Nýlega voru kynntar niðurstöður í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands en ábata af uppbyggingu er ætlað að fjármagna samgönguframkvæmdir, þ.á.m. Borgarlínu. Keppni hófst í janúar 2023 og var haldin í tveimur þrepum, með nafnleynd í báðum þrepum. Alta aðstoðaði Reykjavíkurborg og Betri samgöngur við ýmsa þætti undirbúnings, t.d. greiningu á skipulagsforsendum svæðisins, samráð um markmið með uppbyggingunni og ritstjórn keppnislýsingar.
Í nafnlausri, opinni samkeppni gefst útbjóðandanum ekki færi á að eiga samtal við þátttakendur um mótun úrlausnar. Þá er mjög mikilvægt að keppnislýsingin sé greinargóð og ítarleg, ekki síst sá hluti sem skilgreinir markmið útbjóðandans. Haldinn var fjölmennur vinnufundur þar sem sérfræðingar frá Reykjavíkurborg, Betri samgöngum, Vegagerðinni og fleiri aðilum fóru yfir úrlausnarefnin og skilgreiningar á
markmiðum, sem síðan voru tíunduð í keppnislýsingunni. Þar voru einnig raktar helstu forsendur, t.d. um landslag, minjar, gróðurfar og ýmsa aðra staðhætti, auk samhengis við nálæga byggð og innviði.
Þátttaka í keppninni var góð og af 36 tillögum á fyrra þrepi var fimm tillögum hleypt áfram til frekari úrvinnslu á seinna þrepi. Í dómnefnd sátu fimm íslenskir dómarar, með borgarstjóra í forsæti og tveir erlendir sérfræðingar, þau Maria Vassilakou og Brent Toderian. Hlutskörpust varð sænska arkitekta- og skipulagsstofan Fojab, með ráðgjöf frá Ramböll verkfræðistofu. Vinningstillöguna má sjá hér.
Σχόλια