top of page

Fjölskylduvænt samfélag á Akranesi


Skýr sýn og áhersla á fjölskyldu- og íþróttabæinn Akranes var áberandi í umræðum og skilaboðum þátttakenda á samráðsfundi, íbúaþingi, sem bæjarstjórn Akraness bauð til sl. laugardag. Í umræðunum endurspegluðust þau sjónarmið að á Akranesi hafi á liðnum árum verið byggð upp fjölbreytt þjónusta fyrir alla aldurshópa, sem beri að standa vörð um. Góðir skólar og metnaður fyrir skólastarfi voru meðal þeirra atriða sem þátttakendur töldu til sérstakra gæða samfélagsins sem bæri að treysta enn frekar. Íþróttabærinn Akranes var sömuleiðis mjög oft nefndur og hefðin fyrir kröftugu íþróttastarfi. Heilnæmt og snyrtilegt umhverfi og metnaður fyrir góðri umgengni var þátttakendum einnig ofarlega í huga og var hvatt til samstillts átaks bæjarbúa í fegrun umhverfisins. Öflug heilbrigðis- og félagsþjónusta var jafnframt meðal þess sem fundarmenn töldu að bæri að standa vörð um, ekki síst á erfiðum tímum.

Rúmlega fimmtíu manns tóku þátt í jákvæðum og uppbyggilegum samræðum. Boðið var upp á barnagæslu á staðnum, kaffiveitingar og léttan hádegisverð. Fundarmenn ræddu bæði um þau gæði sem þeir töldu samfélagið búa yfir og það sem vel hefði tekist til með, einnig um það sem efla bæri enn frekar. Fundurinn, sem haldinn var í Grundaskóla, stóð í rúmar þrjár klukkustundir og var umræðan tvískipt. Annars vegar var sjónum beint að þeim sérstöku gæðum sem fundarmenn vildu að Akranes væri þekkt fyrir. Í síðari hluta umræðunnar var svo unnið áfram með þær niðurstöður og leitað eftir hugmyndum um leiðarljós og einstök viðfangsefni sveitarstjórnar og íbúanna sjálfra, bæði til skemmri og lengri tíma. Þar er til dæmis um að ræða atriði sem snúa að fjölskyldu-og samfélagsmálum, umhverfis- og skipulagsmálum og atvinnumálum og nýsköpun.




Tilefni og boðun samráðsfundarins er í samræmi við þá sýn og áherslur sem fram komu í stefnu allra stjórnmálaflokka á Akranesi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðasta vor. Helstu markmið fundarins voru að fá fram sjónarmið íbúa til mikilvægra lífsgæða og forgangsverkefna í samfélaginu. Afrakstur fundarins verður nýttur við fjárhagsáætlunargerð ársins 2011 og einnig ætlaður sem viðmið í ákvörðunartöku bæjarstjórnar til lengri tíma.

Umsjón með íbúafundinum var í höndum ráðgjafafyrirtækisins Alta í Reykjavík og Grundarfirði, sem jafnframt annaðist úrvinnslu úr skilaboðum fundarins. Upplýsingar um efni og niðurstöður fundarins hafa nú verið birtar á sérstökum vef, akranes.alta.is, sem er opinn öllum.

bottom of page