Staðarvísir fyrir Urriðaholt

Alta hefur nýlokið vinnu við gerð Staðarvísis fyrir Urriðaholt ehf. í samstarfi við Landslag og JTP. Staðarvísir er hugsaður sem leiðarljós í umhverfishönnun fyrir uppbyggingu í Urriðaholti og fylgir eftir markmiðum og skilmálum rammaskipulags og deiliskipulags á myndrænan og aðgengilegan hátt.

Staðarvísir er handbók fyrir alla þá sem tengjast Urriðaholtinu og uppbyggingu þess á einn eða annan hátt. Hann hefur að leiðarljósi að fylla okkur af þeirri andagift sem í Urriðaholtinu býr og gefa hugmyndir að útfærslum í anda skipulagsins. Hann er einnig prófsteinn á hönnunargögn og er ætlað að hjálpa til við ákvarðanatöku. Hornsteinninn í vinnu við skipulag Urriðaholts hefur frá upphafi verið að þar séu engar tilviljunarkenndar lausnir, heldur lausnir handsniðnar að þörfum umhverfis og samfélags til að byggja upp aðlaðandi samfélag þar sem gott er að búa og starfa. Staðarvísinum er ætlað að koma af stað skapandi umræðu um hvernig gera megi góðan stað betri. Myndabankinn sem í honum er myndar ramma um sameiginlegt tungumál og skilning á því hvers kyns umhverfisgæðum við stefnum að í Urriðaholti.

Staðarvísir er fjölnota verkfæri sem hægt væri að yfirfæra á hvaða deiliskipulag eða stefnumótun um umhverfisgæði sem er og stuðlar að því að þeir fjölmörgu sem koma að þróun og uppbyggingu svæða búi yfir sameiginlegri sýn um endanlega útkomu.

Hægt er að nálgast pdf útgáfu af Staðarvísi á heimasíðu Urriðaholts hér. Einnig er gott að skoða hann í heilum opnum, sjá hér.

Staðarvísir var formlega kynntur á fjölmennum fundi skipulagsráðgjafa, landslagshönnuða, fulltrúa Garðabæjar og verktaka 26. janúar síðastliðinn.

Fyrirmyndarfyrirtæki hittust í Hörpu

Festa og Samtök atvinnulífsins héldu í gær árlega ráðstefnu sína um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í Silfurbergssalnum í Hörpunni undir yfirskriftinni „Árangur og ábyrg fyrirtæki”. Nánast fullsetið var í salnum þar sem gestir fengu að hlýða á reynslusögur og hvatningarorð fyrirtækja og stofnana sem hafa sett sér að vera samfélagslega ábyrg.

Var ráðstefnunni skipt niður í tvo hluta þar sem á fyrri hluta hennar fóru fyrirtæki á borð við Íslandsbanka, HB Granda, Ankra og Lín design yfir það hvers vegna þau vilja vera samfélagslega ábyrg og hvernig það hefur gengið hingað til.

Á seinni hluta ráðstefnunnar héldu hins vegar sérfræðingar sem starfa í geiranum erindi um það hvernig gott er að innleiða samfélagslega ábyrgð í fyrirtækjarekstur. Sagðar voru sögur af verkefnum sem hafa gefist vel og gefin dæmi af aðferðum og verkfærum sem gott er að beita.

Hulda Steingrímsdóttir, ráðgjafi hjá Alta, deildi reynslu sinni af óvæntum árangri í sambandi við mælingar og miðlun á verkefnum með fundargestum ásamt því að taka við spurningum úr sal í lok ráðstefnunnar og komst vel frá því verki.

Alta óskar öllum þeim sem komu að ráðstefnunni innilega til hamingju með vel unnið verk. Augljóst er að vitund um samfélagslega ábyrgð er að aukast með hverjum deginum og því er ánægjulegt að fá að upplifa góða uppskera á degi sem þessum.

Að græða með verkefnastjórnun

Björg Ágústsdóttir lögfræðingur og MPM, ráðgjafi hjá Alta, skrifaði grein í Markaðinn, sérblað Fréttablaðsins 14. janúar sl. Greinin fjallar um að hagur geti verið af því að nýta aðferðir verkefnastjórnunar í fyrirtækjum og stofnunum.

Greinina má lesa hér.

Skipulagsverðlaun veitt svæðisskipulagi Snæfellsness

Svæðisskipulag Snæfellsness „Andi Snæfellsness - auðlind til sóknar” fékk í dag, 26. nóvember, Skipulagsverðlaunin 2014. Það var stoltur og glaður hópur frá Snæfellsnesi sem kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur, til að taka við þessari viðurkenningu ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem veitti faglega ráðgjöf við skipulagsgerðina. Um er að ræða skipulagstillögu sem nú er í lokaafgreiðslu sveitarstjórnanna.

Verðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti og í ár var dómnefnd skipuð af Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Ferðamálastofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í ár var sérstök áhersla á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við það byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er. Einkum var skoðað hvernig faglega unnið skipulag gæti styrkt staðaranda og samfélög, til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Lesa meira...

Grænum skrefum í ríkisrekstri ýtt úr vör

Alta hefur undanfarna mánuði unnið að því að aðlaga Græn skref Reykjavíkurborgar að þörfum ríkisins sem Græn skref í ríkisrekstri. Þau voru kynnt formlega á morgunverðarfundi stýrihóps um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur og Félags forstöðumanna ríkisins á Grand hótel þann 26. nóvember. Á fundinum voru sagðar reynslusögur um árangur í umhverfisstarfi hjá Landspítalanum og fluttar kynningar á Grænum skrefum og vistvænum innkaupum.

Alta útbjó einnig aðgengilegan vef fyrir verkefnið, graenskref.is. Á vefnum geta stofnanir og ráðuneyti skráð sig, sótt vinnugögn, fræðst og hafið leikinn. Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref.

Lesa meira...

Bls 1 af 52

Upp