top of page

Gjaldtaka vegna uppbyggingar ferðamannastaðaAlta lauk nýlega við ritun skýrslu fyrir Ferðamálastofu sem gefur yfirlit yfir gjaldtökuleiðir vegna uppbyggingar ferðamannastaða erlendis. Einnig er reynt að skýra hvað falist gæti í hugmyndum um náttúrupassa en slíkum hugmyndum hefur verið vel tekið þótt nákvæm útfærsla hafi verið nokkuð á reiki. Í upphafi skýrslunnar er farið stuttlega yfir helstu hagstærðir til þess að lesandinn geti betur glöggvað sig á mögulegum áhrifum ólíkra gjaldtökuleiða ef þær væru innleiddar hér.

Eftir að ferðamönnum fór að fjölga nokkuð hratt upp úr aldamótum hefur reynst erfitt að láta uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða halda í við fjölgun gesta. Ábendingar hafa komið fram um þörf fyrir úrbætur hér og þar og ástand friðlýstra svæða hefur verið metið og aðgerðum forgangsraðað.

Mikil umræða var snemmsumars 2013 um brýna þörf fyrir gjaldtöku sem leið til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. Áhugi er á því hjá stjórnvöldum að bregðast hratt við. Á hinn bóginn er ljóst að gjaldtakan varðar hagsmuni margra enda er ferðaþjónusta orðin fjölmenn og kröftug atvinnugrein sem vegur sífellt þyngra í þjóðarbúskapnum. Forsenda sáttar um niðurstöðu og ákvörðun er að greinargóðar upplýsingar liggi fyrir og þessari skýrslu er ætlað að draga fram hluta af þeim.

Skýrsluna má nálgast hér, á vef Ferðamálastofu.

bottom of page