Samfélagsábyrgð: Hagsæld fyrir mig og þig

Við hjá Alta þekkjum úr okkar ráðagjafarstarfi að auðveldara er að reka fyrirtæki með ábata, sem eru samfélagsábyrg. Samfélagsábyrgð er áhættustjórnun í raun, fyrirtæki vinna nánar með samfélaginu, njóta meiri virðingar og þekkja betur þarfir hagsmunaðila sinna. Lykillinn er nýskapandi hugsun og dæmin koma skemmtilega á óvart.

Við hjá Alta viljum miðla þessari reynslu og styrktum því málþing FKA á alþjóðadegi kvenna, í Silfurbergi í Hörpunni sem haldið var þann 8. mars 2014. Þar ræddu Afsané Bassir-Pour frá UNRIC um samfélagslega ábyrgð og ávinning fyrir fyrirtæki og samfélög í heild ásamt Halldóru Hreggviðsdóttur framkvæmdastjóra Alta, Sigurborgu Arnarsdóttur hjá Össuri og Janne Sigurdsson hjá Alcoa Fjarðaráli.

Hér er erindi Halldóru sem hún kallaði "Samfélagsábyrgð: Hagsæld fyrir mig og þig".

Menningar- og umhverfistúlkun = aragrúi fræðsluskilta?

Við hjá Alta aðstoðum við greiningu á staðaranda (e. sense of place) og nýtingu hans við ímyndarsköpun í ferðaþjónustu og við skipulagningu eða hönnun svæða. Þannig er t.d. staðarandi Snæfellsness einn grunnur að svæðisskipulagi fyrir svæðið, sjá hér.

Við aðstoðum einnig við menningar- og umhverfistúlkun (e. heritage interpretation) svæða, staða eða leiða, en slík túlkun getur aukið skilning fólks á þeim sögum sem búa í svæði og þeim upplýsingum sem má lesa úr landslagi og þar með styrkt upplifun og ánægju. Góð túlkun og miðlun á sögu og náttúru getur verið mikilvægari en skiltaskógur.

En hvernig túlkum við upplýsingar um sögu eða náttúru? Hér er dæmi frá Garðahverfi þar sem saga og náttúra svæðis er túlkuð, bæði sem grunnur að skipulagi og útivist. Sjá skipulagsgögn hér.

Vistvænt og samhent samfélag á Seltjarnarnesi

Sveitarfélög í nágrannalöndum okkar hafa í æ ríkara mæli valið að marka sér heildstæða framtíðarsýn þvert á hefðbundna stefnuflokka sem nefnd hefur verið “Whole Town Strategy”. Kostir slíkrar nálgunar eru ekki síst að ná utan um fjölbreytt málefni samfélagsins á heildstæðan og samræmdan hátt í stað þess að setja ólík málefni í mismunandi kassa og missa þá mögulega sjónar á því hvernig þau tengjast og hafa áhrif hvort á annað. Heildstæð stefnumótandi áætlanagerð sem þessi aðstoðar bæjaryfirvöld í átt að jákvæðum efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum breytingum.

Seltjarnarnesbær fékk ráðgjafa Alta til liðs við sig til að hnýta saman í heildarmynd þær áherslur sem markaðar hafa verið og verkefni sem unnið er að hjá bænum og snúa að umhverfi, útivist og vellíðan. Í tengslum við þessa vinnu var áhugi fyrir því að leita til íbúa eftir hugmyndum og sjónarmiðum varðandi framtíðarsýn í þessum málaflokkum en Seltjarnarnesbær taldi mikilvægt að íbúar væru virkir þátttakendur í þessu ferli. Vinnan samanstóð af stöðugreiningu, vinnufundi með starfsmönnum og nefndarmönnum bæjarins, vel sóttu íbúaþingi og greiningu niðurstaðna.

Úr þessari vinnu urðu til sjö viðmið Seltjarnarness sem hnýta saman áherslur fjölmargra málaflokka á borð við umhverfisstefnu, Staðardagskrá 21, menningarstefnu o.fl. í heildstæða framtíðarsýn. Viðmiðin sjö má líta á sem regnhlíf og leiðbeiningar til allra þeirra er vinna að málaflokkum tengdum umhverfis- og samfélagsmálum á Seltjarnarnesi og vilja veg þeirra sem mestan. Sjá nánar hér.

Bitastæð borg - Erindi Heiðu á YouTube

Heiða Aðalsteinsdóttir landslagsarkitekt hjá Alta, hélt fyrirlestur á Læknadögum um einn anga lýðheilsu - eða nánar um matvælaframleiðslu í borgum. Spurt var hvort borgir og bæir geti nært okkur betur en nú er? Hún var beðin um að taka erindið upp og hér fylgir það með.

Útibúið í Grundarfirði flutt

Útibú Alta í Grundarfirði hefur flutt sig um set og er núna að Grundargötu 30, þar sem sem skrifstofur sveitarfélagsins hafa verið til húsa undanfarin ár. Á næstu vikum munu skrifstofur sveitarfélagsins flytjast í húsnæðið við Borgarbraut þar sem útibúið var áður. Á meðan er millibilsástand og hlutum komið fyrir til bráðabirgða. Allt ætti að vera komið í endanlegt horf í apríl.

Björg og Kristín Rós hlakka til að fá heimsóknir á Grundargötu 30!

Upp