Stafrænt skipulag

Stafrænt skipulag snýst um það að afmarkanir á skipulagsuppdrætti komi fram sem landupplýsingar

Margvíslegar upplýsingar um innviði, náttúrufar, staðhætti, minjar, stjórnsýslumörk og fleira eru nú aðgengilegar sem landupplýsingar, þ.e. kortagögn. Með stafrænu skipulagi verða upplýsingar um afmarkanir í skipulagi aðgengilegar á sama hátt.

Markviss miðlun gagna

Með samræmdu fyrirkomulagi allra gagna um t.d. aðalskipulag má auðveldlega útbúa aðalskipulagsuppdrátt landsins alls og setja skipulagákvæðin í samhengi við aðrar upplýsingar, t.d. þær sem nefndar voru hér að ofan. Þetta er líka forsenda markvissrar miðlunar, t.d. í vefsjám. Stafrænt skipulag auk vefsjáa og kortagerðar eru jafnframt mikilvæg tæki til stefnumótunar í nútímasamfélagi.

Stafræn aðalskipulög

Alta hefur undanfarin ár unnið öll aðalskipulög með þessum hætti og hefur af því mjög góða reynslu. Alta hefur einnig aðstoðað Skipulagsstofnun við mótun hugmynda um fyrirkomulag og innleiðingu.

Spurt og svarað um stafrænt skipulag

Hvað er stafrænt skipulag?


Stafrænt skipulag vísar til þess þegar landupplýsingar á samræmdu formi um afmarkanir á skipulagsuppdrætti verða til við mótun skipulagsins, auk hefðbundinna uppdrátta og greinargerðar. Auðvelt er að miðla landupplýsingum til ólíkra notenda sem þurfa að glöggva sig á því hvar hvaða skipulagsákvæði gilda, m.a. í vefsjá.
Er allt skipulag stafrænt?


Aðalskipulag ber að vinna með þessum hætti en engar ákvarðanir hafa verið teknar um önnur skipulagsstig.
Hverjir eru kostir stafræns skipulags?


Með stafrænu skipulagi opnast fleiri möguleikar til miðlunar skipulagsgagna til almennings og fagfólks. Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hafa þannig handhægan aðgang að staðfestu skipulagi og skipulagstillögum og geta betur áttað sig á þeim. Nota má gögnin til greiningar og úrvinnslu, oftast í samhengi við aðrar landupplýsingar, t.d. um innviði, auðlindir og náttúrufar.
Er stafrænt skipulag flóknara og dýrara?


Nei en það útheimtir annað verklag en það sem algengast hefur verið, þ.e.a.s. ekki er lengur hægt að nota teiknikerfi til að skrá afmarkanir sem birtast á skipulagsuppdrætti. Á hinn bóginn verða til agaðri og fyllri upplýsingar um afmarkanirnar.
Þarf dýran hugbúnað til að vinna stafrænt skipulag?


Nei. Við hjá Alta notum hugbúnað sem heitir QGIS (sjá https://qgis.org) en það er opinn og ókeypis hugbúnaður en þó mjög öflugur og vandaður.

Tengd verkefni

Aðalskipulag Vestmannaeyja

Námskeið um landupplýsingar

Aðalskipulag Seltjarnarness

Aðstoð við innleiðingu stafræns skipulags

Aðalskipulag Grundarfjarðar

Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps