top of page

Kynning á skipulagstillögu fyrir Sauðárkrók



Fjölmenni var á íbúafundi um skipulagsmál á Sauðárkróki sem haldinn var mánudaginn 23. nóvember. Á fundinum kynnti ráðgjafarfyrirtækið Alta tillögur að nýju aðalskipulagi fyrir Sauðárkrók ásamt rammaskipulagsuppdrætti sem er hugsaður sem leiðbeinandi fyrir deiliskipulagsgerð. Tillögurnar eru ennþá á vinnslustigi en gert er ráð fyrir að tillaga til formlegrar auglýsingar skv. skipulags- og byggingarlögum líti dagsins ljós í byrjun næsta árs.

Skipulagsvinnan hófst með íbúaþingi á Sauðárkróki í febrúar á þessu ári. Þar var leitað í smiðju íbúa eftir áherslum og hugmyndum sem varða framtíðaruppbyggingu bæjarins. Eins hefur verið leitað eftir hugmyndum ýmissa hagsmunaaðila, fyrirtækja, félagasamtaka, embættismanna og opinberra stofnanna. Allar þær hugmyndir sem komið hafa fram hafa verið metnar og margar þeirra orðið hluti að þeim tillögudrögum sem nú eru í kynningu.

Helstu áherslur tillögunnar eru að uppbygging verði, eins og kostur er, innan þeirra marka sem núverandi gatnanet markar. Með þeim hætti væri hægt að koma fyrir 3500 manna byggð áður en farið væri með byggð uppá Nafir. Þessum áherslum eru ætlað að tryggja að byggð geti verið aðlaðandi hvort sem íbúum fjölgar hratt eða hægt á næstu árum. Verði íbúafjölgun í samræmi við mannfjöldaspár Hagstofunnar fyrir landið í heild eða ívið meiri verður Sauðárkrókur 3500 manna bær eftir 20 – 30 ár.

Góðar almennar umræður voru á fundinum og íbúar viljugir til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, ekki síst um framtíðarsvæði fyrir knattspyrnuæfingar. Tillögudrögin eru nú kynnt á vef sveitarfélagsins og gefst íbúum nú kostur á að koma ábendingum á framfæri til 17. desember. Í kjölfarið mun skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar ásamt skipulagsráðgjöfum Alta móta lokatillögu sem í framhaldinu fer í lögbundið umsagnar- og kynningarferli.

Tillögu að rammaskipulagsuppdrætti má sjá hér.

Yfirlitsmyndband úr landlíkani má sjá hér.

Kynningu á skipulagstillögunni má sjá og hlýða á hér, kynningin tekur um 50 mínútur.

bottom of page