Svæðisskipulag

Svæðisskipulag getur verið heppileg leið fyrir sveitarfélög til að stilla saman strengi

Svæðisskipulag er stefnumótandi áætlun nokkurra sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg framtíðarsýn og markmið til að ná þeirri sýn fram.

Alta tekur að sér að verkstýra og móta svæðisskipulag í heild sinni með sveitarstjórnum eða sinnir tilteknum þáttum við svæðisskipulagsgerðina.

Mikil reynsla

Hjá Alta er mikil reynsla af gerð svæðisskipulaga og greiningu á forsendum. Aðeins 6 svæðisskipulög eru í gildi á Íslandi og kom Alta að þremur þeirra. Svæðisskipulag Snæfellsness og svæðisskipulag Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar voru mótuð undir leiðsögn okkar. Alta sá einnig um gerð umhverfisskýrslu fyrir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.

Svæðisskipulag Dalabyggðar, REykhólhrepps og Strandabyggðar

Efling byggðar

Svæðisskipulagsverkefnin hafa m.a. snúist um að styrkja atvinnulíf og byggð með því að greina tækifæri sem búa í auðlindum og sérkennum svæðis og móta á þeim grunni markmið í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfismálum og síðan skipulagsstefnu sem styður við þau.

Svæðisskipulag Snæfellsness

Góð verkefnastjórn

Svæðisskipulagsgerð snýst um góða yfirsýn og aðkomu margra aðila. Þær krefjast því ekki síst góðrar verkefnastjórnunar með skýrri tímalínu og virðingu fyrir skipulagsferlinu.

Höfuðborgarsvæðið

Spurt og svarað um svæðisskipulag

Hvað er svæðisskipulag?


Svæðisskipulag er áætlun sem tvö eða fleiri sveitarfélög standa að til að marka sameiginlega framtíðarsýn um þau byggða-, umhverfis- og skipulagsmál sem þau telja mikilvægt að hafa samræmda stefnu um.
Hvaða hlutverki gegnir svæðisskipulag?


Svæðisskipulag er verkfæri sveitarfélaganna til að stýra málum í átt að sameiginlegri framtíðarsýn, með með mótun markmiða til nánari útfærslu í aðalskipulagi hvers sveitarfélags og deiliskipulagi einstakra staða.
Hver er munurinn á svæðisskipulagi, aðalskipulagi, rammaskipulagi og deiliskipulagi?


Svæðisskipulag er sameiginlegt skipulag tveggja eða fleiri sveitarfélaga; aðalskipulag gefur heildarmynd af einu sveitarfélagi, rammaskipulag gefur yfirsýn yfir svæði eða málaflokk innan eins sveitarfélags og markar línur fyrir deiliskipulag sem kveður á um mannvirkjagerð á tilteknum reit.
Þurfa sveitarfélög að gera svæðisskipulag?


Svæðisskipulagsgerð er valfrjáls fyrir utan á höfuðborgarsvæðinu þar sem er skylda að vinna svæðisskipulag.
Hver sér um vinnslu svæðisskipulags?


Sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga koma á fót svæðisskipulagsnefnd með tveimur fulltrúum úr hverju sveitarfélagi. Svæðisskipulagsnefndin ræður sér ráðgjafa til aðstoðar við mótun og framsetningu áætlunarinnar og við samráð við viðeigandi stofnanir, íbúa og aðra hagsmunaaðila. Kostnaður við svæðisskipulagsgerð skiptist til helminga á milli hlutaðeigandi sveitarfélaga og Skipulagssjóðs, sem Skipulagsstofnun hefur umsjón með.
Hve langan tíma tekur að vinna svæðisskipulag og hve lengi gildir það?


Stefnumörkun svæðisskipulags skal taka til a.m.k. tólf ára tímabils. Reikna má með að svæðisskipulagsvinna taki 2 til 3 ár en það fer þó að nokkru eftir efnislegu umfangi og stærð skipulagssvæðisins.
Hvenær fær almenningur að koma með ábendingar og athugasemdir?


Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar fá tækifæri til að koma með hugmyndir og sjónarmið á ýmsum stigum:

  • Við kynningu lýsingar á skipulagsverkefninu í byrjun vinnunnar.
  • Á opnum fundum sem haldnir eru í vinnuferlinu eða í gegnum aðrar leiðir, t.d. spurningakannanir.
  • Þegar tillaga er í mótun og lögð fram til kynningar.
  • Við auglýsingu fullbúinnar tillögu þegar gefinn er formlegur 6 vikna athugasemdafrestur.
Hvaða lög og reglur gilda?


Skipulagslög nr. 123/2010 lýsa öllum meginreglum um gerð aðalskipulags en skipulagsreglugerð nr. 90/2013 útfærir lagaákvæðin nánar. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á framfylgd laganna og hefur eftirlit með því að skipulagsáætlun sé rétt fram sett. Að auki þarf að fylgja ákvæðum ýmissa annarra laga, t.d. um náttúruvernd, umhverfismat áætlana og fleiri.

Tengd verkefni

Höfuðborgarsvæðið - umhverfismat

Svæðisskipulag Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar

Forverkefni vegna svæðisskipulagsgerðar fyrir Suðurland

Svæðisskipulag Snæfellsness

Yfirsýn um skipulagsáætlanir og skipulagsmál