30 mín dagleg ganga getur haft margvísleg jákvæð áhrif á líkama og huga, auk þess að bæta loftgæði með minni notkun bifreiða. Það er því til mikils að vinna að koma göngu inn í daginn. Helsti hvatinn er þó væntanlega peningurinn sem sparast og kílóin sem tapast. Og allt sem þarf til að ná í þessi fjölþættu og góðu áhrif er í grófum dráttum bara það, að klæða sig vel og eiga þægilega vatnshelda skó - Og jú kannski bæta sig aðeins í tímastjórnun. En þó svo þetta sé að miklu leyti undir okkur sjálfum komið þá hefur vel útfært bæjarskipulag mikilvægu hlutverki að gegna við að gera göngu að sjálfsögðum og auðveldum valkosti. Þetta voru skilaboð Matthildar Kr. Elmarsdóttur, skipulagsfræðings hjá Alta á Skipulags- og umhverfismatsdegi Skipulagsstofnunar í dag. Grundarfjarðarbær hefur nú hafið átak við að gera bæinn gönguvænni og stuðla þannig að bættri lýðheilsu íbúa. Það byggir á framfylgd nýs Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039, sem Alta aðstoðaði bæinn við. Þar er sett fram stefna um að hlúa að göngu og hjólreiðum sem fararmáta í daglegum ferðum íbúa; með góðum gangstéttum í aðlaðandi göturýmum og með sérstökum stígum sem stytta leiðir til helstu vinnustaða, þjónustustofnana og miðbæjar. Bærinn hefur þegar farið af stað við að framfylgja skipulaginu með nánari hönnun. Sjá upptöku og kynningu af fyrirlestri Matthildar.
top of page
bottom of page
Comments