Tölfræði höfuðborgarsvæðisins á vef SSH

Alta hefur á undaförnum vikum aðstoðað Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við að koma á framfæri ýmsum gögnum um húsakost og búsetu. Með þessu er reynt að gefa vísbendingar um hvort þróun sé í samræmi við stefnu nýsamþykkts svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið. Gögn eru aðallega fengin frá Þjóðskrá og á grunni þeirra útbúin gagnvirk kort og gröf sem sýna húsakost og búsetu frá margvíslegum sjónarhornum. Hér er aðeins um fyrsta skref að ræða og aðeins sýnd gögn frá janúar 2016 en í framtíðinni verður hægt að sýna þróun frá einum tíma til annars. Sjá hér kort og gröf á vef SSH.

Með aðstoð Alta hefur SSH komið sér upp eigin gagnagrunni og landupplýsingaþjóni með því að leigja þessi kerfi af sérhæfðum hýsingaraðila erlendis. Allur hugbúnaður sem tengist þessari upplýsingaveitu er opinn og ókeypis. Má þar nefna Postgresql/PostGIS gagnagrunn, Geoserver landupplýsingaþjón og QGIS landupplýsingakerfi. Þeir sem nota landupplýsingakerfi geta tengst þjóninum og fengið upplýsingarnar til eigin nota. Um er að ræða fitjuþjónustu á slóðinni http://ssh.gistemp.com/geoserver/wfs. Alta hefur annast allar uppsetningar á gögnum, þjónustum, gagnvirkum gröfum og vefsjám.

Brú milli landshluta

Þrjú sveitarfélög, á mörkum tveggja landshluta, virkja samtakamáttinn.

Sveitarfélögin Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð hafa tekið höndum saman um að vinna að svæðisskipulagsáætlun og ráðið Alta til ráðgjafar við það verk. Sveitarfélögin hafa um árabil haft með sér samstarf af margvíslegum toga en samgöngubætur um Arnkötludal hafa styrkt svæðið betur sem heild og skapað tækifæri til enn frekari samvinnu, sem skilað getur byggðunum meiri árangri en ella.

Svæðisskipulagið verður nýtt sem verkfæri til að stilla saman strengi í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfis- og skipulagsmálum. Við mótun þess verður lögð áhersla á að draga upp mynd af auðlindum til sjávar og sveita og sérkennum í landslagi, sögu og menningu. Það er gert til að styrkja ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess gagnvart ferðamönnum, nýjum íbúum, fyrirtækjum og fjárfestum. Á grunni þeirrar myndar verður mörkuð stefna sem skilgreinir sameiginlegar áherslur og tækifæri sveitarfélaganna í atvinnu-, samfélags- og umhverfismálum og síðan skipulagsstefna sem styður við þær áherslur. Svæðisskipulagið myndar einnig ramma fyrir aðalskipulag hvers sveitarfélags og einfaldar vinnslu þess.

Á kynningarvef um verkefnið er hægt að lesa nánar um áætlunargerðina og þar verður hægt að fylgjast með framgangi hennar og nálgast ýmsar upplýsingar um svæðið. Lögð er áhersla á að nýta tiltæk landfræðileg gögn og birta á kortum til þess að fá þá heildarmynd sem nauðsynleg er. Þar kemur auðlindabanki ferðaþjónustunnar t.d. að góðum notum en einnig aðrir gagnagrunnar. Kortin verða birt jafnóðum, íbúum til fróðleiks og til nota fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum, s.s. til vöruþróunar og markaðssetningar og sem kveikjur að nýjum verkefnum og fyrirtækjum.

Snæfellskt landslag í erlendu fræðiriti

mainstreamingNýlega kom út bókin Mainstreaming Landscape Through the European Landscape Convention. Hún fjallar um forsögu og framfylgd Evrópska landslagssamningsins sem hefur það að markmiði að stuðla að verndun landslags, góðu skipulagi m.t.t. þess og vandaðri landslagshönnun. Einnig að fylgst sé með breytingum á landslagi svo bregðast megi við ef ástæða þykir til. Markmið samningsins eru jafnframt að Evrópulönd byggi upp þekkingu um greiningu, mat, skipulag og stjórnun að því er snýr að landslagi og deili reynslu af verkefnum sem því tengjast.

Ísland undirritaði Evrópska landslagssamninginn árið 2012. Með því var staðfestur vilji stjórnvalda til að stuðla að landslagsvernd og taka markviss skref byggð á leiðbeiningum samningsins. Unnið er að fullgildingu samningsins og getur bókin einmitt gagnast við þá vinnu.

Í bókinni eru 17 ritgerðir eftir 20 höfunda auk inngangs. Í ritgerðunum er fjallað um grunnhugtök og gildi sem landslagssamningurinn byggir á, reynslu af framfylgd hans og framtíðarþróun. Tekin eru fyrir ýmis dæmi frá Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum um landslagsgreiningu, mat á verðmæti landslags, stefnumótun um landslag og samráð við almenning við þau verkefni.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er eitt af þessum dæmum og í bókinni er að finna kafla um hann, ritaðan af Matthildi Kr. Elmarsdóttur, skipulagsfræðingi hjá Alta. Kaflinn ber heitið Snæfellsnes Regional Park in the Light of the European Landscape Convention. Kaflinn byggir á reynslu ráðgjafa Alta við gerð svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes og undirbúning að stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness á árunum 2011-2015. Útgangspunktur þess verkefnis var að landslag væri auðlind sem nýta mætti betur í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum til að styrkja byggð og atvinnulíf. Í kaflanum er fjallað um svæðisgarðinn og svæðisskipulagið út frá 6. grein Evrópska landslagssamningsins, sem kveður á um landslagsgreiningu, mat á landslagi, vitundarvakningu um landslag, stefnumótun og eftirfylgni stefnu.

Bókin er gefin út af Routledge og er hægt að panta hana þar, en einnig er hún fáanleg hjá öðrum bóksölum, t.d. á Amazon.

Grundarfjarðarbær: Stefnumót við framtíðina

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson fyrir Skessuhorn.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar horfir til framtíðar og fylgir svæðisskipulagi eftir með því að marka nánari stefnu í aðalskipulagi sínu um umhverfi fólks og fyrirtækja.

Grundarfjarðarbær hefur samið við ráðgjafarfyrirtækið Alta um endurskoðun aðalskipulags bæjarins. Skrifað var undir samning þar að lútandi föstudaginn 8. janúar sl., með hefðbundnum fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkti í október 2014 að fram færi heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins en skipulagstímabil gildandi aðalskipulags var til ársins 2015. Nýtt aðalskipulag verður til a.m.k. 12 ára. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ganga til samninga við Alta um endurskoðun aðalskipulagsins, á grundvelli tillögu sem Alta vann fyrir bæjarstjórn í október 2015.

Verkið felst í að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins m.t.t. þróunar sem orðið hefur frá því núgildandi aðalskipulag var samþykkt, fyrir þéttbýlið 2003 og dreifbýlið 2010, og út frá mati á framtíðarþróun. Á grunni þessa mats verða viðfangsefni endurskoðunar ákveðin og stefna til a.m.k. næstu 12 ára mótuð. Hluti verkefnisins er að uppfæra aðalskipulagið til samræmis við kröfur nýrrar skipulagsreglugerðar.

Lögð verður áhersla á að kynna framgang verkefnisins vel fyrir bæjarbúum. Fyrsti áfangi verksins er gerð verkefnislýsingar þar sem fram mun koma hvernig samráði verður háttað og hvar og hvernig tækifæri gefast til að koma hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri.

Við endurskoðunina verður t.d. tekist á við það hvernig búið er í haginn fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu. Liður í því er að rýna þrjú svæði og vinna fyrir þau nánara skipulag en aðra hluta, svokallaðan rammahluta aðalskipulags. Svæðin þrjú eru miðbær, hafnarsvæði og athafnasvæði á Framnesi.

Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri sagðist hlakka til vinnunnar framundan, hún fæli í sér gott tækifæri til samtals við íbúa um tækifæri og þróun samfélagsins. Góður grunnur var lagður með samþykkt fimm sveitarfélaga á svæðisskipulagi fyrir Snæfellsnes í mars 2015. Svæðisskipulagið einfaldar vinnuna við aðalskipulagið nú, þar sem það leggur ákveðnar línur um þróun svæðisins til framtíðar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa sammælst um að útfæra nánar í aðalskipulagi sínu.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta er með starfsemi á Snæfellsnesi og í Reykjavík. Verkefnisstjóri verður Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta í Grundarfirði, en hún og Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, verða helstu ráðgjafar í verkefninu. Þær Björg og Matthildur voru einnig aðalráðgjafar við undirbúning að stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness og gerð svæðisskipulagsins fyrir Snæfellsnes. Aðrir ráðgjafar Alta koma einnig að verkinu og verða bæjarstjórn og skipulagsnefnd til aðstoðar. Verkið hefst í janúar 2016, en áætluð verklok eru haust/vetur 2017.

Bls 1 af 57

Upp