top of page

Gleðitíðindi í umhverfismálum á Íslandi


Sjálfbær meðhöndlun regnvatns er eitt af stærstu umhverfismálum í heiminum. Til að tryggja farsæla innleiðingu á Íslandi, þá er nauðsynlegt að hafa innlendar rannsóknir á þessu sviði. Sjálfbærar regnvatnslausnir, eða blágrænar regnvatnslausnir, voru fyrst innleiddar í heilu hverfi á Íslandi í Urriðaholti í Garðabæ.


Prófessor Hrund Ólöf Andradóttir hjá Háskóla Íslands sá því að Urriðaholtið er kjörinn vettvangur til rannsókna og mun leiða þar alþjóðlegar rannsóknir á sviði blágrænna regnvatnslausna. Undir hennar stjórn hafa Háskóli Íslands, Garðabær, Urriðaholt ehf. og Veðurstofan, tekið höndum saman um stofnun rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna í Urriðaholti í Garðabæ.


Í dag var skrifað undir samstarfssamning á milli Háskóla Íslands, Garðabæjar, Urriðaholts ehf. og Veðurstofunnar, um uppsetningu og rekstur nýrrar hátækni veðurstöðvar í Urriðaholti í Garðabæ, meðal þeirrar fullkomnustu á landinu. Veðurstöðin er lykillinn að því að hægt sé að sinna þessum rannsóknum. Samhliða munu nemendur í Urriðaholtsskóla og íbúar í Urriðaholti, geta fylgst nákvæmlega með veðrinu í hverfinu.

Við hjá Alta gleðjumst yfir þessum árangri og þökkum fyrir að hafa fengið að taka þátt í að móta og styðja við það rannsóknarstarf sem framundan er í Urriðaholtinu. Alta sá um rammskipulagsvinnuna í Urriðaholti. Sjá hér nánari upplýsingar um þær blágrænu og hér um skipulagsvinnuna.


bottom of page