verkfræðistofu, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.
Barnabörnin eru augnayndi Halldóru - en frístundum ver hún flestum með fjölskyldu og vinum, gjarnan utandyra. Þar skipa göngu- og fjallaferðir og garðyrkja stóran sess auk forvitni um lönd og lýð - ævintýralegt skiptinemaár í Mexíkó. Jarðvegur, landfræði, náttúrufræði, matreiðsla, lestur og prjónaskapur eru einnig ofarlega á vinsældalistanum.
S: 899 9549
halldora@alta.is
HALLDÓRA HRÓLFSDÓTTIR
Ráðgjafi
Dóra (Halldóra) Hrólfsdóttir, lauk MUP gráðu í skipulagsfræði frá McGill háskóla í Montreal í Kanada árið 2008. Hún hefur einnig lokið BA gráðu í stjórnmálafræði og frönsku frá Háskóla Íslands. Í mastersnáminu skoðaði Dóra sérstaklega samþættingu landnotkunar- og samgönguskipulags og hvernig megi ýta undir vistvæna ferðamáta í borgum. Að námi loknu starfaði hún hjá verkfræðifyrirtæki í Montreal við samgönguskipulag og dvaldi svo í ár í Lúanda, höfuðborg Angóla í Afríku sem ráðgjafi hjá frjálsum félagasamtökum, sem vinna að stefnumótum og verkefnum tengdum fátækt í borgum landsins.
Dóra starfaði sem verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúanum í Reykjavík frá 2012, þar sem hún kom að gerð samgöngukafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, ásamt hverfisskipulagi og hinum ýmsu ramma- og deiliskipulagsáætlunum. Árið 2018 starfaði Dóra sem skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna sf. í afleysingum.
Dóra hóf störf hjá Alta 2018, þar sem hún sinnir fjölbreyttum verkefnum á sviði skipulagsmála og umhverfismats. Dæmi um nýleg verkefni Dóru eru gerð rammahluta aðalskipulags fyrir Ásbrú og Vestanvert Kársnes, forgreining f. samkeppni og gerð rammahluta aðalskipulags fyrir Keldnalandið, umhverfisskipulag Varmár, gerð Verkfærakistu um gæði byggðar í Kópavogi, gerð skipulagsramma fyrir nýtt hverfi, Sólvelli í Mosfellsbæ, gerð aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags vegna listverks Ólafs Elíassona í Eldfelli í Vestmannaeyjum auk vinnu við endurskoðun og breytingar aðalskipulagsáætlana, umhverfismat og gerð deiliskipulagsáætlana
Auk skipulags- og umhverfismála hefur Dóra mikinn áhuga á ferðalögum jafnt innan lands sem utan og útivist svo sem náttúruhlaupum, hjólreiðum, gönguskíðum og snjóbrettaiðkun.
HERBORG ÁRNADÓTTIR
Ráðgjafi
Herborg lauk BA gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og MS gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands vorið 2014 með áherslu á mannvistarlandfræði. Lokaverkefni Herborgar fjallaði um samband lýðheilsu og skipulags í gegnum hugtakið göngufærni (e.walkability). Hún stofnaði borgarrannsóknarhópninn Borghildi sem rannsakaði borgarrými á árunum 2010-2013. Herborg er einnig teiknari og hefur unnið fjölbreytt verkefni á því sviði, gert skýringarmyndir og myndskreytt barnabækur.
Herborg hefur starfað í skipulagsmálum hjá Alta frá 2014 og unnið að fjölbreyttum skipulagsverkefnum um allt land. Hún hefur mikla reynslu í gerð landfræðilegra greininga með landupplýsingakerfum (GIS), greininga á borgarumhverfi, s.s. umhvefis- og þéttleikagreininga, sérstöðugreininga, auk skipulagshönnunar, sérstaklega á stigi svæðis-, aðal- og rammaskipulags. Hún hefur jafnframt sérhæft sig í myndrænni framsetningu og kortagerð með fjölbreyttum miðlum, bæði með notkun landupplýsingakerfa en líka teikningu, umbroti og grafískri vinnu. Dæmi um nýleg skipulagsverkefni Herborgar er forgreining fyrir samkeppni um gerð rammaskipulags fyrir Keldnalandið, gerð rammahluta aðalskipulags fyrir Ásbrú, rammaskipulag fyrir Blikastaðaland, skipulagsrammi fyrir nýtt hverfi, Sólvelli í Mosfellsbæ, skipulagsgreining fyrir nýjan upplifunarstað fyrir börn, auk skipulags- og sérstöðugreininga fyrir sveitarfélög og gerð deiliskipulagsáætlana.
Herborg vinnur einnig sem sjálfstætt starfandi teiknari, sjá www.herborgdraws.com
Herborg hefur gaman að því að njóta stundarinnar með vinum og fjölskyldu, fara í göngutúra og kynnast nýjum stöðum, hlaupa eftir börnunum sínum og elda - og borða - góðan mat.
KRISTBORG ÞRÁINSDÓTTIR
Ráðgjafi
Kristborg lauk meistaraprófi í umhverfisfræði og sjálfbærnivísindum frá háskólanum í Lundi árið 2022 þar sem áhersla var lögð á skörun samfélagslegra og umhverfislegra áskorana og lausnir við þeim. Þar á undan lauk hún BS gráðu í sálfræði og viðbótardiplóma í lýðheilsuvísindum. Í námi sínu þróaði Kristborg þekkingu sína meðal annars á loftslagsmálum, samráði, stefnumótun, náttúrumiðuðum lausnum og notkun landupplýsinga. Meðfram námi vann Kristborg verkefni á borð við úttekt á úrgangsmeðhöndlun fyrirtækis, vistvæn innkaup og endurúttekt grænna skrefa. Einnig tók hún þátt í rannsóknarverkefni um aðgerðir til að ná loftslagsmarkmiðum sveitarfélags, með áherslu á samgöngur og landnotkun.
Kristborg hefur áhuga á hreyfingu og útiveru. Henni finnst skemmtilegast að ferðast um Ísland, vera í útilegu og löngum gönguferðum. Einnig hefur hún gaman af handavinnu og skemmtilegum íslenskum orðum og orðatiltækjum.
KRISTJANA DANÍELSDÓTTIR
Skrifstofustjóri
Kristjana hefur yfirumsjón með skrifstofunni okkar og passar að allt gangi smurt í amstri dagsins. Hún sér um símsvörun, móttöku, innkaup, bókhald, ýmsa stoðvinnu, er öryggisvörður Alta og síðast en ekki síst sér hún um að ávallt sé holl næring til staðar fyrir starfsfólk og gesti.
Kristjana er lífsglöð með eindæmum og á stóran þátt í góðum starfsanda sem ríkir hjá Alta. Hún hóf störf hjá Alta í ársbyrjun 2006.
Kristjana veit fátt betra en að fara í góðan göngutúr.
S: 582 5000 // 690 9057
kristjana@alta.is
MATTHILDUR KR. ELMARSDÓTTIR
Ráðgjafi
Matthildur hefur MSc gráðu í skipulagsfræði frá University of Toronto í Kanada og Postgraduate Diploma í bæjarhönnun (urban design) frá Oxford Brookes University í Englandi. Hún hefur einnig lokið uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Matthildur hefur mikinn áhuga á tengslum skipulags og lýðheilsu, á landslagi sem auðlind og hvernig styrkja megi staðaranda og ímynd staða og svæða, í þeim tilgangi að styðja við samfélag og atvinnulíf.
Matthildur hóf störf hjá Alta haustið 2006 en hafði áður starfað sem sérfræðingur í skipulagsmálum hjá Skipulagsstofnun og Akureyrarbæ og kennt við Háskóla Íslands. Hjá Alta hefur hún leitt fjölbreytt verkefni á öllum skipulagsstigum og á sviði umhverfismats áætlana. Sem dæmi stýrði Matthildur og mótaði nálgun við Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030, Svæðisskipulag Snæfellsness 2014-2026 og Svæðisskipulag Dala, Reykhóla og Stranda 2018-2030 en fyrrnefnda svæðisskipulagið fékk Skipulagsverðlaunin 2014. Matthildur ritaði bæklinginn Stefnumótandi skipulagsgerð og mörkun svæða sem Alta gaf út árið 2015 og kafla um svæðisskipulag Snæfellsness í bókina „Mainstreaming Landscape Through the European Landscape Convention: Concept, Policy and Practice“ sem kom út hjá Routledge árið 2016.
Matthildur elskar íslensku, frönsku og fleiri tungumál. Átthagar er uppáhalds íslenska orðið hennar og henni finnst vinna sín snúast um þá.