Reykjavíkurborg hefur birt í skipulagsgátt skipulags- og matslýsingu fyrir tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna nýs rammahluta um skipulag Keldnalands. Hluti af lýsingunni er greining á forsendum fyrir uppbyggingu Keldnalandsins, sem Alta vann árið 2021 vegna undirbúnings fyrir hugmyndasamkeppni sem haldin var um skipulag svæðisins. Keldnalandið er eitt af mikilvægustu þróunarsvæðum borgarinnar með áherslu á vistvæna byggð og samgöngur þar sem uppbygging Borgarlínu gegnir lykilhlutverki.
Reykjavíkurborg vinnur nú að því með sigurvegara hugmyndasamkeppninnar, sænsku ráðgjafarstofunni FOJAB og verkfræðistofunni Ramböll, að móta nýjan rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur fyrir Keldnalandið.
Að mati Alta er á Keldnalandi tækifæri til að efla byggð í austurhluta borgarinnar. Svæðið er bæði mikilvægur hlekkur til að tengja Grafarvoginn og aðliggjandi hverfi betur saman en um leið lykilpúsl í framtíðarþróun alls höfuðborgarsvæðisins samhliða uppbyggingu vistvænna samgangna.
Greining Alta byggir á fjórum leiðarljósum sem samsvara meginstefjum sem birtust í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur:
Þétt og lifandi byggð meðfram Borgarlínu
Vistvæn og heilsueflandi hverfi
Byggt á einstakri náttúru og sögu
Fjölbreytt og aðlaðandi byggð
Alta tók einnig saman helstu tækifæri og áskoranir þegar kemur að uppbyggingu svæðisins. Skipulags- og matslýsinguna má í heild sinni sjá hér en forsendugreiningin byrjar á blaðsíðu 93. Nú verður spennandi að sjá Keldnahverfið byggjast upp.
Σχόλια