top of page

Gönguvænn Grundarfjörður

Updated: Dec 11, 2020



Gönguvænar áherslur í Grundarfirði

Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, var í morgunútvarpinu á Rás 2 í vikunni og ræddi um gönguvænar áherslur í nýju aðalskipulagi Grundarfjarðar.  Hún segir að það séu ekki aðeins vegalengdir sem ráði því hvort að fólk fari gangandi eða velji aðrar fararmáta. Upplifunin og aðstæður skipta líka miklu máli.

Meðal þess sem hefur verið gert er að greina hvað hindrar að fólk nýti sér gönguferðir meira en raun ber vitni til daglegra ferða sinna. Í framhaldi af því voru skilgreindar megingönguleiðir, bæði sem útivistar- og samgönguleiðir.  Hún sagði að með tíð og tíma mætti skapa meira skjól og bæta aðbúnað fyrir gangandi vegfarendur. Um leið og hugað væri að því að bæta aðgengi fyrir gangandi væri hugað að bættu aðgengi fyrir alla hópa, svo sem eldri borgara og fólk með skerta hreyfigetu. Einnig á að fegra bæinn.

„Í seinni tíð er verið að vekja meiri athygli á að það er upplifunin af því að ganga sem við þurfum að huga meira að. Að hún sé ánægjuleg. Við höfum kannski einblínt mikið á öryggismál og aðgengismál þegar kemur að gangandi vegfarendum en nú þarf að fara að beina sjónum meira að göturýmunum. Hvernig þau halda utan um gangandi vegfarendur. Bjóða þeim upp á ánægjulega upplifun. Þar kemur gróður til dæmis inn í, lýsing, fallegt og vel hannað umhverfi, áningarstaðir þar sem er hægt að setjast niður og hvíla sig,“ sagði Matthildur. Hún sagði hægt að gera ýmislegt betur í göturýminu til að hjálpa fólki að ganga meira.


Stígar innan bæjar og utan

Í nýju aðalskipulagi Grundarfjarðar er gert ráð fyrir göngu- og útivistarstígum innanbæjar sem tengist lengri stígum út úr þéttbýlinu. Skipulagið gerir ráð fyrir meiri og betri tengingu úr miðbænum að Kirkjufellsfossi, vinsælum áfangastað, sagði Matthildur. Hún sagði að þar með gætu ferðamenn stoppað í bænum og gengið þaðan frekar en að flykkjast allir á lítið bílastæði næst áfangastað.

Hlusta má á viðtalið hér. 




bottom of page