Tvær nýjar vefsjár Ferðamálastofu

Alta hefur á undanförnum misserum aðstoðað Ferðamálastofu við að safna saman og miðla landupplýsingum um áhugaverða staði á landinu. Í fyrrasumar voru birtar vefsjár með áhugaverðum viðkomustöðum og stöðum í Íslendingasögum. Nýlega bættust tvær vefsjár við, önnur um staði sem fengið hafa styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hin sýnir staði þar sem þekktar erlendar kvikmyndir og þættir hafa verið teknar upp á Íslandi. Landupplýsingagögnin eru opin til frjálsra afnota við skipulagningu og vöruþróun í ferðaþjónustu og hefur sérstök niðurhalssíða verið útbúin í þeim tilgangi, sjá hér.

Sjá hér frétt á vef Ferðamálastofu.

Urriðaholt - Fyrsta vistvottaða skipulag á Íslandi

Skipulag í Urriðaholti í Garðabæ hefur fengið Breeam Communities vistvottun, en BREEAM er alþjóðlega leiðandi vistvottunarkerfi fyrir byggð, sjá nánar hér case study um Urriðaholtið á vef Breeam. Þar með er staðfest að byggðin í Urriðaholti uppfyllir skilyrði um framúrskarandi skipulag, þar sem unnið hefur verið með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Hér hafa margir komið að, en við hjá Alta erum ánægð og stolt af því að hafa fengið að aðstoða Urriðaholt ehf. og Garðabæ við þetta skipulag frá fyrstu tíð og nú við þetta síðasta vistvottunarskref. Á myndinni hér fyrir neðan tekur Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ við staðfestingu á vottun frá Cary Buchanan frá BREEAM Communities.

En hvað þýðir í raun að vera íbúi í vistvottuðu hverfi?

 • Að vel er hugað að lykilþörfum íbúanna.
 • Gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar.
 • Stutt verður í verslun og aðra þjónustu sem verður miðsvæðis.
 • Hverfið er barnvænt og hentar íbúum á öllum aldri.
 • Fjölbreytt leiksvæði og útivistarsvæði fyrir unga sem aldna.
 • Götur eru öruggar fyrir gangandi og hjólandi, sem hafa forgang fyrir bílum.
 • Hugað að góðum hjólatengingum við allt höfuðborgarsvæðið.
 • Stutt í strætóstoppistöðvar.
 • Hjólastæði í götum og við húsbyggingar.
 • Rafmagnshleðslustæði fyrir rafbíla eru við öll fjölbýlishús.
 • Fjölbreytt framboð húsnæðis, íbúðagerðir og stærðir íbúða.
 • Íbúðarhús við gönguleiðir innan hverfis stuðla að öryggi vegfarenda. Allir íbúar eru á vakt í raun.
 • Hugað að því að rými séu sólrík og skjólsæl.
 • Þægileg útilýsing með lítilli ljósmengun.
 • Fjölbreyttur gróður í almenningsrýmum styrkir vistkerfi innan og utan byggðarinnar.
 • Byggðin getur tekist á við breyttar þarfir framtíðarinnar.

Blágrænar ofanvatnslausnir tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns - í fyrsta sinn á Íslandi. Þær gefa líka einstakt tækifæri fyrir okkur til að skilja hringrás vatns

Vottunin er lokahnykkur á vegferð sem hófst fyrir rúmlega áratug með sameiginlegri ákvörðun Garðabæjar og Urriðaholts ehf. um að þróa nýtt hverfi í Urriðaholti, þar sem fylgt yrði nýjustu alþjóðlegum áherslum í umhverfis- og skipulagsmálum.

Rammaskipulag Urriðaholts hefur áður fengið viðurkenningar vegna áherslna á sviði sjálfbærni, m.a. frá Urban Design Committee og Boston Society of Architects. Það fékk einnig silfurverðlaun fyrir áherslur á lífsgæði í borgarskipulagi frá alþjóðlegu samtökunum LivCom (International Award for Livable Communities), í flokknum “Environmentally Sustainable Projects” og var í úrslitum fyrir Tibbalds verðlaunin, sem eru virt skipulagsverðlaun í Bretlandi.

Sjá hér líka frétt á vef Garðabæjar.

Sóknarfæri í staðarandanum

„Innviðir, ímynd og sóknarfæri“ og hvernig nýta má staðarandann til að styrkja m.a. atvinnugreinar og samfélög, var viðfangsefni ráðstefnu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og Landbúnaðarháskóla Íslands sem haldin var 4. maí á Hvanneyri.

Í staðaranda felast verðmæti sem nýtast atvinnugreinum og samfélögum á margvíslegan hátt.
Til að nýta þau verðmæti er mikilvægt að kunna skil á staðarandanum, geta lýst honum og miðlað með fjölbreyttum, en - að einhverju leyti - samræmdum hætti. Jafnframt þarf að haga ákvörðunum á svæðum með þeim hætti að þær styrki staðarandann, en rýri hann ekki.

Fyrirlesarar komu frá háskólum, ríkisstofnun, landshlutasamtökum, ferðaþjónustufyrirtæki, frumkvöðlafyrirtæki, fjölmiðli og svo voru þær Björg Ágústsdóttir og Matthildur Kr. Elmarsdóttir frá Alta, sjá um innlegg þeirra og annarra fyrirlesara hér fyrir neðan.

Lesa meira...

Tölfræði höfuðborgarsvæðisins á vef SSH

Alta hefur á undaförnum vikum aðstoðað Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við að koma á framfæri ýmsum gögnum um húsakost og búsetu. Með þessu er reynt að gefa vísbendingar um hvort þróun sé í samræmi við stefnu nýsamþykkts svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið. Gögn eru aðallega fengin frá Þjóðskrá og á grunni þeirra útbúin gagnvirk kort og gröf sem sýna húsakost og búsetu frá margvíslegum sjónarhornum. Hér er aðeins um fyrsta skref að ræða og aðeins sýnd gögn frá janúar 2016 en í framtíðinni verður hægt að sýna þróun frá einum tíma til annars. Sjá hér kort og gröf á vef SSH.

Með aðstoð Alta hefur SSH komið sér upp eigin gagnagrunni og landupplýsingaþjóni með því að leigja þessi kerfi af sérhæfðum hýsingaraðila erlendis. Allur hugbúnaður sem tengist þessari upplýsingaveitu er opinn og ókeypis. Má þar nefna Postgresql/PostGIS gagnagrunn, Geoserver landupplýsingaþjón og QGIS landupplýsingakerfi. Þeir sem nota landupplýsingakerfi geta tengst þjóninum og fengið upplýsingarnar til eigin nota. Um er að ræða fitjuþjónustu á slóðinni http://ssh.gistemp.com/geoserver/wfs. Alta hefur annast allar uppsetningar á gögnum, þjónustum, gagnvirkum gröfum og vefsjám.

Brú milli landshluta

Þrjú sveitarfélög, á mörkum tveggja landshluta, virkja samtakamáttinn.

Sveitarfélögin Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð hafa tekið höndum saman um að vinna að svæðisskipulagsáætlun og ráðið Alta til ráðgjafar við það verk. Sveitarfélögin hafa um árabil haft með sér samstarf af margvíslegum toga en samgöngubætur um Arnkötludal hafa styrkt svæðið betur sem heild og skapað tækifæri til enn frekari samvinnu, sem skilað getur byggðunum meiri árangri en ella.

Svæðisskipulagið verður nýtt sem verkfæri til að stilla saman strengi í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfis- og skipulagsmálum. Við mótun þess verður lögð áhersla á að draga upp mynd af auðlindum til sjávar og sveita og sérkennum í landslagi, sögu og menningu. Það er gert til að styrkja ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess gagnvart ferðamönnum, nýjum íbúum, fyrirtækjum og fjárfestum. Á grunni þeirrar myndar verður mörkuð stefna sem skilgreinir sameiginlegar áherslur og tækifæri sveitarfélaganna í atvinnu-, samfélags- og umhverfismálum og síðan skipulagsstefna sem styður við þær áherslur. Svæðisskipulagið myndar einnig ramma fyrir aðalskipulag hvers sveitarfélags og einfaldar vinnslu þess.

Á kynningarvef um verkefnið er hægt að lesa nánar um áætlunargerðina og þar verður hægt að fylgjast með framgangi hennar og nálgast ýmsar upplýsingar um svæðið. Lögð er áhersla á að nýta tiltæk landfræðileg gögn og birta á kortum til þess að fá þá heildarmynd sem nauðsynleg er. Þar kemur auðlindabanki ferðaþjónustunnar t.d. að góðum notum en einnig aðrir gagnagrunnar. Kortin verða birt jafnóðum, íbúum til fróðleiks og til nota fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum, s.s. til vöruþróunar og markaðssetningar og sem kveikjur að nýjum verkefnum og fyrirtækjum.

Bls 1 af 58

Upp