Flest viðfangsefni Alta snúast um landnotkun af einhverju tagi, ekki síst í skipulagsmálum. Þá skiptir máli að hafa góða yfirsýn yfir allt sem kann að skipta máli, t.d. um innviði, náttúruvernd, stjórnsýslumörk og margt fleira. Vefsjár eru afar hentugar til að skoða landupplýsingar sem til eru og líka til að miðla nýjum upplýsingum til íbúa og annarra hagsmunaaðila. Við notum þær mikið og sérsníðum gjarnan að viðfangsefninu hverju sinni.
Sífellt bætast við gagnlegar landupplýsingar sem stofnanir og aðrir opinberir aðilar miðla og ná yfir landið allt. Við höfum lengi notað vefsjá fyrir þessar upplýsingar innan húss hjá okkur en opnum hana núna fyrir hvern sem er. Þar er að finna ýmislegt sem lýtur að landnotkun og skipulagi og gæti því gagnast þeim sem um þau mál fjalla, t.d. hjá sveitarfélögum. Við vonum að vefsjáin komi að gagni, hún er á slóðinni www.vefsja.is.
Við gerum ráð fyrir því að þróa vefsjána áfram, t.d. eftir því sem ný gögn verða aðgengileg. Nú þegar eru 32 þekjur sýnilegar en allar ábendingar um nýtt efni og það sem betur má fara eru vel þegnar. Notkun vefsjárinnar skýrir sig að mestu sjálf. Ef smellt er á atriði sem sýnt er á kortinu koma yfirleitt fram nánari upplýsingar á spássíunni. Það má líka velja ýmis grunnkort, þ.á.m. loftmynd, ef smellt er á "Grunnkort".
Alta vinnur nær eingöngu með opinn landupplýsingahugbúnað, svo sem QGIS, Geoserver, PostGIS og OpenLayers. Við getum aðstoðað þá sem vilja nýta þessi frábæru kerfi.