Uppbygging íbúðarhúsnæðis á Húsavík

Samhliða auknum umsvifum atvinnulífs á svæðinu á næstu árum má gera ráð fyrir töluverðri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Húsavík . Til að tryggja farsæla uppbyggingingu fékk Norðurþing Alta til liðs við sig til að greina núverandi stöðu á húsnæðismarkaði og leggja fram tillögur að forgangsröðun og áherslum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Húsavík.

Niðurstöður þessarar vinnu voru kynntar á kynningarfundi þann 16. júní sl. Mæting var góð og áhugaverðar umræður í kjölfarið. 

Sjá hér bæði greinargerð og kynningu Alta.

Erindi á umhverfismatsdegi

Hrafnhildur frá Alta og Hrafnkell svæðisskipulagsstjóri fyrir höfuðborgarsvæðið héldu erindi á umhverfismatsdegi Skipulagsstofnunar þann 9. júní. Þar fjölluðu þau um umhverfismat svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og hvernig það hafði mótandi áhrif á áætlunina.

Viltu vita meira? Hér er áhugavert viðtal við Ásdísi Hlökk frá Skipulagsstofnun þar sem hún fjallar vítt og breitt um umhverfismat og þar á meðal umhverfismat svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

Aðalskipulagsvefur í Grundarfirði

Endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar er hafin með aðstoð Alta. Opnaður hefur verið sérstakur kynningarvefur fyrir verkefnið undir vefslóðinni skipulag.grundarfjordur.is

Vefurinn er hugsaður til að auðvelda íbúum og öðrum að nálgast upplýsingar um endurskoðunina. Þar má lesa nánar um áætlunargerðina, nálgast ýmis gögn og fylgjast með framgangi vinnunnar. Í gegnum vefinn er einnig hægt að senda inn ábendingar og önnur skilaboð.

Nú er verið að leggja lokahönd á lýsingu skipulagsverkefnisins, en það er nokkurs konar „uppskrift” að verkinu sem framundan er við að móta nýtt skipulag. Lýsingin verður birt opinberlega þannig að íbúar og aðrir geti kynnt sér efni hennar og sent inn ábendingar eða athugasemdir. Lýsingin verður nánar auglýst síðar í þessum mánuði. Allar ábendingar um efni vefsins eða skipulagsmál eru vel þegnar og má senda beint í gegnum vefinn, með því að smella hér.

Tvær nýjar vefsjár Ferðamálastofu

Alta hefur á undanförnum misserum aðstoðað Ferðamálastofu við að safna saman og miðla landupplýsingum um áhugaverða staði á landinu. Í fyrrasumar voru birtar vefsjár með áhugaverðum viðkomustöðum og stöðum í Íslendingasögum. Nýlega bættust tvær vefsjár við, önnur um staði sem fengið hafa styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hin sýnir staði þar sem þekktar erlendar kvikmyndir og þættir hafa verið teknar upp á Íslandi. Landupplýsingagögnin eru opin til frjálsra afnota við skipulagningu og vöruþróun í ferðaþjónustu og hefur sérstök niðurhalssíða verið útbúin í þeim tilgangi, sjá hér.

Sjá hér frétt á vef Ferðamálastofu.

Urriðaholt - Fyrsta vistvottaða skipulag á Íslandi

Skipulag í Urriðaholti í Garðabæ hefur fengið Breeam Communities vistvottun, en BREEAM er alþjóðlega leiðandi vistvottunarkerfi fyrir byggð, sjá nánar hér case study um Urriðaholtið á vef Breeam. Þar með er staðfest að byggðin í Urriðaholti uppfyllir skilyrði um framúrskarandi skipulag, þar sem unnið hefur verið með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Hér hafa margir komið að, en við hjá Alta erum ánægð og stolt af því að hafa fengið að aðstoða Urriðaholt ehf. og Garðabæ við þetta skipulag frá fyrstu tíð og nú við þetta síðasta vistvottunarskref. Á myndinni hér fyrir neðan tekur Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ við staðfestingu á vottun frá Cary Buchanan frá BREEAM Communities.

En hvað þýðir í raun að vera íbúi í vistvottuðu hverfi?

 • Að vel er hugað að lykilþörfum íbúanna.
 • Gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar.
 • Stutt verður í verslun og aðra þjónustu sem verður miðsvæðis.
 • Hverfið er barnvænt og hentar íbúum á öllum aldri.
 • Fjölbreytt leiksvæði og útivistarsvæði fyrir unga sem aldna.
 • Götur eru öruggar fyrir gangandi og hjólandi, sem hafa forgang fyrir bílum.
 • Hugað að góðum hjólatengingum við allt höfuðborgarsvæðið.
 • Stutt í strætóstoppistöðvar.
 • Hjólastæði í götum og við húsbyggingar.
 • Rafmagnshleðslustæði fyrir rafbíla eru við öll fjölbýlishús.
 • Fjölbreytt framboð húsnæðis, íbúðagerðir og stærðir íbúða.
 • Íbúðarhús við gönguleiðir innan hverfis stuðla að öryggi vegfarenda. Allir íbúar eru á vakt í raun.
 • Hugað að því að rými séu sólrík og skjólsæl.
 • Þægileg útilýsing með lítilli ljósmengun.
 • Fjölbreyttur gróður í almenningsrýmum styrkir vistkerfi innan og utan byggðarinnar.
 • Byggðin getur tekist á við breyttar þarfir framtíðarinnar.

Blágrænar ofanvatnslausnir tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns - í fyrsta sinn á Íslandi. Þær gefa líka einstakt tækifæri fyrir okkur til að skilja hringrás vatns

Vottunin er lokahnykkur á vegferð sem hófst fyrir rúmlega áratug með sameiginlegri ákvörðun Garðabæjar og Urriðaholts ehf. um að þróa nýtt hverfi í Urriðaholti, þar sem fylgt yrði nýjustu alþjóðlegum áherslum í umhverfis- og skipulagsmálum.

Rammaskipulag Urriðaholts hefur áður fengið viðurkenningar vegna áherslna á sviði sjálfbærni, m.a. frá Urban Design Committee og Boston Society of Architects. Það fékk einnig silfurverðlaun fyrir áherslur á lífsgæði í borgarskipulagi frá alþjóðlegu samtökunum LivCom (International Award for Livable Communities), í flokknum “Environmentally Sustainable Projects” og var í úrslitum fyrir Tibbalds verðlaunin, sem eru virt skipulagsverðlaun í Bretlandi.

Sjá hér líka frétt á vef Garðabæjar.

Bls 1 af 59

Upp