top of page

Skýrsla um innleiðingu stafræns skipulags


Við úthlutun úr Rannsókna- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar í fyrra var Alta veittur styrkur til að móta tillögur um innleiðingu stafræns skipulags á Íslandi. Með stafrænu skipulagi er hér átt við skipulagsgögn á landupplýsingaformi, líkt og mörg önnur gögn sem opinberir aðilar safna um náttúrufar, menningararf, núverandi landnotkun og fleira. Gagnsemi stafræns skipulags felst einkum í því að auðvelt verði að setja upplýsingar um skipulag í samhengi við aðrar landupplýsingar og miðla ákvæðum skipulags innan stjórnsýslunnar og til borgaranna.

Tillögur Alta hafa nú verið settar fram í skýrslu (sjá neðar). Í henni er farið yfir þær spurningar sem skipulagsyfirvöld standa frammi fyrir í þessu sambandi og mótaðar tillögur um svör við þeim ásamt drögum að áætlun um innleiðingu. Í áætluninni er tiltekið hvaða skref þarf að stíga og hvernig breytingin snertir hagsmunaaðila. Í viðauka eru sett fram drög að fitjuskrá fyrir skipulagsáætlanir sem byggjast á umfangsmikilli mótun hliðstæðrar fitjuskrár á vegum INSPIRE áætlunar Evrópusambandsins. Höfundur skýrslunnar er Árni Geirsson.

bottom of page