Skipulagsstofnun hefur boðað innleiðingu stafræns skipulags 2020, sem felur það í sér að auk greinargerðar og uppdráttar verði til landupplýsingagögn um afmarkanir skipulagsreita og annarra ákvarðana sem hafa tilgreinda legu eða staðsetningu í aðalskipulaginu. Með þessu verða skipulagsafmarkanir meðal þeirra fjölbreyttu landupplýsinga um náttúru, innviði og samfélag sem hinar
ýmsu stofnanir miðla, sjá t.d. á vefsja.is.
Við hjá Alta höfum verið í fararbroddi á þessu sviði og unnið tillögur fyrir Skipulagsstofnun um samræmt fyrirkomulag gagnanna og aðferðir við innleiðingu. Þau aðalskipulög sem við höfum unnið síðustu ár eru öll á því formi sem tillögurnar fela í sér og gögnin eru því tilbúin til afhendingar til Skipulagsstofnunar þegar þar að kemur. Hér er alls ekki um að ræða aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin, það þarf bara að nota hugbúnað og aðferðir sem henta við vinnslu landupplýsinga.
Vönduð landupplýsingagögn um skipulag skipta miklu máli því þau eru nokkurs konar líkan af því hvernig landinu hefur verið ráðstafað og smám saman verður slíkt líkan til af landinu öllu. Í samhengi við aðrar landupplýsingar úr öðrum áttum má draga ýmsar ályktanir og undirbyggja ákvarðanatöku, bæði hjá sveitarfélögum og á landsvísu.
Landupplýsingar henta líka vel til miðlunar í vefsjám og þann kost notum við óspart, bæði meðan verið er að vinna skipulagið og til að gefa greiðan aðgang að skipulagsákvæðum eftir gildistöku. Vefsjá fyrir Aðalskipulag Vestmannaeyja er gott dæmi.
Comments