Gjaldtaka vegna uppbyggingar ferðamannastaða

Alta lauk nýlega við ritun skýrslu fyrir Ferðamálastofu sem gefur yfirlit yfir gjaldtökuleiðir vegna uppbyggingar ferðamannastaða erlendis. Einnig er reynt að skýra hvað falist gæti í hugmyndum um náttúrupassa en slíkum hugmyndum hefur verið vel tekið þótt nákvæm útfærsla hafi verið nokkuð á reiki. Í upphafi skýrslunnar er farið stuttlega yfir helstu hagstærðir til þess að lesandinn geti betur glöggvað sig á mögulegum áhrifum ólíkra gjaldtökuleiða ef þær væru innleiddar hér.

Eftir að ferðamönnum fór að fjölga nokkuð hratt upp úr aldamótum hefur reynst erfitt að láta uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða halda í við fjölgun gesta. Ábendingar hafa komið fram um þörf fyrir úrbætur hér og þar og ástand friðlýstra svæða hefur verið metið og aðgerðum forgangsraðað.

Mikil umræða var snemmsumars 2013 um brýna þörf fyrir gjaldtöku sem leið til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. Áhugi er á því hjá stjórnvöldum að bregðast hratt við. Á hinn bóginn er ljóst að gjaldtakan varðar hagsmuni margra enda er ferðaþjónusta orðin fjölmenn og kröftug atvinnugrein sem vegur sífellt þyngra í þjóðarbúskapnum. Forsenda sáttar um niðurstöðu og ákvörðun er að greinargóðar upplýsingar liggi fyrir og þessari skýrslu er ætlað að draga fram hluta af þeim.

Skýrsluna má nálgast hér, á vef Ferðamálastofu.

Metnir staðir fyrir hótel í Eyjum

Í Eyjum fjölgar ferðafólki, eins og annars staðar og þar hefur þróunaraðili áhuga á að reisa hótel. Vestmannaeyjabær fól Alta að meta fjóra staðsetningarkosti sem bærinn taldi að kæmu til greina. Metin voru áhrif kostanna á ýmsa þætti sem tengjast skipulagi og einnig reynt að meta meta hve næmir staðirnir eru fyrir sjónrænum áhrifum sem hótelbyggingin kann að hafa.

Kostamatið má sjá á vef Vestmannaeyjabæjar.

Samtvinnun borgar og náttúru - samvinna er leiðin

Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta, hélt erindi nýlega á TEDxReykjavík um þá miklu áskorun að vinna með náttúrunni í skipulagi borga. Hún fjallaði um þann styrk sem felst í samvinnu íbúa og sérfræðinga með ólíkan bakgrunn og reynslu við leit lausna í skipulagsvinnu og rakti árangur slíkrar samvinnu í Urriðaholti í Garðabæ. Þar var varðveislu Urriðavatns, einni helstu áskoruninni, breytt í tækifæri og farin ný og óhefðbundin leið, sem vinnur með náttúrunni um leið og hún styrkir lífsgæði og stuðlar að vellíðan íbúa hverfisins í Urriðaholti. Sjá má upptöku af erindi Halldóru hér.

Rammaskipulag Urriðaholts hefur fengið viðurkenningu frá Urban Design Committee, Boston Society of Architects vegna áherslna á sviði sjálfbærni. Það hefur einnig fengið silfur verðlaun fyrir áherslur um lífgæði í borgarskipulagi frá alþjóðlegu samtökunum LivCom (International Award for Livable Communities), í flokknum “Environmentally Sustainable Projects”.

Lokaúttekt á jarðvarmaverkefni í Níkaragúa

Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta og Stefán Arnórsson prófessor, hafa unnið lokaúttekt þar sem metinn var árangur samvinnuverkefnis Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og stjórnvalda í Níkaragúa, við uppbyggingu þekkingar hjá stjórnvöldum á sviði jarðhita, frá 2007 - 2012. Það var afar ánægjulegt að kynnast því góða starfi sem Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið að með stjórnvöldum í Níkaragúa og fá tækifæri til að sjá þann árangur sem þegar hefur náðst, en helstu niðurstöður lokaúttektarinnar eru þær að árangur þessa starfs hafi verið mjög góður. Úttektina má finna á vef Þróunarsamvinnustofnunar á ensku og spænsku.

Nýjar loftmyndir: Grundarfjörður og Sjáland

Með hækkandi sól eru farnar að bætast myndir í loftmyndasafn Alta. Nú síðast bættust við myndir af Sjálandi í Garðabæ og af Grundafjarðarbæ.

Nú eru í safninu alls rúmlega 2500 myndir. Hér má sjá yfirlit: www.alta.is/loftmyndir.

Upp