Fjögur ný græn farfuglaheimili

Alta hefur aðstoðað Bandalag íslenskra farfugla við úttektir til að staðfesta að heimilin uppfylli viðmið um græn farfuglaheimili. Nýlega bættust við fjögur farfuglaheimili í hóp grænna heimila og græn farfuglaheimili eru því þrettán talsins. Nýju heimilin eru á Reyðarfirði, Vagnsstöðum í Suðursveit, í Vík og Gaulverjaskóla í Gaulverjabæjarhreppi. 

Unnið er eftir viðmiðum frá 2003 sem ná til ýmissa þátta í rekstrinum, t.d. innkaupa, flokkunar, orkunotkunar og umhverfisfræðslu. Með þessu fyrirkomulagi eru rekstraraðilar hvattir til að taka markvisst á umhverfismálum.

Stækkandi markaður fyrir umhverfisvottaðar vörur

Til mikils að vinna, segir Hulda sérfræðingur Alta um Svansvottun, í viðtali við Fréttablaðið í vikunni en Alta hefur aðstoðað fjölda fyrirtækja við að fá umhverfisvottun Svansins allt frá 2006. Markaður fyrir umhverfisvottaðar vörur fer sífellt stækkandi, því æ fleiri neytendur vilja vera vissir um að varan sem þeir kaupa hafi hvorki skaðleg áhrif á þá eða umhverfið.  Fyrirtæki með Svansvottun skapa sér sérstöðu á ört stækkandi markaði og umhverfisvottun verður æ algengari hjá fyrirtækjum í fjölmörgum geirum, allt frá efna- og prentiðnaði yfir í hótel og veitingarekstur. Raunin er einnig sú að að öll þau fyrirtæki sem við höfum unnið með hafa séð sparnað í vottunarstarfi sínu og stolt og ánægt starfsfólk. Sjá hér nánar viðtalið við Huldu.

Ný aðkoma og umgjörð um Félagsgarð í Kjós

Félagsgarður í Kjós er sérlega reisuleg bygging og hefur verið vinsælt samkomuhús, t.d. til brúðkaupa, afmæla og annarra atburða. Það er enda vel í sveit sett og státar af fallegu útsýni yfir Hvalfjörðinn.

Kjósarhreppur fékk Alta til liðs við sig til að bæta aðkomu og umgjörð félagsheimilisins til að mæta hlutverki þess betur. Tillaga Alta miðaði að því að draga fram glæsileika hússins og umgjörð þess en jafnframt að halda í karakter þess sem félagsheimilis í sveit. Áhersla var lögð á að endurnýta það efni sem hægt var, svo sem hellur og gróður og að skapa betri tengingar milli hæða á byggingunni.

Lesa meira...

Gjaldtaka vegna uppbyggingar ferðamannastaða

Alta lauk nýlega við ritun skýrslu fyrir Ferðamálastofu sem gefur yfirlit yfir gjaldtökuleiðir vegna uppbyggingar ferðamannastaða erlendis. Einnig er reynt að skýra hvað falist gæti í hugmyndum um náttúrupassa en slíkum hugmyndum hefur verið vel tekið þótt nákvæm útfærsla hafi verið nokkuð á reiki. Í upphafi skýrslunnar er farið stuttlega yfir helstu hagstærðir til þess að lesandinn geti betur glöggvað sig á mögulegum áhrifum ólíkra gjaldtökuleiða ef þær væru innleiddar hér.

Eftir að ferðamönnum fór að fjölga nokkuð hratt upp úr aldamótum hefur reynst erfitt að láta uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða halda í við fjölgun gesta. Ábendingar hafa komið fram um þörf fyrir úrbætur hér og þar og ástand friðlýstra svæða hefur verið metið og aðgerðum forgangsraðað.

Mikil umræða var snemmsumars 2013 um brýna þörf fyrir gjaldtöku sem leið til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. Áhugi er á því hjá stjórnvöldum að bregðast hratt við. Á hinn bóginn er ljóst að gjaldtakan varðar hagsmuni margra enda er ferðaþjónusta orðin fjölmenn og kröftug atvinnugrein sem vegur sífellt þyngra í þjóðarbúskapnum. Forsenda sáttar um niðurstöðu og ákvörðun er að greinargóðar upplýsingar liggi fyrir og þessari skýrslu er ætlað að draga fram hluta af þeim.

Skýrsluna má nálgast hér, á vef Ferðamálastofu.

Metnir staðir fyrir hótel í Eyjum

Í Eyjum fjölgar ferðafólki, eins og annars staðar og þar hefur þróunaraðili áhuga á að reisa hótel. Vestmannaeyjabær fól Alta að meta fjóra staðsetningarkosti sem bærinn taldi að kæmu til greina. Metin voru áhrif kostanna á ýmsa þætti sem tengjast skipulagi og einnig reynt að meta meta hve næmir staðirnir eru fyrir sjónrænum áhrifum sem hótelbyggingin kann að hafa.

Kostamatið má sjá á vef Vestmannaeyjabæjar.

Upp