Alta með vottuð gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi

Alta hefur hlotið vottun á gæða- og umhverfisstjórnunarkerfum samkvæmt ISO 9001 og ISO 14001. Alþjóðlega vottunarstofan BSI staðfesti vottunina með útgáfu skírteina þann 29. júní 2015.

Það er Alta afskaplega mikilvægt að geta starfað eftir skilvirku gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi. Með vottuðu gæðakerfi tryggjum við að starfsemi Alta uppfylli ávallt ströngustu kröfur viðskiptavina sinna og að umbætur á gæðum í ráðgjöf Alta séu stöðugar. Vottað umhverfisstjórnunarkerfi tryggir það að Alta lágmarki neikvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á umhverfið og vinni stöðugt að því að hafa eins jákvæð áhrif á umhverfið og mögulegt er hverju sinni.

Við hjá Alta erum afar stolt af þessum áfanga, enda er fyrirtækið nú komið í hóp örfárra ráðgjafarfyrirtækja sem hafa hlotið slíka vottun.

Höfuðborgarsvæðið 2040

Ný svæðisskipulagsáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið var undirrituð af fulltrúum sveitarfélaga svæðisins og forstjóra Skipulagsstofnunar í Höfða mánudaginn 28. júní sl. Í áætluninni er sett fram sameiginleg stefna sveitarfélaganna um þróun höfuðborgarsvæðisins næstu 25 árin, m.t.t. byggðarmynsturs, samgöngumála og umhverfis. Alta tók þátt í mótun áætlunarinnar ásamt ráðgjöfum frá Mannviti, Landslagi og Húsi og skipulagi. Hlutverk Alta sneri einkum að umhverfismati skipulagstillögunnar, gagnaöflun og landfræðilegum greiningum.

Hægt er að nálgast nýtt svæðisskipulag; Höfuðborgarsvæðið 2040 á heimasíðu SSH ásamt fylgiritum www.ssh.is.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Hrafnkel Á. Proppé svæðisskipulagsstjóra ásamt ráðgjafateyminu: Hrafnhildi Brynjólfsdóttur, Matthildi Kr. Elmarsdóttur, Hildigunni Haraldsdóttur, Þráni Haukssyni og Jóni Kjartani Ágústssyni. Á myndina vantar Þorstein Hermannsson.

Alta í verðlaunasæti í Hjólað í vinnuna

Starfsmenn Alta lentu í 3. sæti í sínum flokki í Hjólað í vinnuna árið 2015, en alls tóku 80 vinnustaðir þátt í þeim flokki. Níu starfsmenn Alta tóku þátt að þessu sinni og ferðuðust með vistvænum hætti til vinnu að meðaltali 11,222 daga af 13 á meðan keppninni stóð.

Hér má sjá Hrafnhildi Brynjólfsdóttur, Kristjönu Daníelsdóttur, liðstjóra Alta í Hjólað í vinnuna og Halldóru Hreggvisdóttur þegar verðlaun voru afhent í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Fyrirlestur um stafrænt skipulag

Þann 30. apríl s.l. héldu Landmælingar Íslands, í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, ráðstefnu um innleiðingu grunngerðar fyrir landupplýsingar og INSPIRE. Meðal fyrirlesara var Árni Geirsson hjá Alta, sem gerði grein fyrir hugmyndum um tilhögun og innleiðingu stafræns skipulags á Íslandi. Það snýst aðallega um að skrá á skipulegan og samræmdan hátt landupplýsingagögn um landfræðilegan hluta skipulagsáætlana, líkt og gert er í nágrannalöndunum. Í fyrirlestrinum er byggt á hugmyndum sem settar voru fram í skýrslu um rannsóknaverkefni styrkt af Þróunarsjóði Skipulagsstofnunar 2012, sjá hér. Rétt er að taka fram að hjá Skipulagsstofnun er verið að móta þessar hugmyndir frekar.

Fyrirlesturinn var tekinn upp og má sjá hann hér. Margt annað fróðlegt bar á góma á ráðstefnunni og má sjá upplýsingar um innlegg annarra hér.

Kuðungurinn 2014 til Landspítala - hamingjuóskir!

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra veitti í dag Landspítalanum umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn, en hana hlýtur stofnun eða fyrirtæki fyrir framúrskarandi umhverfisstarf.

Umhverfisstarf Landspítala hefur á undanförnum misserum verið afar farsælt, verkefnin eru fjölbreytt og hafa öll miðað að því að mæla árangur og miðla því. Sett var umhverfisstefna og áhersla á markvisst umhverfisstarf. Og árangur starfsins er skýr og mælanlegur, m.a. aukin endurvinnsla, dregið úr notkun einnota hluta, minni matarsóun, átak í fjölgun vistvænna útboða, minna af varasömum efnum í loft og vatn, samgöngusamningar starfsmanna með umhverfis- og heilsuávinningi, Svansvottað mötuneyti og miðlun og áhrif í samfélaginu. Áhrif spítalans snerta allt okkar samfélag og geta orðið töluverð enda spítalinn næst fjölmennasti vinnustaður landsins, með tæplega 5000 starfsmenn og margslungna starfsemi.

Alta hefur tekið í þátt í þessu skemmtilega uppbyggingarstarfi í nokkrum verkefnum og vill af þessu tilefni óska Landspítalanum til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

Bls 1 af 54

Upp