Útibúið í Grundarfirði flutt

Útibú Alta í Grundarfirði hefur flutt sig um set og er núna að Grundargötu 30, þar sem sem skrifstofur sveitarfélagsins hafa verið til húsa undanfarin ár. Á næstu vikum munu skrifstofur sveitarfélagsins flytjast í húsnæðið við Borgarbraut þar sem útibúið var áður. Á meðan er millibilsástand og hlutum komið fyrir til bráðabirgða. Allt ætti að vera komið í endanlegt horf í apríl.

Björg og Kristín Rós hlakka til að fá heimsóknir á Grundargötu 30!

Staðarandi Reykhóla

Reykhólar eru áhugavert þorp með einstaka náttúrulega umgjörð. Alltof fáir koma þangað til að njóta náttúrufegurðar, menningar og sögu. Þar er líka mikill áhugi á nýtingu nærtækra náttúrugæða, ekki síst þara og þangs. Boðið er upp á þaraböð og fæðubót úr þara, þaramjöl hefur verið unnið á Reykhólum í áratugi og nýlega bættist við saltverksmiðja.

Í tengslum við vangaveltur um skipulagsmál á svæðinu sunnan við Reykhóla var Alta fengið til að greina staðaranda og auðlegð svæðisins. Niðurstöðu greiningarinnar ásamt tillögum má sjá í skýrslunni “Staðarandi Reykhóla, greining og tillögur” en hún byggir á upplýsingum sem komu fram á íbúafundi í mars 2013, samtölum við heimamenn og vettvangskönnunum.

Tilgangurinn með skýrslunni er að draga fram auðlegð og sérstöðu svæðisins ásamt hugmyndum um það hvernig má styrkja hana til að skerpa ímynd Reykhóla út á við. Íbúar og fyrirtæki geta þá nýtt sér hana og áhugasamir fjárfestar geta betur glöggvað sig á kaupbætinum sem þeir fá.

Sjá hér einnig frétt á vef Reykhólahrepps en hann er með öflugustu sveitarfélagavefjum á landinu.

Nýr starfsmaður: Þorsteinn Kári Jónsson

Þorsteinn Kári Jónsson hefur hafið störf sem sérfræðingur í samfélagsábyrgð og stefnumótun hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta. Þorsteinn hefur mastersgráðu frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS), þar sem hann lagði sérstaka áherslu á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og sjálfbærni í fyrirtækjarekstri og tók m.a. aukagráðu í samfélagslegri frumkvöðlastarfsemi. Þorsteinn starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sat á vegum hennar í tækninefnd staðlaráðs við gerð ISO 26000 sem og í stjórn faghóps Stjórnvísis um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, þar sem hann er nú formaður. Einnig hefur Þorsteinn starfað hjá rannsóknasetri CBS um samfélagsábyrgð og kennt samfélagsábyrgð við Háskólann á Bifröst. Þorsteinn er góður liðsauki í ráðgjafahóp Alta sem aðstoðað hefur fyrirtæki við innleiðingu samfélagsábyrgðar síðan 2001.

Tímamót í samfélagsábyrgð á Íslandi?

Segja má að á ráðstefnu Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og Samtaka atvinnulífsins, undir yfirskriftinni "Fyrirtæki og samfélagið: Sameiginlegur ávinningur", 23. janúar 2014, hafi orðið nokkur tímamót í innleiðingu samfélagsábyrgðar á Íslandi. Fullt var út að dyrum, um 200 manns mættu og hlýddu á áhugaverða reynslusögur sex íslenskra fyrirtækja. Ljóst er að þeim fer stöðugt fjölgandi sem átta sig á mikilvægi samfélagsábyrgðar í starfsemi fyrirtækja. Alta hefur m.a. aðstoðað þrjú þeirra fyrirtækja sem sögðu sögu sína á ráðstefnunni og sinnt ráðgjöf um samfélagsábyrgð síðan 2001.

Bitastæð borg?

Heiða Aðalsteinsdóttir, landslagsarkitekt og ráðgjafi Alta hélt hádegisfyrirlestur um matvælaframleiðslu og borgarskipulag á Læknadögum í Hörpu þann 20. janúar. Fyrirlesturinn, sem nefnist „Bitastæð borg: getur borgin nært okkur með réttu skipulagi“, fjallar um víðtæk jákvæð áhrif matjurtaræktunar á lýðheilsu íbúa sem hana stunda. Rannsóknir sýna fram á að matjurtaræktendur auka grænmetisneyslu sína umtalsvert (einnig utan vaxtartímabils), hreyfa sig meira en 30 mín. á dag, búa við bætta geðheilsu og velja hollari matvæli. Það er því eftir miklu að slægjast með aukinni ræktun. Sýnt hefur verið fram á að Lundúnabúar gætu fullnægt 30% af eftirspurn eftir fersku grænmeti með ræktun á afgangssvæðum innan borgarmarka eingöngu. Hérlendis er einnig vaxandi áhugi á matjurtarækt. Nefna má að Reykjavíkurborg hefur fyrst sveitarfélaga sett stefnu um borgarbúskap í sínu aðalskipulagi. Áhugaverð nálgun sem er líkleg til að slá tóninn fyrir önnur sveitarfélög. Stefnan leiðir einnig af sér spurningar um hvort nýta mætti borgarlandið með fjölbreyttari hætti og uppskera verðmætari vöru en grasflatir bjóða upp á.

Sjá má allt erindi Heiðu á YouTube hér.

Hér er stutt útvarpsviðtal sem var tekið við Heiðu á Læknadögum.

Myndin er af einu af verkum Carl Warner.

Upp