Krefjandi starf hjá Alta

Við hjá Alta leitum að ferskum og öflugum liðsmanni til að sinna ráðgjöf í umhverfismálum.
Við gerum miklar kröfur til umsækjenda, en ef þú ert sá rétti / sú rétta, þá hvetjum við þig eindregið til að sækja um!

Hjá Alta starfar víðsýnn og fjölbreyttur hópur ráðgjafa. Viðskiptavinir okkar eru margskonar; smærri og stærri fyrirtæki, einkaaðilar og “hið opinbera”. Umhverfismál og samfélagsleg ábyrgð hafa alltaf verið stór hluti af starfsemi Alta og við leitumst við að störf okkar hafi jákvæð áhrif fyrir viðskiptavini og samfélag.

Sjá auglýsingu hér.

Svæðisskipulag sem verkfæri til byggðaþróunar

Sveitarfélögin á Suðurlandi hafa verið að velta því fyrir sér hvort þau geti fengið meiru áorkað með auknu samstarfi í skipulagsmálum. Sem lið í þeirri umræðu héldu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ráðstefnu þann 25. mars sl. þar sem viðfangsefnið var: Er svæðisskipulag leið til betri framtíðar á Suðurlandi?

Á ráðstefnunni voru flutt fróðleg erindi um samvinnu í skipulagsmálum á svæðisvísu og að þeim loknum hélt Alta utanum samráðsfund, þar sem sameiginleg tækifæri í skipulagsmálum voru rædd. Hér má sjá erindi Matthildar Kr. Elmarsdóttur, skipulagsráðgjafa hjá Alta, þar sem hún fjallar um mögulegt hlutverk svæðisskipulags við byggðaþróun og segir frá nýju svæðisskipulagi Snæfellsness, þar sem Alta veitti faglega ráðgjöf. Svæðisskipulagið fékk skipulagsverðlaunin 2014.

Eldhús og matsalir Landspítala með Svansvottun

Minni matarsóun, meira lífrænt ræktað, minni plastnotkun og meira til endurvinnslu.
Með Svansvottuninni staðfestist að mötuneytið uppfyllir strangar umhverfis- og gæðakröfur. Eldhúsið og matsalirnir sem eru 10 talsins, framleiða og selja 4500 máltíðir á dag fyrir starfsmenn, gesti og sjúklinga spítalans. Áhrifin sem slík starfsemi getur haft eru því mikil.
Alta hefur aðstoðað við að uppfylla kröfur Svansins með öflugu teymi.

Lesa meira...

Norræn vinnustofa um svæðisgarða

Norræn vinnustofa um svæðisgarða var haldin á Snæfellsnesi 18.-20. febrúar sl. Þar gafst gullið tækifæri til að ræða hvernig til hafi tekist við stofnun og rekstur þeirra svæðisgarða sem komnir eru vel á legg á Norðurlöndunum. Í ljós kom að reynslan er jákvæð og tækifærin mýmörg til að styrkja svæði og gera nýja hluti á vettvangi svæðisgarða.

Heimamenn á Snæfellsnesi, sem nýlega stofnuðu Svæðisgarðinn Snæfellsnes, nutu þarna góðs af reynslusögum frá rótgrónum svæðisgörðum í nágrannalöndunum og ljóst var að erlendu gestunum leist vel á þá vinnu sem farið hefur fram á Snæfellsnesi. Síðar verður gerð grein fyrir afrakstri vinnustofunnar - ætlunin er líka að halda áfram þessu norræna samstarfi.

Hér er myndband sem sýnir stutta samantekt af nýafstaðinni vinnustofu.

Vaxandi notkun QGIS

QGIS landupplýsingahugbúnaðurinn hefur þróast mjög ört á undanförnum misserum. Þetta er opinn hugbúnaður sem fæst án endurgjalds. Fullyrða má að með honum megi sinna öllum algengustu verkefnum sem slíkur hugbúnaður er ætlaður fyrir. Alta hefur notað QGIS fyrir skipulagsuppdrætti og ýmsa landupplýsingavinnslu og reynslan er mjög góð. Þannig eru t.d. allir uppdrættir í tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Seltjarnarness, sem er í vinnslu hjá Alta, unnir í QGIS og í samræmi við tillögur um innleiðingu stafræns skipulags. 

Hjá ýmsum opinberum aðilum er áhugi á að nota QGIS fyrir ýmsa landupplýsingavinnslu og Alta getur aðstoðað og miðlað af reynslu sinni í þeim efnum, t.d. með kennslu og leiðsögn.

Upp