top of page

Gróðurinn, vatnið og tíminn - í Kauptúni!Steinn Steinarr orti eftirminnilega um vatnið sem rennur veglaust til þurrðar - eins og tíminn. En í Kauptúni í Garðabæ rennur vatnið alls ekki veglaust - þvert á móti ...

Hafið þið veitt því athygli að í Kauptúni er óvenju mikið af gróðri á bílastæðum við verslanir? Trén, runnarnir og grasið eru ekki eingöngu falleg á að líta heldur þjóna grænu svæðin veigamiklu hlutverki við miðlun regnvatns. Á hefðbundnum bílastæðum rennur allt vatn ofan í niðurföll og fer þaðan óhreinsað um fráveitukerfi út í sjó. Í Kauptúni er öllu regnvatni beint markvisst í grænu svæðin þaðan sem vatnið síast smám saman niður í gegnum grasið og hreinsast um leið. Í mikilli rigningu eins og í gær safnast vatnið í grænu geirana og myndar þar læki eða polla. En það er aðeins tímabundið. Grænu svæðin hafa nefnilega það hlutverk að taka við vatninu og leyfa því að síast þar rólega niður - með tímanum. „Ræsin“ flytja vatnið á milli grænu svæðanna eftir þörfum. Þetta kerfi kallast blágrænar regnvatnslausnir og er umhverfisvænsta leiðin við meðhöndlun regnvatns. Þar spilar gróðurinn listilega með vatninu og tímanum, svo vísað sé í skáldið góða.

Hér má sjá stutt myndbönd frá Urriðaholti í Garðabæ og Susdrain í Bretlandi um hvernig slíkar lausnir virka. Urriðaholt og Kauptún eru fyrstu hverfin á Íslandi með þessar umhverfisvænu regnvatnslausnir.


bottom of page